Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 974. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1629  —  974. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á útvarpslögum nr. 53/2000 og samkeppnislögum nr. 8/1993.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



Inngangur.
    Við meðferð nefndarinnar komu fram athugasemdir sem fela í sér alvarleg álitamál um hvort frumvarpið standist stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og var þar einkum vísað til mannréttindaákvæða, atvinnufrelsis, tjáningarfrelsis, eignarréttar og jafnræðisreglu.
    Frumvarpið felur í sér alvarlega íhlutun í fjölmiðlamarkaðinn, gengur mun lengra en nauðsynlegt er í lýðræðissamfélagi og brýtur í bága við meðalhófsreglu íslenskra laga.
    Frumvarpið gæti reynst samkeppnishamlandi í stað þess að tryggja samkeppni, dregið úr aðgengi fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni og nýrra aðila að markaðnum.
    Frumvarpinu virðist beint gegn einni tiltekinni sjónvarpsstöð þrátt fyrir að orðalag þess sé klætt í almennan búning.
    Við meðferð málsins hefur:
    ekki verið litið til skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum, einkum reglna um staðfesturétt, þjónustufrelsi, fjármagnsflutninga og reglna um lögfræðilega vissu og bann við afturvirkni,
    ekki verið tekið tillit til mannréttindasáttmála Evrópu eða samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi,
    ekki verið gefið svigrúm fyrir efnahags- og viðskiptanefnd og menntamálanefnd til að ljúka athugun á málinu samkvæmt beiðni allsherjarnefndar,
    ekki verið gefinn nægilegur tími fyrir umsagnaraðila til að senda nefndinni umsagnir um málið,
    engin skoðun farið fram á heildarumhverfi fjölmiðlunar og dreifingu sjónvarps- og útvarpsefnis eða á áhrifum frumvarpsins á rekstrarumhverfi starfandi fjölmiðla,
    ekkert mat farið fram á því hvort og þá hvernig frumvarpið geti náð uppgefnu markmiði sínu, þ.e. að auka fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði; sterk rök hafa komið fram um hið öndverða, þ.e. verði frumvarpið að lögum muni draga úr fjármagni til innlendrar dagskrárgerðar sem getur haft neikvæð áhrif á íslenska menningu og fjölbreytni í fjölmiðlum,
    ekki komið fram nægilegur rökstuðningur um nauðsyn þess að breyta lögum í þá veru sem frumvarpið gerir ráð fyrir þrátt fyrir að ljóst sé að það muni hafa í för með sér verulega íþyngjandi áhrif á fyrirtæki og einstaklinga,
    ekki gefist tóm til að ræða efni og áhrif breytingartillagna sem meiri hlutinn lagði fram eða kostur á að leita umsagna um þær.
    Örskammur umsagnarfrestur og óhófleg áhersla meiri hlutans á flýtimeðferð málsins í nefndinni hefur falið í sér óvirðingu gagnvart þingi og þjóð og komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu.
    Breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram af hálfu meiri hluta allsherjarnefndar eyða ekki þeirri óvissu sem ríkir um framkomin álitamál.
Málsmeðferð.
    Hinn 19. desember sl. skipaði menntamálaráðherra nefnd til að kanna hvort tilefni væri til að setja sérstaka löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum. Nefndin skyldi skila ráðherra skýrslu 1. mars 2004 en skýrslugerðin dróst fram í apríl enda kom í ljós að málið var gríðarlega umfangsmikið. Skýrslu nefndarinnar var beðið með nokkurri eftirvæntingu en þegar hún var tilbúin í byrjun apríl var hún ekki gerð opinber og henni var haldið leyndri fyrir Alþingi í tvær vikur. Skýrslan var fyrst gerð opinber samhliða því að forsætisráðherra lagði fram frumvarp til laga um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum 28. apríl sl. Fyrsta umræða um málið fór fram 3. maí og var málinu vísað til allsherjarnefndar daginn eftir. Samkvæmt venju var málið sent fjölmörgum aðilum til umsagnar en frestur til að gefa umsögn var nánast enginn, aðeins tæpir tveir sólarhringar.
    Nefndinni bárust um 30 umsagnir og erindi um málið en fram kom í mörgum þeirra að umsagnaraðilar töldu sig ekki geta tekið efnislega afstöðu til málsins með svo skömmum fyrirvara enda málið mjög flókið og skýrsla fjölmiðlanefndarinnar sem fylgdi frumvarpinu ein og sér ríflega 100 bls. Nefndin kallaði fyrir sig fjölmarga sérfræðinga og hagsmunaaðila til að ræða efni frumvarpsins og vöruðu þeir nánast allir við því að Alþingi lögfesti frumvarpið. Flestir umsagnaraðilar töldu verulegar líkur á að það bryti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, grundvallarreglur EES-samningsins og þjóðréttarskuldbindingar Íslands, m.a. ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningafrelsi.
    Af þessum sökum fór minni hlutinn formlega fram á að aflað yrði lögfræðilegrar álitsgerðar frá Lagastofnun Háskóla Íslands og Evrópuréttarstofnun Háskólans í Reykjavík til að hægt væri að leggja hlutlægt mat á þær alvarlegu athugasemdir sem fram voru komnar. Meiri hlutinn hafnaði því alfarið að leita álits þessara óvilhöllu aðila og keyrði málið áfram með hraði þrátt fyrir þau varnaðarorð sem fjölmargir sérfræðingar í stjórnskipunar- og Evrópurétti höfðu uppi. Engar skýringar hafa fengist á því hvers vegna meiri hlutanum lá svo mikið á að afgreiða málið úr allsherjarnefnd. Nefndin fékk vart eina viku til að fara yfir málið, þrátt fyrir að efni þess varðaði grundvallarréttindi íslenskra borgara og fyrirtækja og réttindi fyrirtækja og einstaklinga á öllu EES-svæðinu. Þá bendir minni hlutinn á að málið var sent til umsagnar til efnahags- og viðskiptanefndar og menntamálanefndar en málið varðar málefnasvið þessara tveggja nefnda. Meiri hlutinn ákvað að grípa fram fyrir hendurnar á þessum tveimur fagnefndum og afgreiða málið áður en þeim gæfist tóm til að senda allsherjarnefnd umsagnir sínar eins og beðið hafði verið um. Slík vinnubrögð eru einsdæmi í sögu Alþingis.

Sértækt gildissvið.
    Íslenskur markaður er mjög lítill sem hefur í för með sér ákveðnar takmarkanir fyrir rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu. Rekstrarafkoma fyrirtækja í fjölmiðlum hefur með örfáum undantekningum verið algerlega óviðunandi, hvort sem litið er til ljósvakamiðla eða prentmiðla. Til þess að unnt sé að framleiða innlent dagskrárefni og halda uppi öflugum fréttaflutningi er fjölmiðlum nauðsynlegt að hafa trausta fjárhagslega bakhjarla en hingað til hafa þeir ekki verið á hverju strái. Verði frumvarpið að lögum er hætta á að aðgangur fjölmiðlafyrirtækja að fjármagni verði takmarkaður verulega.
    Í tengslum við vinnslu frumvarpsins hefur ríkisstjórnin ekki látið fara fram skoðun á samkeppnisumhverfi íslenskra fjölmiðlafyrirtækja og ekkert hefur verið fjallað um stóra hluta sjónvarpsmarkaðarins, svo sem útsendingar um breiðband, um tölvur, ljósleiðara, gervihnetti o.fl., en þessi tækni er í mjög örri þróun og á eftir að hafa veruleg áhrif á dreifingu sjónvarpsefnis í framtíðinni. Eins og staðan er nú er ekki skortur á leiðum til að dreifa sjónvarpsefni á Íslandi en hins vegar er takmörkuð framleiðsla á slíku efni í landinu.
    Frumvarpið virðist vera klæðskerasaumað utan um eitt fyrirtæki á markaðnum. Þrátt fyrir að frumvarpið sé almennt orðað er ljóst að efnisákvæðum þess er eingöngu beint að einum aðila, Norðurljósum hf. Þetta lýtur að orka mjög tvímælis, ekki síst í ljósi þess að í umræðum um málið kom ítrekað fram að markmið ríkisstjórnarinnar með lagasetningunni var ekki að setja almennar reglur um takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum heldur koma böndum á eignarhald tiltekinna aðila á ljósvakamarkaðnum og stöðva umræðu í fjölmiðlum sem m.a. fól í sér gagnrýni á ríkisstjórnina. Slíkt markmið felur í sér kröfur um ritskoðun af hálfu stjórnvalda sem samrýmist engan veginn lýðræðislegum stjórnarháttum.
    Norðurljós hf. sendu allsherjarnefnd ítarlega greinargerð um rekstrarskilyrði fjölmiðlafyrirtækja. Þá gerðu fulltrúar fyrirtækisins nefndinni grein fyrir því hverjar yrðu afleiðingar lögfestingar þessa frumvarps. Um síðustu áramót réðust Norðurljós hf. í verulega endurskipulagningu á rekstri sínum og öfluðu nýrra fjárfesta til að fá nýtt fjármagn inn í félagið. Öll áform fyrirtækisins í þessa veru virðast sett í uppnám vegna þeirra snöggu og umfangsmiklu breytinga sem ríkisstjórnin hefur nú boðað á fjölmiðlamarkaðnum.

Tilmæli Evrópuráðsins.
    Athygli vekur í greinargerð með frumvarpinu, skýrslu fjölmiðlanefndarinnar og áliti meiri hlutans að ofuráhersla er lögð á tilmæli Evrópuráðsins frá 1999 um fjölbreytni í fjölmiðlun. Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ágætur grunnur til upplýstrar umræðu um framtíðarskipulag fjölmiðlamarkaðarins á Íslandi en eru ekki skuldbindandi að þjóðarétti sem slík þótt stjórnvöldum sé falið að taka tilhlýðilegt tillit til þeirra. Í samþykktum Evrópuráðsins felast leiðbeiningar til aðildarríkja ráðsins um það hvernig tryggja megi fjölbreytni í fjölmiðlun. Það er hins vegar misskilningur sem fram hefur komið í máli fjölmargra stjórnarliða að með tilmælum Evrópuráðsins takist íslenska ríkið á hendur þjóðréttarlegar skuldbindingar.
    Tilmæli Evrópuráðsins um fjölmiðla eru hluti af heildstæðu ferli sem hefur staðið yfir í meira en áratug og m.a. leitt af sér fjölmargar ábendingar um það hvernig megi tryggja gagnsæi, fjölbreytni og sjálfstæði í fjölmiðlun. Þessa þróun hafa íslensk stjórnvöld látið sig engu varða hingað til og hljómar því óneitanlega hjákátlega að heyra ráðherra skyndilega tjá sig um þjóðréttarlegar skyldur í þessu sambandi.
    Í grein sem Páll Þórhallsson, lögfræðingur í fjölmiðladeild Evrópuráðsins, skrifaði í Morgunblaðið 2. maí sl. kemur fram gagnrýni á túlkun ríkisstjórnarinnar á tilmælum Evrópuráðsins. Þar vekur hann athygli á vissum annmörkum á íslenskum fjölmiðlamarkaði sem lúta einkum að því að Ríkisútvarpið sé enn ekki nógu sjálfstætt og stýring og eftirlit með handhöfum útvarpsleyfa sé í lágmarki. Þá segir hann að samþjöppun eignarhalds veki athygli en mæti samt skilningi enda þurfi verulega fjármuni til að reka alhliða sjónvarpsstöð.
    Tekið er undir það sjónarmið sem kemur fram í grein Páls að þegar ríkið herði mjög skilyrði fyrir útgáfu útvarpsleyfa verði að rökstyðja hvers vegna aðrar og vægari leiðir hafi ekki verið færar til að ná sömu markmiðum. Þetta hefur ríkisstjórninni ekki tekist að rökstyðja. Sem dæmi um vægari úrræði sem grípa mætti til má nefna að beita mætti ákvæðum gildandi samkeppnislaga og eins kæmi til álita að gera breytingar á lögunum til að gera þau að virkara tæki í þessu skyni. Þá er ástæða til að vekja athygli á að frumvarpið tekur á engan hátt á því að tryggja gagnsæi í eignarhaldi eða stuðla að ritstjórnarlegu sjálfstæði sem er þó brýnt úrlausnarefni.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.
    Fjölmargir sérfræðingar í stjórnskipunarrétti komu fyrir nefndina og bentu á að efni frumvarpsins væri sértækt, íþyngjandi og afturvirkt og mundi væntanlega brjóta fjölmörg ákvæði mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Í umsögnum kom fram að efni frumvarpsins sé andstætt meðalhófsreglu, þ.e. að ekki skuli gengið lengra í að skerða stjórnarskrárvarin réttindi með lagasetningu en nauðsynlegt er til að ná lögmætu markmiði. Minni hlutinn bendir á að markmið frumvarpsins sé þar að auki mjög óljóst og ekki verði ráðið af greinargerðinni með frumvarpinu hvað fyrir löggjafanum hefur vakað með lagasetningunni. Enginn þeirra fjölmörgu sérfræðinga sem tjáðu sig um frumvarpið fyrir nefndinni treystu sér til að fullyrða að frumvarpið stæðist stjórnarskrá.
    Álitaefnin varða jafnræðisreglu, vernd eignarréttar, atvinnufrelsi, tjáningarfrelsi, afturvirkni og meðalhófsreglu. Ekki var leitað álits óvilhallra aðila á þessum álitaefnum þrátt fyrir ítrekaðar óskir minni hlutans þar um. Meiri hlutinn hafnaði því að fá lögfræðiálit Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Lagastofnunar Háskóla Íslands um stjórnarskrárþátt frumvarpsins. Slík málsmeðferð og samþykkt frumvarpsins felur í sér fullkomið skeytingarleysi gagnvart grundvallarlögum íslenska ríkisins og þeim eið sem þingmenn hafa undirritað gagnvart stjórnarskránni.

EES-réttur.
    Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var lögfestur hér á landi með lögum nr. 2/1993. Af skýrslu fjölmiðlanefndar er ljóst að ekki var rannsakað hvort tillögur sem lagðar eru til í skýrslunni samrýmast ákvæðum EES-samningsins. Formaður nefndarinnar hefur opinberlega lýst því yfir að nefndinni hafi ekki unnist tími til að kanna EES-réttinn. Rökstuddar fullyrðingar hafa komið fram hjá sérfræðingum á sviði Evrópuréttar um að frumvarpið feli í sér brot á reglum EES um staðfesturétt, þjónustufrelsi, frjálsa fjármagnsflutninga, lögfræðilega vissu og afturvirkni. Meiri hlutinn hafnaði því að fá álit Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík og Lagastofnunar Háskóla Íslands um þessi álitaefni.

Samkeppnislög.
    Að mati Samkeppnisstofnunar felst í frumvarpinu að verulegar hömlur eru settar á eignarhald og viðskiptafrelsi á fjölmiðlamarkaði. Stofnunin telur að einstök ákvæði frumvarpsins séu samkeppnishamlandi og fari í bága við markmið samkeppnislaga. Stofnunin telur að ekki verði annað séð en frumvarpið takmarki mjög aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Einnig megi færa fyrir því rök að í því felist óhæfilegar hindranir og takmarkanir á frelsi í atvinnurekstri.
    Stofnunin bendir jafnframt á að frumvarpið vinni gegn markmiði samkeppnislaga þar sem það hindri að nýir aðilar hefji útvarps- og sjónvarpsrekstur og dragi úr fjölbreytni í fjölmiðlum hér á landi.
    Samkeppnisstofnun telur að markmiðinu megi ná með vægari úrræðum svo sem með því að beita gildandi samkeppnislögum eða gera á þeim nauðsynlegar úrbætur til að vinna gegn óhæfilegri samþjöppun eða misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
    Minni hlutinn tekur undir þær áhyggjur sem koma fram í umsögn Samkeppnisstofnunar og telur að ekki hafi verið tekin af öll tvímæli um það í vinnu nefndarinnar að frumvarpið vinni gegn markmiðinu um fjölbreytni og muni í raun leiða til aukinnar fábreytni.

Niðurstaða.
    Í ljósi alls framangreinds leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:



    Með vísan til framangreinds samþykkir Alþingi að vísa málinu frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

    Kolbrún Halldórsdóttir er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og er hún samþykk áliti þessu.

Alþingi, 10. maí 2004.



Bryndís Hlöðversdóttir,


frsm.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Ágúst Ólafur Ágústsson.



Sigurjón Þórðarson.



Fylgiskjal I.


Umsögn Samkeppnisstofnunar.
(10. maí 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Umsögn Sigurðar Líndals.
(7. maí 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Umsögn Evrópuréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík.
(7. maí 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.


Umsögn stjórnar Árvakurs hf.
(6. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.


Umsögn Útgáfufélagsins Heims hf.
(7. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.


Umsögn Verslunarráðs Íslands.
(7. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.


Umsögn Alþýðusambands Íslands.
(7. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.


Umsögn aðalfundar Bandalags háskólamanna.
(7. maí 2004.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.


Umsögn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja.
(7. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.


Umsögn Þorbjarnar Broddasonar.
(7. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal XI.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Stefáns Geirs Þórissonar, hrl.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.


Páll Þórhallsson:

Helgar tilgangurinn meðalið?
(Morgunblaðið 2. maí 2004.)


    Það hefur verið mikið vitnað undanfarna daga til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. (99) 1 um aðgerðir til að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun. Það má örugglega segja að þau voru allmerkur áfangi í mótun evrópskrar fjölmiðlastefnu en vissulega verður að skoða þau í samhengi við það sem á undan fór og eftir hefur komið. Enn fremur verður að hafa í huga að stefnumótun Evrópuráðsins á þessu sviði undanfarna áratugi hefur verið margþætt og er fjölbreytni fjölmiðla einungis eitt af mörgum umfjöllunarefnum. Önnur eru til dæmis frelsi blaðamanna, höfundarréttur, aðgerðir gegn kynþáttahatri í fjölmiðlum og valdmörk ríkisins gagnvart fjölmiðlum bæði í sambandi við sjálfstætt almenningsútvarp og úthlutun útvarpsleyfa. Tilmæli og ályktanir ráðherranefndarinnar eru oft mörg ár í undirbúningi enda ekki alltaf auðvelt að ná samkomulagi yfir fjörutíu ríkja í málaflokki sem varðar grundvallarleikreglur í lýðræðisríkjum.
    Tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi í lagalegum skilningi en þau geta haft þýðingu við skýringu á Mannréttindasáttmála Evrópu og dæmi eru um að Mannréttindadómstóllinn vitni í þau sem vísbendingu um evrópsk viðmið á tilteknu sviði. Tilmælin hafa einnig sannað gildi sitt þegar ráðgjöf er veitt til nýfrjálsra ríkja Mið- og Austur-Evrópu. Kemur sér vel að hafa texta í bakhöndinni með pólitískt vægi sem útlistar meginreglur til dæmis um frelsi fjölmiðla sem þykja sjálfsagðar í rótgrónum lýðræðisríkjum en nýnæmi þar eystra. Samtök sem berjast fyrir frelsi og sjálfstæði fjölmiðla vitna jöfnum höndum í dóma Mannréttindadómstólsins og tilmæli Evrópuráðsins þegar gagnrýndir eru stjórnarhættir í ríkjum þar sem lýðræðið er enn ekki burðugt.
    En Evrópuráðið beinir auðvitað sjónum sínum ekki einungis í austurátt. Því var til dæmis vel tekið ekki alls fyrir löngu að Lúxemborg ákvað að senda lagafrumvarp um fjölmiðla til Evrópuráðsins til umsagnar til að tryggja að það stæðist kröfur ráðsins og væri æskilegt að fleiri Vestur-Evrópuríki gerðu slíkt hið sama.

Gamalt viðfangsefni.
    En víkjum þá aftur að fjölbreytni fjölmiðla sem hefur verið viðfangsefni Evrópuráðsins í áratugi. Snemma á áttunda áratugnum beindist athyglin að fækkun dagblaða vegna fjárhagsörðugleika og samruna í mörgum Evrópulöndum. Ráðherranefnd Evrópuráðsins brást við með samþykkt ályktunar nr. (74) 43 um samþjöppun á dagblaðamarkaði. Þar segir í formála að ráðherranefndin trúi því að fréttir og skoðanir eigi að koma úr ýmsum áttum enda sé það afar mikilvægt fyrir rétt almennings til upplýsinga sem tryggður er með 10. grein Mannréttindasáttmála Evrópu. Ef dagblöðum sem hafa eigin ritstjórn fækki eða ef raunhæf yfirráð yfir þeim safnist á fáar hendur þá geti það hugsanlega vegið að rétti almennings á grundvelli 10. greinar. Að sama skapi er vísað til þess að aðstæður séu mjög misjafnar milli landa af landfræðilegum ástæðum, vegna sögu, hefða og efnahagsástands. Þær aðgerðir sem mælt var með voru einkum í formi styrkja til veikburða dagblaða en jafnframt tekið fram að ríkisstjórnir aðildarríkjanna hefðu að sjálfsögðu lokaorðið um hvort gripið yrði til slíks.
    Tuttugu árum síðar samþykkti Evrópuráðið tilmæli nr. (94) 13 um aðgerðir til að stuðla að gagnsæi fjölmiðla. Tekið er fram í skýringum að gagnsæi á markaði þessum sé mikilsvert skilyrði til að tryggja og efla fjölbreytni. Vísað er til þess að þróun á fjölmiðlamarkaði geri það að verkum að það verði æ erfiðara að greina hverjir séu í aðstöðu til að hafa áhrif á efni þeirra í krafti eignarhalds eða viðskiptatengsla. Því sé brýnt að auka gagnsæi og gera þannig almenningi kleift að meta gildi upplýsinga út frá því hvaða hagsmunir kunni að búa að baki og stjórnvöldum að framfylgja lögum á þessu sviði til dæmis að því er varðar hömlur við samþjöppun.

Útvarp í almannaþágu.
    Samhliða þessu beindist athygli Evrópuráðsins í vaxandi mæli að útvarpsmálum og hvert ætti að vera hlutverk ríkisins á tímum þar sem ríkiseinokun var víðast hvar aflétt og einkarekstur leyfður. Svarið er að finna í tilmælum nr. (96) 10 um hvernig tryggja beri sjálfstæði útvarps í almannaþágu. Þar segir að útvarp í almannaþágu (líkt og Ríkisútvarpið) eigi að geta gegnt lykilhlutverki sem þáttur í fjölbreyttri fjölmiðlun þar sem það sé aðgengilegt öllum og bjóði upp á fjölbreytta dagskrá á sviði upplýsinga, menntunar, menningar og afþreyingar. Nauðsynlegt sé að tryggja að slík stofnun sé sjálfstæð og óháð. Til dæmis skuli eftirlitsnefndir (líkt og útvarpsráð á Íslandi) ekki hafa fyrirfram eftirlit með dagskrá og þeir sem sitja í slíkum nefndum skuli skipaðir á gagnsæjan og lýðræðislegan hátt og þess sé gætt að sem heild gæti slík nefnd almannahagsmuna.
    Evrópuráðið hefur einnig beint sjónum að hlutverki stjórnvalda sem fara með úthlutun útvarpsleyfa og lagt áherslu á að komið verði á fót sjálfstæðum stjórnvöldum sem hafin séu yfir pólitísk átök. Í tilmælum nr. (2000) 23 um sjálfstæði og hlutverk stjórnvalda á útvarpssviðinu segir þannig að setja beri reglur sem tryggi að þeir sem eiga sæti í opinberum eftirlitsnefndum sem hafi með höndum úthlutun útvarpsleyfa séu ekki undir áhrifum frá pólitískum öflum né séu þeir í slíkum tengslum við fjölmiðafyrirtæki að draga megi óhlutdrægni þeirra í efa.
    Þar segir enn fremur að skilgreina beri með skýrum hætti í lögum hver séu helstu skilyrði fyrir því að fyrirtæki öðlist útvarpsleyfi og fái það endurnýjað. Í skýringum með tilmælunum segir að útgáfa útvarpsleyfa sé venjulega eitt helsta verkefni stjórnvalda á þessu sviði. Í því felist mikil ábyrgð vegna þess að val á rekstraraðilum ráði úrslitum um jafnvægi og fjölbreytni á þessu sviði fjölmiðlunar. „Jafnvel þótt rásum eigi eftir að fjölga mjög vegna stafrænnar tækni, þá er sem stendur að vissu leyti skortur á rásum til sjónvarpsútsendinga og þess vegna er nauðsynlegt í almannaþágu að úthluta þeim til þeirra aðila sem bjóða besta þjónustu. Að auki gefur úthlutun leyfa færi á að tryggja að útvarpsfyrirtæki þjóni tilteknum almannahagsmunum eins og vernd ungmenna og fjölbreytni,“ segir þar enn fremur.

Dómaframkvæmd varðandi útvarpsleyfi.
    Allnokkur dómaframkvæmd liggur fyrir hjá Mannréttindadómstólnum um rétt þeirra sem sækja um slík útvarpsleyfi. Stefnumarkandi dómur var kveðinn upp 24. nóvember 1993 í máli Informationsverein Lentia gegn Austurríki þar sem kærandi lét reyna á einkarétt ríkisins til útvarpsrekstrar. Þar segir að aðildarríkjunum sé heimilt að stýra útvarpsmálum, einkum af tæknilegum ástæðum. En einnig megi gera leyfisveitingu háða því til dæmis hvert sé eðli og tilgangur stöðvar og hverjir séu mögulegir áhorfendur/hlustendur. Ríkiseinokun sé til þess fallin að stuðla að gæðum og jafnvægi í dagskrá og er jafnramt minnt á að ríkið hafi skyldum að gegna við að tryggja fjölbreytni einkum og sér í lagi varðandi sjónvarp vegna útbreiðslu þess.
    Tekið er fram að ríkiseinokun sé mest íþyngjandi af öllum þeim leiðum sem fara megi til að tryggja þau markmið sem að er stefnt. Þess vegna verði hún ekki réttlætt nema ríkar ástæður komi til. Dómstóllinn hafnaði því að slíkar ástæður væru fyrir hendi. Reynsla annarra ríkja, jafnvel fámennra ríkja, sýndi að til væru minna íþyngjandi aðferðir eins og að binda leyfi því skilyrði að dagskrá væri fjölbreytt eða veita einkaaðilum með einhverjum hætti aðgang að starfsemi opinberrar stöðvar. Þá hélt austurríska stjórnin því fram að markaður þar í landi væri of smár fyrir margar stöðvar þannig að hætta væri á samþjöppun og „einkaeinokun“. Dómstóllinn hafnaði þessu enda sýndi reynsla annarra ríkja að opinberar stöðvar og einkastöðvar gætu þrifist hlið við hlið.
    Athyglisverður er dómur í máli Demuth gegn Sviss frá 5. nóvember 2002. Einstaklingur kvartaði undan því að hafa ekki fengið úthlutað leyfi til að reka kapalsjónvarpsstöð helgaða bílum, akstri og umferðarmálum. Samkvæmt svissneskum lögum mátti einungis úthluta útvarpsleyfum til þeirra sem byðu upp á alhliða dagskrá. Kærandi tapaði reyndar málinu fyrir Mannréttindadómstólnum en röksemdir dómsins eru eigi að síður athyglisverðar.
    Fram kemur að dómstóllinn lítur enn sem fyrr á að leyfisveitingakerfi eins og það sem er við lýði í Sviss geti stuðlað að gæðum og jafnvægi í dagskrá og sé því sem slíkt réttlætanlegt. „Með tilliti til hinna miklu áhrifa á almenning mega stjórnvöld freista þess að koma í veg fyrir einhliða framboð einkasjónvarpsstöðva.“ Þá tók dómstóllinn fram að ákvörðunin um að veita ekki leyfi hefði ekki verið fortakslaus og útilokaði ekki slíka leyfisveitingu í eitt skipti fyrir öll.

Ályktanir.
    Af ofangreindu má draga eftirfarandi ályktanir:
     1.      Takmarkanir á því hverjir geta sótt um útvarpsleyfi eru íhlutun í tjáningarfrelsi og teljast ekki heimilar nema þær uppfylli skilyrði 2. mgr. 10. gr. MSE. Það þýðir að þær verða að vera byggðar á lögum, þjóna lögmætu markmiði og vera það sem kallað er „nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi“.
     2.      Fjölbreytni í fjölmiðlun er lögmætt markmið sem réttlætt getur stjórnun útvarpsmála umfram tæknileg atriði. Heimilt er til dæmis að setja skilyrði um að sjónvarpsstöð bjóði upp á alhliða dagskrá.
     3.      Ríki sem herðir mjög skilyrði fyrir því að veitt séu útvarpsleyfi verður að rökstyðja hvers vegna aðrar vægari leiðir voru ekki færar til að ná sömu markmiðum. Er þá gjarnan litið til reynslu annarra landa af svipaðri stærð. Einnig yrði tekið til skoðunar á grundvelli jafnræðisreglna hvers vegna sumir megi sækja um leyfi en aðrir ekki og hvort sú mismunun sé málefnaleg.
     4.      Reglur mega ekki vera það fortakslausar að þær útiloki með öllu að tilteknir aðilar geti fengið útvarpsleyfi. Þótt ekki komi það fram í ofangreindum dómum má velta því fyrir sér hvort reglur, sem víða er að finna í útvarpslögum ríkja um að tilteknir aðilar eins og stjórnmálaflokkar og trúfélög geti ekki sótt um leyfi, standist samt ekki út frá því sjónarmiði að þessir aðilar séu líklegir til að bjóða upp á mjög einhliða dagskrá.

Íslensk útvarpspólitík.
    Skýrsla fjölmiðlanefndarinnar tók á fjölmiðlageiranum í heild og er hægt að vísa til hennar varðandi mismunandi leiðir til að stemma stigu við samþjöppun á markaðnum. Þær eru þó fæstar jafn róttækar og frumvarp ríkisstjórnarinnar. Frumvarp ríkisstjórnarinnar varðar hins vegar einungis skipan útvarpsmála og er vert að víkja örfáum orðum að þeim málaflokki.
    Þegar íslensk útvarpspólitík eins og hún birtist í útvarpslögunum og framkvæmd þeirra er borin saman við það sem gerist erlendis er eitt og annað sem vekur athygli.
     1.      Ríkisútvarpið er enn ekki nógu sjálfstætt. Kemur þar sjálfsagt margt til. Eitt af því er að ríkisstjórnarmeirihluti hverju sinni skipar meirihluta útvarpsráðs á meðan víðast hvar erlendis, sbr. einnig tilmæli Evrópuráðsins nr. (96) 10, hefur verið fundið fyrirkomulag sem tryggir að slík ráð gæti almannahagsmuna en ekki hagsmuna ríkisstjórnar eða stjórnarflokka. Það þætti til dæmis ekki góð latína á Evrópuvettvangi að pólitískt skipað útvarpsráð fjallaði um umsóknir um stöður fréttamanna.
     2.      Stýring og eftirlit með handhöfum útvarpsleyfa er í lágmarki. Stofnanir sambærilegar útvarpsréttarnefnd erlendis hafa gjarnan á að skipa öflugu starfsliði sem undirbýr útboð leyfa, hefur eftirlit með reglum til dæmis um auglýsingar og takmarkanir á sýningu ofbeldisefnis, safnar upplýsingum um markaðinn og óskir neytenda. Þessar stofnanir hafa með sér samtök á Evrópuvísu, European Platform of Regulatory Authorities (www.epra.org), þar sem skipst er á skoðunum um framkvæmd reglna sem eru í raun svipaðar frá einu landi til annars vegna tilskipunar ESB um sjónvarp án landamæra og samsvarandi sáttmála Evrópuráðsins. Íslendingar eru ein af fáum Evrópuþjóðum sem ekki sækja þessa fundi og ber það kannski vott um að menn hafa allt of lengi kært sig kollótta um þennan markað, þau vandamál sem upp koma við stýringu hans og það jafnvægi sem þarf að finna milli ólíkra hagsmuna.
     3.      Samþjöppun eignarhalds vekur auðvitað athygli líka en utan frá séð mætir það samt skilningi. Í erlendum skýrslum hefur verið talað um að það þurfi marga milljarða króna á ári til að reka alhliða sjónvarpsstöð og það sér hver maður að færri ráða við slíkt hjá smáþjóð heldur en hjá milljónaþjóðum. Þeir sem búa við samþjöppunina virðast heldur ekki sammála um að fjölbreytni efnis og þá einkum fréttaefnis sé neitt minni en áður.

Brýnar úrbætur.
    Brýnustu úrbæturnar frá mínum bæjardyrum séð væru því þær að efla stjórnsýslu útvarpsmála til þess að tryggja að þeir mikilsverðu almannahagsmunir sem útvarpslögin kveða á um séu ekki fyrir borð bornir.
    Ef menn telja að samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sé slík ógnun við frjálst upplýsingastreymi og skoðanamyndun að tafarlausra aðgerða sé þörf væri ein leið að koma strax á fót sjálfstæðri stjórnsýslustofnun sem leysti útvarpsréttarnefnd af hólmi. Hún gæti þegar í stað byrjað eftirlit á grundvelli ákvæðis gildandi laga um að útvarpsstöðum beri að hafa í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og „stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum“. Eftir því sem gildandi leyfi renna út væri svo hægt að skilgreina betur, áður en þau eru auglýst aftur, til hvers nákvæmlega er ætlast af leyfishöfum, varðandi til dæmis vægi frétta og innlendrar dagskrárgerðar. Það mætti hugsa sér að sett yrði jafnframt sem skilyrði að innri reglur tryggðu sjálfstæði fréttastjórnar gagnvart eigendum.
    Þessi leið væri í góðu samræmi við það sem helst gerist erlendis og engin hætta á að brotið væri gegn stjórnarskránni eða Mannréttindasáttmála Evrópu. Að auki þyrfti auðvitað að hafa nákvæmt eftirlit með því að almennar samkeppnisreglur séu ekki brotnar í krafti markaðsráðandi stöðu og ítaka á auglýsingamarkaði. Eins þyrfti auðvitað að skoða betur þann möguleika að setja almennar reglur sem giltu um alla fjölmiðla til að koma í veg fyrir að einn aðili legði undir sig of stóran hluta af skoðanamótandi fjölmiðlum.
Fylgiskjal XIII.


Umsögn Norðurljósa hf. ásamt álitsgerð fimm lögmanna.
(10. maí 2004.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.