Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 884. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1640  —  884. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um aðild að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa, gerð um endurskoðun samningsins og samningi um beitingu 65. gr. samningsins.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, Ástu Valdimarsdóttur frá Einkaleyfastofu, Kristrúnu Heimisdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Örn Guðmundsson frá Pharmaco og Gunnar Örn Harðarson frá A&P Árnason.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að samningi um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerður var í München 5. október 1973, gerð um endurskoðun samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerð var í München 29. nóvember 2000 og samningi um beitingu 65. gr. samningsins um veitingu evrópskra einkaleyfa sem gerður var í Lundúnum 17. október 2000.
    Með evrópska einkaleyfasamningnum frá 1973 var Evrópsku einkaleyfastofnuninni komið á fót og rekur hún undirstofnun, Evrópsku einkaleyfastofuna. Samningurinn gerir það mögulegt að sækja um evrópskt einkaleyfi á grundvelli einnar umsóknar í öllum aðildarríkjum samningsins samtímis. Samningurinn var endurskoðaður 29. nóvember 2000 og með Lundúnasamningnum 17. október 2000 var kveðið sérstaklega á um beitingu 65. gr. einkaleyfasamningsins, einkum með það fyrir augum að draga úr kostnaði við þýðingar á evrópskum einkaleyfum. Áhrif aðildar Íslands að samningunum verða m.a. þau að allt umsóknarferli um einkaleyfi verður einfaldara og ódýrara en áður hefur tíðkast.
    Aðild Íslands að samningunum kallar á lagabreytingar hér á landi og hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra þegar lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingum (þskj. 1122, 751. mál), en iðnaðarnefnd hefur haft málið til meðferðar.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 6. maí 2004.



Jónína Bjartmarz,


varaform., frsm.


Guðmundur Árni Stefánsson.


Drífa Hjartardóttir.



Rannveig Guðmundsdóttir.


Steingrímur J. Sigfússon.


Einar K. Guðfinnsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.