Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 883. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1639  —  883. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að Gvadalajara-samningi og Montreal-bókun nr. 4 og um fullgildingu Montreal-samnings.

Frá utanríkismálanefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Jóhann Guðmundsson frá samgönguráðuneyti og Ástríði Scheving Thorsteinsson frá Flugmálastjórn.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi annast, sem er viðbót við Varsjársamninginn, sem gerður var í Gvadalajara 18. september 1961 (Gvadalajara-samningurinn) og Montreal-bókun nr. 4 um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, er undirritaður var í Varsjá 12. október 1929, eins og honum var breytt með bókuninni sem gerð var í Haag 28. september 1955, undirrituð í Montreal 25. september 1975 (Montreal-bókun nr. 4), og til fullgildingar á samningi um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem gerður var í Montreal 28. maí 1999 (Montreal-samningurinn).
    Í Varsjársamningnum frá 1929 er m.a. kveðið á um ábyrgð og skuldbindingar flytjanda og um réttindi farþega og sendanda auk þess sem þar eru reglur um bætur fyrir lífs- eða líkamstjón farþega en Gvadalajara-samningnum er m.a. ætlað að einfalda kerfið samkvæmt Varsjársamningnum og gera réttarstöðu neytenda skýrari. Með Montreal-bókuninni er ýmsum formskilyrðum breytt, þær einfaldaðar og kveðið skýrar á um afleiðingar skorts á gögnum eða upplýsingum og um bótarétt. Montreal-samningurinn frá 1999 miðar fyrst og fremst að því að færa Varsjársamninginn til nútímahorfs og koma á einsleitara bótakerfi í flugsamgöngum og fjallar hann um réttindi og skyldur aðila, bótarétt, formreglur, upplýsingagjöf o.fl. Í samningnum felst einnig að staða farþega er bætt, m.a. með betri bótarétti en tíðkast samkvæmt Varsjársamningnum.
    Aðild Íslands að samningunum og bókuninni kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur samgönguráðherra lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1949, um gildistöku alþjóðasamnings um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa, með síðari breytingum (þskj. 1440, 946. mál), og lögum um loftferðir, nr. 60/1998 (þskj. 1439, 945. mál), sem hefur verið meðferðar í samgöngunefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 6. maí 2004.



Jónína Bjartmarz,


varaform., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Einar K. Guðfinnsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.