Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 996. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1664  —  996. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 130. löggjafarþingi 2003–2004.)



    1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Á eftir 3. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Aldrei er heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í báti.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Á fiskveiðiárinu 2004/2005 skal fækka leyfilegum sóknardögum hvers báts um 10% frá þeim sóknardagafjölda sem bundinn var hverjum báti í lok fiskveiðiársins 2003/2004. Sóknardögum skal fækka um heila daga og broti sleppt. Eftir fiskveiðiárið 2004/2005 skal sóknardagafjöldi einstakra báta óbreyttur nema sem leiðir af flutningi sóknardaga milli báta og breytingum á vélarstærð báta og brúttótonnastærð þeirra samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Þó skal endurskoða leyfilegan fjölda sóknardaga í upphafi hvers fiskveiðiárs og skal úthlutuðum sóknardögum einstakra báta fækkað í sama hlutfalli og heildarafli sóknardagabáta á tilteknu fiskveiðiári fer yfir heildarafla sömu báta á fiskveiðiárinu 2002/2003.
     c.      Á eftir 3. málsl. 4. mgr. koma svofelldir málsliðir: Verði breytingar á skráðri hestaflatölu vélar miðað við 10. maí 2004 þannig að heildarvélaraflið aukist skal leyfilegum dögum viðkomandi báts fækkað samkvæmt eftirfarandi reglum: 1. Verði heildarafl vélar eftir breytingar 100 hestöfl eða minna fækkar sóknardögum um tvo. 2. Verði heildaraflið meira en 100 hestöfl fækkar sóknardögum hlutfallslega miðað við aflaukningu í hestöflum og broti sleppt. Séu sóknardagar fluttir til báts með meira vélarafl en bátur sá er búinn sem sóknardagar eru fluttir frá skerðast sóknardagar með sama hætti og segir í þessari grein.

2. gr.

    Í stað orðsins „bolfiski“ í a-lið 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: botnfiski.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Útgerðum báta sem leyfi hafa til handfæraveiða með dagatakmörkunum skv. 6. gr. laganna skal gefinn kostur á að stunda veiðar með krókaaflamarki skv. 6. gr. b frá upphafi fiskveiðiársins 2004/2005 enda séu jafnmiklar varanlegar sóknarheimildir bundnar við bátinn í lok fiskveiðiársins 2003/2004 og voru 10. maí 2004. Velji útgerð báts sem leyfi hefur til handfæraveiða með dagatakmörkunum að stunda veiðar með krókaaflamarki skal úthluta þeim báti krókaaflahlutdeild í þorski og ufsa í upphafi fiskveiðiársins 2004/2005. Skal krókaaflahlutdeild hvers báts fundin með tilliti til aflareynslu bátsins í þorski og ufsa á öðru hvoru fiskveiðiárinu 2001/2002 eða 2002/2003, að vali útgerðar, á eftirfarandi hátt:
     1.      Meðalafla sóknardagabáta fiskveiðiárin 2000/2001, 2001/2002 og 2002/2003 skal skipt milli einstakra báta í hlutfalli sem ákvarðast af hlutfalli af afla báts úr heildarafla dagabáta fiskveiðiárin 2001/2002 eða 2002/2003, að vali útgerðar. Þannig er fengin viðmiðunaraflareynsla hvers báts.
     2.      Reiknigrunnur hvers báts við ákvörðun krókaaflahlutdeildar skal byggjast á viðmiðunaraflareynslu hans þannig að til reiknigrunnsins teljast 80% af upp að 50 lesta viðmiðunaraflareynslu, miðað við óslægðan fisk, og 60% af því sem umfram er. Reiknigrunnurinn í þorski skal þó aldrei vera lægri en 15 lestir, miðað við óslægðan fisk.
     3.      Krókaaflahlutdeild hvers báts er síðan reiknuð út frá reiknigrunni hans sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2003/2004. Hafi varanlegar sóknarheimildir á báti breyst þannig að sóknardagar eru fleiri eða færri á bátnum 10. maí 2004 en voru á bátnum á því ári sem lagt er til grundvallar við útreikning á aflareynslu hans, að teknu tilliti til skerðingar sóknardaga milli ára, skal krókaaflahlutdeild bátsins hækkuð eða lækkuð hlutfallslega miðað við breytingu á sóknardagafjölda. Með sama hætti skerðist hlutfallslega krókaaflahlutdeild báts sem úthlutað er aflahlutdeild miðað við 15 lesta reiknigrunnslágmark í hlutfalli við fækkun sóknardaga frá 1. september 2001 til 10. maí 2004. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og hvernig skuli fara með aflareynslu þegar eigin bátur hefur verið endurnýjaður. Þegar úthlutað hefur verið krókaaflahlutdeild samkvæmt þessari grein skal aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild annarra skipa endurreiknuð með tilliti til þeirra breytinga sem af þessari úthlutun leiðir.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi en koma til framkvæmda 1. september 2004.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Meginatriði þessa frumvarps er það að lagt er til að sú breyting verði gerð á 6. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, að leyfilegum sóknardögum fækki um 10% á næsta fiskveiðiári og verði 18 miðað við að viðmiðunarfjöldi sóknardaga á yfirstandandi fiskveiðiári er 19 sóknardagar. Sóknardögum fækki hins vegar ekki frekar enda aukist viðmiðunarafli þeirra báta sem verða í sóknardagakerfinu ekki frá því sem hann var á fiskveiðiárinu 2002/2003. Þá verði útgerðum báta sem leyfi hafa til handfæraveiða með dagatakmörkunum gefinn kostur á að stunda veiðar samkvæmt veiðileyfi með krókaaflamarki. Til móts við þessa breytingu verði hins vegar settar takmarkanir á leyfilegan fjölda handfærarúlla um borð í hverjum báti og jafnframt ákveðið að aukning á vélarstærð hafi áhrif á fjölda sóknardaga. Loks er lagt til að lagfært verði lítillega orðalag ákvæðis er snertir úthlutun aflaheimilda til stuðnings sjávarbyggðum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er í fyrsta lagi lagt til að aldrei verði heimilt að hafa fleiri en fjórar handfærarúllur um borð í báti sem veiðar stundar með dagatakmörkunum. Í öðru lagi að sóknardögum fækki um 10% á fiskveiðiári því sem hefst 1. september 2004 en síðan ekki meir enda fari afli dagabátanna ekki yfir viðmiðunarafla þeirra á árinu 2002/2003. Í þriðja lagi er lagt til að aukning á vélarafli hafi áhrif á fjölda sóknardaga.
    Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um stjórn fiskveiða skal sóknardögum fækka um 10% árlega ef heildarþorskafli sóknarmarksbáta fer yfir þann viðmiðunarþorskafla sem tilgreindur er í 2. mgr. 6. gr. laganna. Þessi viðmiðunarþorskafli er 0,67% af leyfilegum heildarafla þorsks, sem á yfirstandandi fiskveiðiári gefur um 2.100 lestir. Sýnt er því að viðmiðunarfjöldi sóknardaga mundi að óbreyttum lögum minnka um 10% á hverju fiskveiðiári og sóknardagarnir verða 9 að jafnmörgum árum liðnum.
    Í frumvarpi þessu er gengið út frá því að viðmiðunarfjöldi sóknardaga verði 18 sóknardagar. Gripið verði þó til frekari takmarkana á fjölda sóknardaga í upphafi fiskveiðiárs eftir fiskveiðiárið 2004/2005 ef viðmiðunarafli þeirra báta sem verða í sóknardagakerfinu fer á einhverju fiskveiðiári yfir það magn sem hann var á fiskveiðiárinu 2002/2003. Hver sá viðmiðunarafli verður er ekki unnt að áætla fyrr en fyrir liggur hvaða bátar verða í sóknardagakerfinu á næsta fiskveiðiári. Hins vegar er ljóst að með þeirri breytingu sem hér er lögð til er tekið tillit til þeirrar aflaaukningar sem orðið hefur á veiðum þessara báta á undanförnum árum. Til móts við þessa tilslökun á fækkun sóknardaga þykir nauðsynlegt að setja reglur um leyfilegan fjölda handfærarúlla um borð í hverjum báti og jafnframt að breytingar á vélum báta sem leiða til aukningar á vélarafli í hestöflum hafi áhrif á fjölda sóknardaga. Ljóst er að fjöldi handfærarúlla um borð í báti og ganghraði hans skiptir miklu máli varðandi aflahæfni hans. Í gildandi ákvæðum segir að stækkun báts í brúttótonnum eða flutningur sóknardaga til stærri báts leiði til fækkunar sóknardaga og verður það óbreytt. Loks er lagt til að flutningur sóknardaga til báts, sem búinn er stærri vél en bátur sá er sóknardagar eru fluttir frá, leiði til skerðingar sóknardaga samkvæmt sömu reglum og gilda við breytingar á vélarstærð. Er það nauðsynlegt til samræmis við ákvæði frumvarpsins um að breytingar á vélarstærð hafi áhrifa sóknardagafjölda.

Um 2. gr.

    Við breytingar á 9. gr. laga um stjórn fiskveiða í lok árs 2003 urðu þau mistök að botnfiskur varð að bolfiski og þykir rétt að bæta hér úr.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að útgerðum dagabáta verði gefinn kostur á því að velja sig inn í krókaaflamarkskerfið. Geri þær það fá bátarnir úthlutað krókaaflahlutdeild í þorski og ufsa í upphafi næsta fiskveiðiárs, en þorskur skiptir höfuðmáli í þessu sambandi. Fær þá hver bátur úthlutað aflahlutdeild í þessum tegundum þannig:
     1.      Meðalafla sóknardagabáta fiskveiðiárin 2000/2001, 2001/2002 og 2002/2003 er skipt milli einstakra báta í hlutfalli sem ákvarðast af hlutfalli af afla bátsins í þorski og ufsa úr heildarafla dagabáta fiskveiðiárin 2001/2002 eða 2002/2003, þannig að útgerðin velur hvort árið er lagt til grundvallar. Meðaltalsþorskafli þessara viðmiðunarára er 11.608 lestir, miðað við óslægðan fisk. Þannig fæst viðmiðunaraflareynsla hvers báts.
     2.      Reiknigrunnur hvers báts til krókaaflahlutdeildar skal byggjast á viðmiðunaraflareynslu hans þannig að til reiknigrunnsins teljast 80% af upp að 50 lesta viðmiðunaraflareynslu, miðað við óslægðan fisk, og 60% af því sem umfram er. Reiknigrunnurinn í þorski skal þó aldrei vera lægri en 15 lestir, miðað við óslægðan fisk.
     3.      Krókaaflahlutdeild hvers báts er síðan reiknuð út frá reiknigrunni hans sem hlutfall af úthlutuðu aflamarki fiskveiðiársins 2003/2004.
    Með framangreindri aðferð fær bátur í raun reiknaða aflareynslu, að lágmarki 15 lestir í óslægðum þorski en endanlegt aflamark ræðst síðan af leyfilegum heildarþorskafla á fiskveiðiárinu. Ekki er ástæða til að áætla leyfilegan ufsaafla hér enda er hann óverulegur í þessu sambandi þótt sama reikniregla sé viðhöfð varðandi báðar tegundirnar. Þá er lagt til að tekið verði tillit til þess til hækkunar eða lækkunar ef varanlegar sóknarheimildir á bátum hafa breyst frá viðmiðunarárunum eða frá 1. september 2001 hjá bátum með fast reiknigrunnslágmark. Þykir eðlilegt að taka tillit til þess ef sóknargeta báts hefur breyst vegna fækkunar eða fjölgunar sóknardaga vegna framsals. Loks segir að aflahlutdeild og krókaaflahlutdeild annarra fiskiskipa skuli endurreiknuð miðað við þær breytingar sem af þessari sérstöku úthlutun leiða en ekki er unnt að segja til um hversu mikil lækkunin verður á aflahlutdeild annarra skipa í þorski fyrr en fyrir liggur hve mikill þorskafli er bundinn þeim bátum sem í krókaaflamarkskerfið fara.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990,
um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á ákvæðum er varða stjórn á veiðum smábáta, meðal annars varðandi leyfilegan fjölda sóknardaga og handfærarúlla. Að mati fjármálaráðuneytisins hefur frumvarpið ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.