Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 871. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1662  —  871. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Rögnu Árnadóttur og Stefán Eiríksson frá dómsmálaráðuneyti, Eirík Tómasson frá réttarfarsnefnd, Sigrúnu Jóhannesdóttur og Björn Geirsson frá Persónuvernd, Helga Magnús Gunnarsson frá embætti ríkislögreglustjóra, Sigurð Tómas Magnússon frá dómstólaráði, Boga Nilsson ríkissaksóknara og Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá Lögmannafélagi Íslands. Umsagnir bárust um málið frá Landssambandi lögreglumanna, réttarfarsnefnd, Persónuvernd, umboðsmanni barna, lögreglustjóranum í Reykjavík, Lögmannafélagi Íslands, ríkislögreglustjóra, Póst- og fjarskiptastofnun, dómstólaráði og Mannréttindaskrifstofu Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála. Þær helstu varða aðgang verjanda að gögnum og heimild lögreglu til að synja hans og heimild handhafa ákæruvalds til að taka ákvörðun um símhlerun. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp í lögin ákvæði um vitnavernd lögreglumanna og heimild rannsóknara til handa til að taka framburð sakborninga og vitna upp á hljóðband, myndband eða mynddisk.
    Meiri hlutinn telur eðlilegt að lögfest verði ákvæði um vitnavernd lögreglumanna, en nokkur brögð hafa verið að því að lögreglumenn og fjölskyldur þeirra hafi sætt hótunum af hálfu sakborninga í opinberum málum. Meiri hlutinn telur jafnframt eðlilegt að lögfest verði almenn heimild til að taka framburð upp á hljóðband, myndband eða mynddisk, en með því móti má koma í veg fyrir ástæðulausa sönnunarfærslu fyrir dómi um framburð sakbornings fyrir lögreglu. Þá treystir þessi breyting réttaröryggi þess sem sætir yfirheyrslu hjá lögreglu.
    Í 1. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að lögregla geti neitað að veita verjanda aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum ef hún telur að það geti torveldað eða skaðað rannsókn máls að gögn eða upplýsingar komist til vitundar sakbornings. Slíka synjun megi bera undir dómara. Í núgildandi lögum er að finna sambærilega heimild sem þó er tímabundin þannig að slík synjun getur einungis varað í eina viku. Þann frest getur dómari síðan framlengt í allt að þrjár vikur samkvæmt núgildandi lögum. Í 4. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að sú framlengingarheimild dómara verði felld brott með hliðsjón af þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði í 1. gr. þess. Meiri hlutinn telur að gild rök séu fyrir þeirri leið sem valin var í frumvarpinu en lítur svo á að markmiðum 1. og 4. gr. frumvarpsins megi ná með vægara móti og leggur því til að ákvæði 1. gr. frumvarpsins verði



Prentað upp.

breytt á þann veg að lögreglan hafi einungis heimild til að neita verjanda um aðgang að einstökum skjölum eða öðrum gögnum í allt að þrjár vikur. Þá verði lögreglu einnig heimilt að neita verjanda um endurrit af einstökum skjölum meðan á rannsókn máls stendur, en slíka synjun megi bera undir dómara. Meiri hlutinn telur jafnframt rétt að bæta við ákvæði þess efnis að þegar verjandi hafi fengið afhent endurrit af skjölum máls sé honum heimilt að láta sakborningi í té eintak af endurriti eða kynna honum það með öðrum hætti. Loks leggur meiri hlutinn til að 4. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að dómara verði veitt heimild til að framlengja þriggja vikna frestinn í allt að fimm vikur.
    Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að handhafa ákæruvalds verði veitt heimild til að ákveða að hlerunaraðgerðir hefjist án dómsúrskurðar að því tilskildu að brýn hætta sé á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Slíka ákvörðun skal bera eins fljótt og auðið er undir úrskurð dómara og eigi síðar en innan sólarhrings frá því að hún var tekin, hvort sem aðgerðinni hefur þá verið hætt eða ekki. Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að komist dómari að þeirri niðurstöðu að ekki hafi átt að hefja aðgerðina sendi hann dómsmálaráðherra tilkynningu þar að lútandi. Forsenda þess ákvæðis sem lagt er til í frumvarpinu er að tíð skipti á símum og símanúmerum hjá þeim sem sæta símhlerun geta leitt til réttarspjalla, en samkvæmt núgildandi lögum er einungis hægt að kveða á um það í dómsúrskurði að tilteknir símar, þ.e. símanúmer, séu hleraðir. Oft er því sá sem lögregla óskar eftir að hlera símtöl hjá búinn að skipta um síma áður en heimild til hlerunar fæst. Meiri hlutinn telur engu síður mikilvægt að halda í þá meginreglu að dómsúrskurð þurfi fyrir símhlerun þar sem hún felur í sér verulega skerðingu á friðhelgi manna og frelsi til athafna og tjáningar án þess að þeir sem aðgerðirnar beinast af viti af þeim. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að ákvæði frumvarpsins verði breytt á þann veg að símhlerunarúrskurðir beinist hér eftir að símum eða fjarskiptatækjum í eigu eða umráðum nafngreinds einstaklings en ekki símanúmeri eins og fram til þessa. Þannig fær lögregla heimild til að hlusta á öll símtöl úr síma sem viðkomandi einstaklingur á eða hefur sannanlega yfir að ráða. Meiri hlutinn telur að með þessari breytingu sé því markmiði sem að var stefnt í 6. gr. frumvarpsins náð með vægara móti.
    Við meðferð málsins í nefndinni barst ábending frá ríkissaksóknara þess efnis að rétt þætti að bæta við frumvarpið grein þar sem kveðið væri á um að sá sem ætti hagsmuna að gæta gæti kært ákvörðun lögreglu um að vísa frá kæru um brot til ríkissaksóknara innan eins mánaðar frá því að honum var tilkynnt um hana og að ríkissaksóknari skyldi taka afstöðu til kærunnar innan eins mánaðar frá því að hún berst honum. Í 76. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála segir að lögregla geti vísað frá kæru ef ekki þykja efni til að byrja rannsókn út af henni og hún geti jafnframt hætt rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram. Sá sem hagsmuna hefur að gæta getur borið þessa ákvörðun lögreglu undir ríkissaksóknara. Í greininni er hins vegar hvorki mælt fyrir um kærufrest né afgreiðslufrest, og álitamál hvort beita á ákvæðum 114. gr. núgildandi laga um meðferð opinberra mála með lögjöfnun um kærur skv. 76. gr. laganna eða hvort beita ber ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 114. gr. er kveðið á um kærufrest vegna ákvörðunar lögreglustjóra um að fella niður mál vegna sönnunarskorts eða falla frá saksókn og um afgreiðslufrest ríkissaksóknara á slíkri kæru. Með hliðsjón af framangreindu leggur meiri hlutinn til að úr álitamálinu verði leyst með lagasetningu í samræmi við ábendingu ríkissaksóknara þar að lútandi.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem greinir hér að framan og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. maí 2004.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Arnbjörg Sveinsdóttir.


Þórarinn E. Sveinsson.



Guðrún Inga Ingólfsdóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.