Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 442. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1577  —  442. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á löggjöf um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar vegna rafrænnar útgáfu ELS-tíðinda.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti og Borghildi Erlingsdóttur og Lilju Aðalsteinsdóttur frá Einkaleyfastofu.
    Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Landssambandi hugvitsmanna, Kennaraháskóla Íslands, áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Einkaleyfastofunni, Iðntæknistofnun, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Vísinda- og tækniráði, Háskólanum á Akureyri og Hafrannsóknastofnuninni.
    Með frumvarpinu er ætlunin að lögfesta heimildir til að gefa ELS-tíðindi út á rafrænan hátt og þar á meðal á netinu. Einkaleyfastofa sér um að birta almenningi allar tilkynningar varðandi umsóknir og skráningar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar í ELS-tíðindum og hefur birt þau á netinu samhliða hinni prentuðu útgáfu frá árinu 2001. Hægt er að nálgast öll tölublöð ELS-tíðinda frítt á netinu frá október 1990.
    Samkvæmt frumvarpinu verða ELS-tíðindin þó einungis gefin út á netinu og miðast réttaráhrif birtingar við tilgreindan útgáfudag þegar þeim er dreift á netinu.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að nú kostar hvert eintak ELS-tíðinda í lausasölu 300 kr. hjá Einkaleyfastofunni en prentun þeirra verður hætt. Hins vegar verður þó áfram hægt að nálgast útprentað eintak eða einstaka hluta þess gegn greiðslu og verða ákvæði um kostnað sett í reglugerð. Nefndin leggur áherslu á að gjaldið fyrir útprentun og sendingu verði hóflegt og endurspegli þann kostnað sem Einkaleyfastofan hefur af þjónustunni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 4. gr. Greinin orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

    Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 3. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Kristján L. Möller.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Björgvin G. Sigurðsson.