Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 749. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1534  —  749. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um útlendinga, nr. 96 15. maí 2002, með síðari breytingu.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Mjög alvarlegar athugasemdir hafa borist allsherjarnefnd um framlagt frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Fjölmargir umsagnaraðilar efast um að frumvarpið standist friðhelgisákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu.
    Persónuvernd telur t.d. að brýnt sé að taka til nánari athugunar og eftir atvikum endurskoðunar þau ákvæði frumvarpsins sem vega að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur að fjöldinn allur af ákvæðum frumvarpsins standist ekki stjórnarskrá og mannréttindaákvæði.
    Fjölmenningarráð, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rætur, félags áhugafólks um menningarlega fjölbreytni, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Mannréttindasamtök innflytjenda á Íslandi og fjölskyldna þeirra, Félag Víetnama, Félag Nígeríumanna á Íslandi, Félag foreldra tvítyngdra barna, Félag víetnamskra kvenna og prestur innflytjenda gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið og hafa hvatt stjórnvöld til að endurskoða frumvarpið vandlega með hliðsjón af athugasemdum sem borist hafa og breyta því með tilliti til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, alþjóðlegra sáttmála og reglna um mannréttindi og einstaklingsfrelsi. Kirkjuráð og Biskupsstofa hvetja einnig eindregið til að gengið sé tryggilega úr skugga um að frumvarpið skerði ekki mannréttindi einstaklinga.
    Sjaldgæf samstaða myndaðist milli ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna, þar á meðal ungliðahreyfinga ríkisstjórnarflokkanna, en þær lögðust allar gegn frumvarpinu með víðtækri undirskriftasöfnun.
    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega vinnubrögð við samningu frumvarpsins en ekkert samráð var haft við hagsmunaðila. Dómsmálaráðherra virðist vera að nýta sér fyrirhugaða stækkun EES-svæðisins, sem þarf að lögfesta fyrir 1. maí nk., til alls kyns breytinga á lögum um útlendinga sem fela í sér gjörbreytingar á réttindum útlendinga og íslenskra aðstandanda þeirra
    Minni hlutinn leggur til að veigamiklir þættir frumvarpsins verði felldir brott en rétt er að taka fram að ýmislegt jákvætt má finna í því, má þar t.d. nefna 4. gr., 11. gr., 13. gr., a-, b- og g-lið c-liðar og d-lið 16. gr.

A. liður 2. gr.
    Með a-lið 2. gr. frumvarpsins er lagt til að skilgreiningu 13. gr. laganna á hugtakinu,,nánustu aðstandendur“ verði breytt. Greinin gerir nánustu aðstandendum íslenskra ríkisborgara og ríkisborgara annarra ríkja sem dveljast löglega í landinu kleift að fá dvalarleyfi að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Lagt er til að til þess að teljast ,,nánasti aðstandandi“ þurfi maki að hafa náð 24 ára aldri og ættmenni að feðgatali á framfæri umsækjanda að hafa náð 67 ára aldri.
    Hvað varðar skilyrðið um 24 ára aldur maka er einungis vísað til þess í greinargerð að það sé ,,meðal annars“ á grundvelli þess að rétt sé að vernda óskilgreindan hóp fyrir nauðungarhjónaböndum. Rökin fyrir breytingunni eru að hér séu rík verndarsjónarmið sem byggjast á reynslu nágrannaríkjanna þar sem algengt sé meðal sumra hópa nýbúa að foreldrar ráðstafi börnum sínum í hjúskap. Fyrirmynd þessa ákvæðis frumvarpsins er fengin úr dönskum lögum sem þó voru afskaplega umdeild þegar þau voru sett.
    Hið afdráttarlausa skilyrði um 24 ára aldur maka snertir fjölda annarra einstaklinga en þá sem kynni að hafa verið ráðstafað í hjónaband gegn vilja sínum. Ákvæðið mun því á hverju ári hafa margvísleg áhrif á tugi Íslendinga sem vilja sameinast maka sínum á grundvelli hjónabands.
    Í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn Bryndísar Hlöðversdóttur um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar kemur fram að árið 2003 fengu 55 einstaklingar á aldrinum 18–24 ára dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, árið 2002 voru þeir 26, 36 árið 2001 og 25 einstaklingar árið 2000 en 29 fyrstu þrjá mánuði þessa árs.
    Þau rök hafa verið færð fram að þrátt fyrir ákvæðið gæti maki yngri en 24 ára ávallt sótt um hefðbundið atvinnu- og dvalarleyfi eftir öðrum lagaákvæðum. Hins vegar er alveg ljóst að frumvarpið skerðir þann rétt sem erlendir makar Íslendinga undir 24 ára aldri hafa enda munu eldri erlendir makar Íslendinga ekki búa við slíka skerðingu. Í því felst ójafnræði og óréttlæti. Í 7. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, mega einstaklingar stofna til hjúskapar á Íslandi frá 18 ára aldri og ekki er réttlætanlegt að skerða réttindi fólks á aldrinum 18–24 sérstaklega með þessum hætti. Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands kemur fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi túlkað 12. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þannig að í réttinum til að stofna til hjúskapar felist einnig rétturinn til að búa saman.
    Að mati minni hlutans er hér um að ræða óréttláta mismunun. Jafnframt hefur verið bent á óhagræðið sem slíkt ákvæði hefur fyrir ung pör, hvað þá ef börn eru til staðar. Alþjóðahúsið bendir í umsögn sinni á að til að fá hefðbundið atvinnuleyfi þurfi útlendingur að afla sér leyfis áður en komið er til landsins í fyrsta sinn. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum fær maki undir 24 ára aldri ekki dvalarleyfi skv. 13. gr. laga um útlendinga og ákvæðið getur því valdið tímabundnum aðskilnaði hjóna. Auk þessa er óvíst um þörf fyrir slíkt ákvæði, einkum ef miðað er við þau rök sem koma fram í frumvarpinu.
    Laganefnd Lögmannafélags Íslands hefur lýst sig andsnúna þessu ákvæði og vísar m.a. í jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Fjölmargir aðrir eru sömuleiðis andsnúnir því og má þar nefna Alþjóðahús, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Fjölmenningarráð, Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Félag Víetnama, Félag Nígeríumanna á Íslandi, Félag foreldra tvítyngdra barna, Félag víetnamskra kvenna, Rætur, félags áhugafólks um menningarlega fjölbreytni, Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, Mannréttindasamtök innflytjenda á Íslandi og fjölskyldna þeirra og prest innflytjenda. Minni hlutinn leggur því til að skilyrðið um 24 ára aldur verði fellt brott.

A. liður 2. gr.
    Minni hlutinn telur að skilyrðið um að ættmenni að feðgatali þurfi að hafa náð 67 ára aldri til að geta sótt um dvalarleyfi fyrir aðstandanda sé óþarft og að það byggist á misskilningi. Ákvæðið er augljóslega byggt á íslenskum aðstæðum en eftirlaunaaldur er í íslenskri almannatryggingalöggjöf skilgreindur við 67 ára aldur, sbr. 11. gr. laga nr. 117/1993. Frumvarpið tekur ekki mið af þeim mismunandi aðstæðum sem kunna að ríkja að þessu leyti hjá öðrum ríkjum. Í ákvæðinu er fjallað um foreldra og afa og ömmur viðkomandi en minni hlutinn telur að ákvæðið hindri þetta fólk, sem getur vel verið yngra en 67 ára, í að flytjast til landsins til að njóta samvista við börn sín og barnabörn.
    Samkvæmt frumvarpinu er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að ættmenni að feðgatali fari á þennan hátt hjáleið inn á íslenskan vinnumarkað. Í umsögn Alþjóðahúss er hins vegar bent á að núverandi löggjöf tryggir að ekki er hægt að fara þá leið inn á vinnumarkaðinn. Núgildandi lög kveða á um að ættmenni innflytjenda þurfi að sækja um atvinnuleyfi ef þeir hyggjast fá sér vinnu. Til þess að atvinnurekandi fái leyfi til að ráða ríkisborgara utan EES- svæðisins til vinnu þarf hann að auglýsa starfið á svæðinu í þrjár vikur, stéttarfélag að gefa umsögn og Vinnumálastofnun að meta atvinnuástand hér á landi.
    Þrátt fyrir orðin „og á þeirra framfæri“ í lögunum hefur ákvæðið verið túlkað svo að ættmenni, jafnt sem aðrir einstaklingar eldri en 18 ára, þurfi að sýna fram á sjálfstæða framfærslu hvort sem þeir eru aðstandendur Íslendinga eða ekki. Ekki hefur dugað að afkomendur sem hafa þessa einstaklinga á framfæri sýni fram á nægar tekjur. Ákvæði þetta þyrfti að gera ráð fyrir því að viðkomandi umsækjandi geti verið á framfæri afkomanda og þurfi ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, því slíkt er ógerningur í flestum tilfellum.
    Laganefnd Lögmannafélags Íslands leggst gegn þessari breytingu á 13. gr., m.a. með vísan til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, og sama gildir um fjölmarga aðra umsagnaraðila. Minni hlutinn leggur því til að skilyrðið um 67 ára aldur falli brott.

B-liður 2. gr.
    Með b-lið. 2. gr. frumvarpsins er stefnt að því að stemma stigu við nauðungarhjónaböndum og því að stofnað sé til málamyndahjónabanda í þeim tilgangi einum að útvega útlendingi dvalarleyfi á Íslandi. Er lagt til að það varði missi réttar til dvalarleyfis ef uppvíst verður um slíkar aðstæður.
    Minni hlutinn leggst eindregið gegn þeirri leið, sem lögð er til í b-lið 2. gr. frumvarpsins, að kveða á um öfuga sönnunarbyrði viðkomandi einstaklinga þegar ,,rökstuddur grunur“ er um málamyndahjónaband eða nauðungarhjónaband í skilningi laga um útlendinga. Vandmeðfarið er að meta hvenær grunur er rökstuddur og ekki síður hvenær viðkomandi einstaklingum tekst að sýna fram á annað ,,með óyggjandi hætti“. Útlendingastofnun er í frumvarpinu falið vald til að meta þessi atriði.
    Í umsögn Persónuverndar er það talið vera mikið álitaefni hvort ,,rökstuddur grunur“ einn og sér geti talist nægilega áreiðanlegur grundvöllur, samkvæmt almennum sjónarmiðum, þegar teknar eru ákvarðanir um svo mikilvæg réttindi sem hér um ræðir, þ.e. landvistarleyfi einstaklings í sama landi og maki hans býr. Persónuvernd leggst því gegn lögfestingu þessa ákvæðis.
    Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur að þetta ákvæði um öfuga sönnunarbyrði takmarki persónufrelsi og friðhelgi einkalífs með of víðtækum og almennum hætti og skapi hættu á því að mörg hjónabönd sem ekkert er athugavert við verði talin falla undir ákvæðið. Laganefndin bendir sömuleiðis á að til að ná þeim tilgangi að stemma stigu við málamyndahjónaböndum og nauðungarhjónaböndum sé nægilegt að kveða á um refsinæmi þess. Er það þá metið fyrir dómstólum hvort háttsemin telst sönnuð. Telur laganefnd í umsögn sinni ekki rétt að kveða á um missi réttar til dvalarleyfis fyrr en eftir að slík háttsemi hefur verið sönnuð eftir meginreglum opinbers réttarfars, m.a. þeirri grundvallarreglu, sem kveðið er á um í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, að maður skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð.
    Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og leggst gegn þessu ákvæði. Hann telur hins vegar að hjúskapur sem stofnað er til í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis eða hjúskapur sem hefur ekki verið stofnað til með vilja beggja aðila skuli ekki veita viðkomandi rétt til dvalarleyfis og leggur til breytingartillögu við b-lið 2. gr.
    Minni hlutinn gerir einnig alvarlegar athugasemdir við þær vísbendingar um málamyndahjónabönd sem tilteknar eru í athugasemdum við frumvarpið og telur þær ekki vera í samræmi við raunveruleikann.

5. gr.
    Oft skortir talsvert á að útlendingum séu veittar nægilegar upplýsingar um hvernig beri að fara að endurnýjun dvalar- og atvinnuleyfa. Dæmi eru um að fólk búi og vinni í landinu í góðri trú um að pappírar þeirra séu í lagi þegar annað kemur á daginn. Ekki má heldur gleyma því að algengt er að atvinnurekendur taki að sér að sjá um dvalar- og atvinnuleyfi erlendra starfsmanna sinna.
    Á meðan enn skortir talsvert á að grundvallarupplýsingum sé komið til útlendinga og lög kveða á um að atvinnuleyfi útlendinga sé í höndum atvinnurekanda er ekki eðlilegt að vísa útlendingum úr landi vegna mistaka í tengslum við veitingu dvalar- og atvinnuleyfa.
    Minni hlutinn telur ekki rétt að vísa útlendingi úr landi dvelji hann ólöglega í landinu af gáleysi og leggur til breytingartillögu við 5. gr. frumvarpsins.

A-liður 7. gr.
    Minni hlutinn sér ekki ástæðu til setja sérstaka húsleitarheimild í lög um útlendinga á þann hátt sem frumvarpið ber með sér. Úrræði XI. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, ættu að duga vel gagnvart brotum á lögum um útlendinga jafnt sem öðrum lögum.
    Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu er verndað af 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þess vegna ber að fara mjög varlega þegar kemur að skerðingu þessara réttinda.
    Minni hlutinn telur nauðsynlegt að rökstyðja gagnsemi húsleitar í umræddu skyni, eigi að lögtaka sérstakt ákvæði um slíka skerðingu á rétti fólks til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í frumvarpinu kemur ekki fram með hvaða hætti húsleit eigi að geta leitt í ljós hvort til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda eða ekki. Persónuvernd leggst gegn samþykki þessa ákvæðis og telur rétt að metið sé til hlítar hvort raunverulega sé þörf á þeirri réttindaskerðingu sem ákvæði 7. gr. kveða á um.
    Eigi hins vegar að festa slíkt sérstakt húsleitarákvæði í lög um útlendinga telur minni hlutinn það lykilatriði að kveðið sé skýrt á um að dómsúrskurður þurfi að liggja fyrir áður en ráðist er í húsleit. Orðalag frumvarpsins býður upp á margvíslega túlkun hvað þetta varðar og hafa bæði Persónuvernd og Alþjóðahúsið lýst yfir áhyggjum af því.
    
B-liður 7. gr.
    Minni hlutinn mælist til að b-liður 7. gr. frumvarpsins verið felldur brott. Sé vilji fyrir því hjá umsækjanda dvalarleyfis að leggja fram lífsýni ætti honum að vera það leyfilegt. Í Finnlandi getur útlendingur sjálfur lagt fram niðurstöðu slíkrar rannsóknar ef hann getur ekki lagt fram fæðingarvottorð t.d. vegna ástands í heimalandinu. Slíkt fyrirkomulag verður að teljast nú þegar vera löglegt og leyfilegt í ljósi þeirrar sönnunarbyrði sem hvílir á viðkomandi umsækjanda um skyldleika við aðstandenda hér á landi.
    Hins vegar leggst minni hlutinn gegn því að Útlendingastofnun fái heimild til að fara fram á að umsækjandinn gangist undir lífsýnatöku. Slíka heimild í lögum handa Útlendingastofnun er hægt að túlka gegn viðkomandi umsækjanda ef hann neitar að gangast undir lífsýnatöku, hefur ekki efni á henni eða ekki tækifæri til lífsýnatöku í heimalandi sínu. Sönnunarbyrði um skyldleika hvílir á viðkomandi umsækjanda og það er þekkt í réttarfari að þögn og samstarfsleysi viðkomandi getur verið túlkuð honum í óhag.
    Laganefnd Lögmannafélags Íslands telur að of langt sé gengið inn á svið friðhelgi einkalífs og fjölskyldu með þessu ákvæði. Persónuvernd leggst einnig gegn samþykkt ákvæðisins og telur nauðsynlegt að metið sé hvort raunverulega sé ástæða til að lögfesta þá skerðingu á friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sem lögð er til. Þá telur Persónuvernd einnig nauðsynlegt að metið verði hvort yfirleitt sé réttlætanlegt í ljósi grundvallarreglunnar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu að lögfesta heimild um töku lífsýna í þessu skyni.
    Bent hefur verið á margvíslega annmarka varðandi þetta ákvæði. Feðrunarreglur geta leitt til þess að maður sem ekki er í raun kynfaðir barns verði engu að síður formlega álitinn faðir í lagalegum skilningi við fæðingu þess og upp frá því, sbr. Pater est regluna sem m.a. gildir hér á landi. Einnig má benda á vandkvæði þessa ákvæðis hvað varðar kjörbörn, tæknifrjóvganir, rangt feðruð börn og fórnarlömb nauðgana.
    Minni hlutinn telur sömuleiðis margt vera óljóst um framkvæmdina á slíku ákvæði. Samkvæmt frumvarpinu er Útlendingastofnun falið vald til að kveða á um þessa rannsókn og ekki er kveðið á um það í frumvarpinu hvaða skilyrði þurfa að liggja til grundvallar þess að krafist verði rannsóknar á erfðaefni. Sömuleiðis segir ekkert í frumvarpinu um hvernig skuli fara með lífsýnið eða hver skuli framkvæma töku þess og komu fram áhyggjur í máli fulltrúa Persónuverndar frammi fyrir nefndina um þetta atriði. Alþjóðahúsið og fleiri aðilar hafa sömuleiðis miklar áhyggjur af framkvæmd þessa ákvæðis.
    Hjá fulltrúum dómsmálaráðuneytisins kom fram að gert væri ráð fyrir, á þessu stigi, að viðkomandi umsækjandi greiddi sjálfur fyrir lífsýnatökuna og sæi sjálfur um að lífsýni væri tekið. Minni hlutinn telur slíkt fyrirkomulag vera algjörlega ósættanlegt enda er ljóst að í mörgum löndum er ekki boðið upp á slíkar lífsýnatökur og kostnaður gæti hæglega orðið flestum umsækjendum óyfirstíganlegur.
    Jafnframt telur minni hlutinn að þegar settar eru slíkar íþyngjandi reglur eigi ríkið sjálft að bera kostnað sem af þeim hlýst, enda ákveður Útlendingastofnun sjálf hvenær á að grípa til þessara aðgerða og hvenær ekki. Fram kom á fundi nefndarinnar með fulltrúa Útlendingastofnunar að ekki komi upp mörg mál af þessum toga hjá stofnuninni og þess þá heldur álítur minni hlutinn að ekki eigi að setja inn svo íþyngjandi reglu sem þessa. Í máli fulltrúa Útlendingastofnunar kom fram að um gæti verið að ræða eitt tilfelli á tveggja ára fresti.
    Hvað varðar önnur lönd má nefna að í Finnlandi er það einstaklingsins að ákveða að leggja fram lífsýni verði skyldleiki ekki sannaður með öðrum hætti, eins og áður kom fram. Í finnsku lögunum er jafnframt kveðið sérstaklega á um hvar sýnin skuli tekin og hvernig og hvar þau skuli geymd. Jafnframt greiðir hið opinbera allan kostnað við sýnatökuna. Í Noregi er ekki að finna ákvæði eins og er í frumvarpinu en á heimasíðu útlendingastofnunar í Noregi kemur fram að Norðmenn bjóða þennan valkost sé erfitt að nálgast nauðsynleg gögn. Norska ríkið greiðir einnig allan þann kostnað sem viðkomandi verður fyrir.
    Minni hlutinn telur einnig að ákvæðið sé alls ekki nógu skýrt. Hæglega má skilja það þannig að Útlendingastofnun hafi lagalegan rétt til að krefjast lífsýnatöku úr viðkomandi umsækjanda og ættmennum hans, jafnvel án dómsúrskurðar. Í umsögn Persónuverndar koma fram alvarlegar athugasemdir við þetta. Sé hins vegar ekki tilgangur ákvæðisins að fá Útlendingastofnun slíka heimild þarf að gera ákvæðið miklu skýrara en það er núna. Minni hlutinn leggst hins vegar alfarið gegn slíkri heimild og telur að framlagning lífsýnis eigi ætíð vera val viðkomandi og að hans eigin frumkvæði.
    Með vísan til 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu tekur minni hlutinn undir það álit laganefndar Lögmannafélags Íslands að inngrip í friðhelgi einkalífs samkvæmt ákvæðinu og sú framkvæmd þess sem þar er kveðið á um, sé ekki í nægilegu samhengi við hagsmunina sem stefnt er að því að vernda.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. frumvarpsins er lagt til að hælisleitandi eigi ekki rétt á skipun talsmanns þegar kærð er ákvörðun skv. d- og e- liðum 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga um að taka umsókn um hæli ekki til meðferðar hér á landi.
    Samkvæmt gildandi lögum eiga slíkir hælisleitendur rétt á aðstoð talsmanns. Þótt synjun á að taka umsókn til meðferðar hér á landi byggist á alþjóðlegum samningum geta risið ýmis álitaefni í tengslum við slíka ákvörðun, svo sem varðandi það hvort ákvæði viðkomandi alþjóðasamninga og/eða undanþáguákvæði 2. mgr. 43. gr. laganna eiga við.
    Hælisleitandi kann að hafa gildar og ríkar ástæður fyrir því að sækja hér um hæli fremur en í öðrum löndum sem hann hefur komið til á ferðaleið sinni eða fengið útgefna vegabréfsáritun hjá. Gæta verður þess að íslensk yfirvöld hafa ávallt heimild til að taka hælisumsókn til efnislegrar meðferðar þó að ákvæði d- og e-liðar nefndrar greinar kunni að eiga við umsækjanda. Getur það varðað umsækjanda miklu að fá sérfræðiaðstoð við slíkar aðstæður, sérstaklega þegar litið er til þess að kæra frestar ekki framkvæmd framsendingar hans til annars lands. Í umsögn Rauða krossins kemur fram að ef talsmanns nýtur ekki við er hælisleitandi sviptur öllum raunhæfum úrræðum til að fá hnekkt ákvörðun stjórnvalds,
    Þá er sérstaklega bent á 2. mgr. 46. gr. laganna, um mat á endursendingu flóttamanns, en þar stendur að ekki skuli endursenda flóttamann til annars ríkis skv. c-, d- og e-lið 1. mgr. ef hann hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd.
    Samkvæmt laganefnd Lögmannafélags Íslands skerðir það mjög réttaröryggi hælisleitenda að fella niður réttaraðstoð til þeirra af þessum ástæðum.
    Minni hlutinn leggst gegn því að hælisleitendur verði sviptir þessum réttindum.

Um 15. gr.
    Í 15. gr. frumvarpsins er heimild lögreglu til að leggja hald á fjármuni til greiðslu fjárkröfu vegna kostnaðar við brottför og gæslu viðkomandi samkvæmt 56. gr. laganna. Heimild lögreglu til haldlagningar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála tengist rannsókn á refsiverðum verknaði. Fjármunir sem útlendingur kann að hafa á sér þurfa ekki á nokkurn hátt að tengjast refsiverðum verknaði en fjárkrafa sem stofnast til handa íslenska ríkinu vegna kostnaðar við brottför útlendings er almenn fjárkrafa. Einnig er sérstaklega kveðið á um það að slík krafa sé aðfararhæf. Mjög varhugavert er að þessi heimild sé sett í lög þar sem henni er einungis ætlað að tryggja greiðslu á kröfu er lýtur almennum reglum fjármunaréttarins. Með ákvæðinu er íslenska ríkinu veitt hagræði fram yfir aðra kröfuhafa útlendings til að fá fullnægju kröfu sinnar.
    Í frumvarpinu kemur ekki fram að skilja eigi eitthvað eftir af fjármunum handa viðkomandi en það getur haft bagalegar afleiðingar fyrir viðkomandi. Að mati Rauða krossins kann heimild þessi að orka mjög tvímælis. Minni hlutinn mælist til að þetta ákvæði verði fellt brott enda ekki miklir hagsmunir ríkisins í húfi.

Um 16. gr.
    Minni hlutinn vill fella brott núverandi b-lið 2. gr. frumvarpsins en leggur í staðinn til í breytingartillögu að í þeim lið verði tryggt refsinæmi málamyndahjónabanda og nauðungarhjónabanda.
    Í h-lið 16. gr. frumvarpsins er lagt til að gert verði refsivert að hafa í vörslum sínum falsað vegabréf, fölsuð skilríki eða falsaða vegabréfsáritun. Eðli málsins samkvæmt koma ákveðnir hópar fólks yfirleitt ólöglega yfir landamæri og þá oft með fölsuð ferðaskilríki.
    Það er í andstöðu við 31. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland fullgilti 1. mars 1956, að ákæra í öllum málum vegna falsaðra skilríkja, án þess að tekið sé tillit til sérstakra aðstæðna flóttamanna. Þessi regla er undirstrikuð í leiðbeiningarreglum UNHCR til ríkja um málefni flóttamanna. Minni hlutinn telur að setja beri í lagatextann sjálfan fyrirvara um að þetta ákvæði eigi ekki að ná til flóttamanna.
    Þann 13. desember 2000 var af Íslands hálfu undirritaður Palermó-samningur Sameinuðu þjóðanna gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi og viðauki við samninginn um mansal. Ákvæði h-liðar 16. gr. frumvarpsins gengur gegn samningnum um að refsa skipuleggjendum mansals en vernda fórnarlömbin. Fórnarlömb mansals eru oft með fölsuð ferðaskilríki. Minni hlutinn telur því að það beri að gera fyrirvara í lagatextanum varðandi fórnarlömb mansals sem kunna að hafa fölsuð skilríki í vörslum sínum.
     Að lokum leggur minni hlutinn til að breytingartillögur Atla Gíslasonar á 1. mgr. 11. gr. og við 15. gr. laganna verði samþykktar.
    Kolbrún Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 28. apríl 2004.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Gunnar Örlygsson.