Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 870. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1539  —  870. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögreglulögum, nr. 90 13. júní 1996, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Guðmund Guðjónsson og Bjarna J. Bogason frá embætti ríkislögreglustjóra og Hörð Jóhannesson frá embætti lögreglustjórans í Reykjavík.
    Í frumvarpinu er lagt til að tæknideild lögreglunnar í Reykjavík verði styrkt og að hún taki við samanburðarrannsóknum sem hingað til hafa verið gerðar við tæknideild ríkislögreglustjóra. Jafnframt varðveiti tæknideild lögreglunnar í Reykjavík fingrafarasafn og ljósmyndasafn lögreglu og haldi því við. Hlutverk tæknideildar ríkislögreglustjóra verði hins vegar að hafa eftirlit með framkvæmd tæknirannsókna lögreglu, annast erlend samskipti vegna tæknirannsókna og samstarf, halda skrá yfir horfið fólk og hafa umsjón með störfum kennslanefndar og útgáfu leiðbeininga og verklagsreglna um tæknirannsóknir sem ríkislögreglustjóri setur.
    Við breytinguna sem ráðgerð er í frumvarpinu munu 1,5 stöðugildi færast frá ríkislögreglustjóra yfir til tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík. Tæknideildin í Reykjavík hefur hingað til þótt afar öflug og vakið athygli bæði hér á landi og erlendis fyrir starfsaðferðir sínar. Nefndin telur því ljóst að með breytingunni muni deildin eflast enn frekar og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birgir Ármannsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.



Jónína Bjartmarz.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Sigurjón Þórðarson.



Sigurður Kári Kristjánsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.