Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 750. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1493  —  750. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið Guðmund Thorlacius frá fjármálaráðuneyti og Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra á sinn fund. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Fjármálaeftirlitinu, Sambandi íslenskra sparisjóða og Verslunarráði Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Í fyrsta lagi er lagt til að sparisjóðum verði heimilt að sækja um samsköttun með dótturfélögum sínum. Í öðru lagi er tillaga um að kveðið verði skýrar á um heimildir skattrannsóknarstjóra ríkisins til að láta færa mann til skýrslugjafar ef ítrekaðri kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt. Í þriðja lagi er lagt til að til áréttingar verði tiltekið að fjárhæðir barnabóta og vaxtabóta, sem breytt var með lögum nr. 143/2003, um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 2004 og við ákvörðun bóta á því ári vegna tekna og eigna á árinu 2003.
    Meiri hlutinn leggur til að breytingar verði gerðar á 2. gr. frumvarpsins þannig að ákvæðið verði samhljóða sams konar ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991. Í fyrsta lagi að orðið „ítrekaðri“ verði fellt brott. Er það gert til að koma í veg fyrir að ákvæðið torveldi framkvæmd. Ætla má að orðið gæti skapað vafa um það hvenær lögreglu verði skylt að færa aðila til skýrslugjafar, þ.e. hvort það sé þegar kvaðningu hefur ekki verið sinnt tvisvar eða oftar. Því er lagt til að kveðið verði afdráttarlaust á um það að ef kvaðningu hefur ekki verið sinnt sé lögreglu skylt að færa viðkomandi til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra.
    Í öðru lagi er lagt til að lögreglu verði einungis heimilt að færa aðila til skýrslugjafar ef kvaðningu þess efnis hefur ekki verið sinnt án lögmætra forfalla. Þetta er til samræmis við ákvæði í lögum um meðferð opinberra mála.
    Til umræðu kom í nefndinni hvort nota ætti orðið „maður“ í stað orðsins „aðili“ í ákvæðinu. Niðurstaðan varð sú að nota síðarnefnda orðið til samræmis við lög um meðferð opinberra mála.
    Meiri hlutinn leggur því til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    2. gr. orðist svo:
    Við 5. mgr. 103. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sömuleiðis er lögreglu skylt að færa aðila til skýrslugjafar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins ef hann hefur að forfallalausu ekki sinnt kvaðningu þess efnis.

    Kristinn H. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. apríl 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Dagný Jónsdóttir.



Gunnar Birgisson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.