Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1637  —  313. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um uppfinningar starfsmanna.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti, Árna Vilhjálmsson hrl., Árna B. Björnsson, Geir Guðmundsson og Hrafnkel Eiríksson frá Stéttarfélagi verkfræðinga, Jóhann Hjartarson og Þóri Haraldsson frá Íslenskri erfðagreiningu hf. og Gísla Tryggvason frá Bandalagi háskólamanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Alþýðusambandi Íslands, tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, Háskólanum á Akureyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Félagi prófessora við Háskóla Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Hafrannsóknastofnuninni, vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Raunvísindastofnun Háskóla Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Háskóla Íslands, Rannsóknamiðstöð Íslands, Stéttarfélagi verkfræðinga, Samtökum iðnaðarins og Íslenskri erfðagreiningu ehf.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að setja almennar reglur um uppfinningar starfsmanna sem taka bæði tillit til hagsmuna atvinnurekenda og starfsmanna þannig að þeir þurfi ekki að semja sín á milli um öll atriði.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpinu væri einnig ætlað að hvetja fyrirtæki og stofnanir til þess að marka sér stefnu í þessum málum. Samkvæmt gildandi lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, á uppfinningamaður allan rétt til uppfinningar. Því er tæknileg óvissa um réttarstöðu þegar uppfinning er gerð í starfi þar eð í athugasemdum við frumvarp til laga um einkaleyfi var tekið fram að þau mundu ekki taka til uppfinninga starfsmanna.
    Nefndin ræddi málið á nokkrum fundum og voru ófrávíkjanleg ákvæði frumvarpsins sérstaklega rædd. Skoðað var hvort leggja ætti til að sett yrði almenn regla til leiðbeiningar um það hvernig sanngjarnt endurgjald yrði metið. Varð niðurstaðan sú að þar sem reglurnar ættu að vera almennar væri ekki rétt að fastsetja sérstaka reglu enda geta verið mjög mismunandi sjónarmið uppi um það hvað teljist sanngjarnt og ekki víst að sama reglan henti í öllum tilvikum. Það getur farið eftir því hver starfsemin er og hvort um er að ræða fyrirtæki, rannsóknastofnun, opinbera stofnun eða háskóla.
    Með tilliti til þess að orðið er mun algengara að fyrirtæki, sérstaklega í hátæknigeiranum, ráði til sín starfsmenn beinlínis til rannsókna- og þróunarstarfa og til að vinna að, koma fram með uppfinningar og fullgera þær telur nefndin rétt að leggja til breytingar á 3. mgr. 6. gr. og 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins sem hafa að geyma ófrávíkjanleg ákvæði.
    Fyrra ákvæðið varðar rétt starfsmanns til þess að sækja um einkaleyfi á uppfinningu. Nefndin leggur áherslu á að starfsmaðurinn geti ekki fyrir fram afsalað sér réttinum til að sækja um einkaleyfi fram að þeim tíma þegar atvinnurekandi metur hvort hann vill neyta framsalsréttar síns. Þessi réttur starfsmannsins á hins vegar ekki við þegar atvinnurekandi og starfsmaður hafa samið um að víkja frá ákvæðum 3. gr. um rétt starfsmanns til uppfinningar og 4. gr. um framsal réttar til atvinnurekanda.
    Hvað snertir 7. gr. er talið eðlilegt að í þeim tilvikum þegar starfsmaður er ráðinn sérstaklega til að vinna að uppfinningum, eins og gert er í hátæknigreinum, megi semja svo um að sanngjarnt endurgjald fyrir uppfinningu felist í ráðningarkjörum starfsmanns eingöngu en verði ekki háð mati á óvissuþáttum síðar, t.d. verðmæti uppfinningar.
    Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingar á 8. gr. frumvarpsins sem einungis eru málfarslegar.
    Að auki telur nefndin rétt að gera gildistökuákvæðið skýrara í samræmi við athugasemdir sem koma fram í greinargerð. Nefndin vill taka fram að ákvæði laganna gilda gagnvart uppfinningum sem koma fram eftir gildistökuna og að ófrávíkjanleg ákvæði laganna geti hrundið samningum sem gerðir hafa verið fyrir gildistökuna um uppfinningar sem koma fram eftir gildistöku. Sérákvæði gilda þó um starfsmenn sem ráðnir eru til að vinna að uppfinningum.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Einar Oddur Kristjánsson var fjarverandi við afgreiðslu máls þessa.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur álitinu.

Alþingi, 3. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Kristján L. Möller.



Ásta R. Jóhannesdóttir.


Sigurjón Þórðarson.


Sigurður Kári Kristjánsson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Björgvin G. Sigurðsson.