Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 873. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1670  —  873. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

Frá félagsmálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Gylfa Kristinsson og Maríu Sæmundsdóttur frá félagsmálaráðuneyti, Silju Báru Ómarsdóttur frá Jafnréttisstofu, Halldór Grönvold frá ASÍ, Hildi Jónsdóttur, jafnréttisfulltrúa Reykjavíkurborgar, Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Dagnýju Kristjánsdóttur og Þorgerði Einarsdóttur frá Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands, Dís Sigurgeirsdóttur frá dómsmálaráðuneyti, Birnu Kolbrúnu Gísladóttur frá forsætisráðuneyti og Ingibjörgu Ólafsdóttur frá umhverfisráðuneyti.
    Tillaga um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára er sett fram með nýstárlegum hætti. Verkefni eru skýrt afmörkuð og tímamörk og ábyrgð skilgreind. Nefndarmenn sem og margir gestir nefndarinnar fagna þessari framsetningu. Í umræðum var bent á gildi þess að fylgja verkefnum áætlunarinnar rækilega eftir í nánu samstarfi ríkisvalds, sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og ýmissa stofnana og félagasamtaka á sviði jafnréttismála. Slíkt samstarf virðist hafa verið af skornum skammti. Nefndin telur eðlilegt að við undirbúning og framkvæmd jafnréttisáætlunar hafi ríkisstjórn samráð við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga. Jafnmikilvægt þykir að við framkvæmd og úrlausn verkefna sem unnin eru á grundvelli áætlunarinnar verði nýttar þær rannsóknir, áætlanir og úttektir sem fyrir liggja í einstökum málaflokkum og tillögur um aðgerðir mótaðar á grundvelli þeirra í samráði við þá aðila innan og utan stjórnkerfisins sem gerst þekkja til á sviði jafnréttismála.
    Í tillögunni kemur fram að framkvæmd áætlunarinnar verður á ábyrgð ríkisstjórnar en einstök verkefni deilast á milli ráðuneyta eftir eðli þeirra. Nefndin telur hins vegar mikilvægt að eitt ráðuneyti beri meginábyrgð á samþættingu verkefna og að fylgja áætluninni eftir. Telur nefndin eðlilegast að það sé félagsmálaráðuneyti þar sem jafnréttismál heyra undir það.
    Í umræðum um málið kom fram að félagsmálaráðuneyti er að hefja átak í því að fá fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn, hvort heldur þau eru í opinberri eigu eða eigu einkaaðila, til að setja sér jafnréttisáætlun í samræmi við ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Nefndin fagnar þessu átaki félagsmálaráðuneytis og Jafnréttisstofu en beinir því jafnframt til Jafnréttisstofu og jafnréttisfulltrúa að fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlana og halda utan um stefnumótunarvinnu og úttektir í jafnréttismálum sem unnar eru á vegum ráðuneyta. Í þessu ljósi beinir nefndin því til forseta Alþingis og forsætisnefndar að sett verði jafnréttisáætlun á Alþingi og jafnréttisfræðslu verði komið á fyrir stjórnendur þingsins og alþingismenn.



Prentað upp.

    Nefndin fagnar því að í ráðuneytum séu starfandi jafnréttisfulltrúar en ljóst er að ábyrgð þeirra og verkefni munu aukast á næstu árum, m.a. við eftirfylgni verkefna samkvæmt áætluninni. Því er mikilvægt að tillit verði tekið til þessa í starfslýsingum þeirra sem veljast í þessar ábyrgðarstöður. Þá þarf einnig að tryggja jafnréttisfulltrúum ráðuneyta þá aðstoð og fræðslu sem þeim er nauðsynleg til að gegna hlutverki sínu vel, m.a. með samstarfi þeirra og Jafnréttisstofu.
    Nefndin telur brýnt að ráðuneyti fylgist vel með þróun jafnréttismála þann tíma sem áætlunin er í gildi. Sérstaklega er mikilvægt að félagsmálaráðuneyti hafi vakandi auga með öllum breytingum, svo sem rýmri skilgreiningu jafnréttishugtaksins með hliðsjón af stöðu og þróun einstakra minnihlutahópa í samfélaginu og stöðu fólks á vinnumarkaði eftir aldri.
    Þau verkefni sem er að finna í tillögunni eru sum hver kostnaðarsöm og er mikilvægt að tillit verði tekið til áætlunarinnar við gerð fjárlaga á þeim tíma sem hún er í gildi.
    Hvað varðar einstök verkefni sem ráðuneytum eru falin í áætluninni gerir nefndin eftirfarandi athugasemdir og leggur áherslu á að þeim verði bætt við verkefnisáætlanir ráðuneyta eftir því sem við á:
     a.      Við 4. tölul. I. og II. hluta. Nefndin leggur áherslu á að ráðuneyti og stofnanir hafi sett sér samræmdar jafnréttisáætlanir fyrir árslok 2005 og að jafnréttisfulltrúum verði falið í samstarfi við Jafnréttisstofu að tryggja að svo verði og fylgjast með framkvæmd áætlananna.
     b.      Við 1. tölul. II. hluta. Nefndin beinir því til allra ráðuneyta að þau setji sér það markmið að í nefndum, stjórnum og ráðum verði hlutfall kynja jafnað svo sem gert er ráð fyrir í tillögunni en hafi það að leiðarljósi að hlutföllin verði orðin sem jöfnust og a.m.k. 60:40 við lok gildistíma áætlunarinnar.
     c.      Við 3. tölul. II. hluta. Nefndin mælist til þess að fræðsla um jafnréttismál sem mælt er fyrir um í þessum lið nái til pólitískt kjörinna fulltrúa hjá framkvæmdarvaldinu, þ.m.t. ráðherra.
     d.      Við 19. tölul. II. hluta. Nefndin telur að úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla verði að taka til launa og hvers konar frekari þóknana í samræmi við 2. mgr. 14. gr. jafnréttislaga.
    Í tillögunni er ekki gert ráð fyrir að umhverfis-, landbúnaðar- og samgönguráðuneyti fari með sérstök verkefni á sviði jafnréttismála. Nefndin vill að úr þessu verði bætt og að höfðu samráði við þessi ráðuneyti og jafnréttisfulltrúa þeirra leggur nefndin til breytingar þar sem þessum ráðuneytum eru falin sérstök verkefni.
    Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á tillögunni:
     1.      Að yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða verði færð til félagsmálaráðuneytis. Þess vegna verði 1. tölul. I. hluta færður undir D-lið II. hluta.
     2.      Að félagsmálaráðuneyti láti rannsaka hvaða áhrif lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, hafa haft á jafnrétti kynjanna. Félagsmálaráðuneyti beri ábyrgð á að rannsóknin verði unnin en því verði heimilt að láta aðra vinna hana í heild eða að hluta, svo sem Jafnréttisstofu. Heimilt verði að gera rannsóknina samhliða verkefni 14. tölul. Niðurstöður liggi fyrir eigi síðar en í lok árs 2007.
     3.      Að félagsmálaráðuneyti verði falið að leita leiða í samvinnu við heildarsamtök á vinnumarkaðinum til að efla starfs- og endurmenntun á vinnumarkaði, ekki síst ófaglærðra kvenna svo að þær verði hæfari til að takast á við verkefni í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaði.
     4.      Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti. Að félagsmálaráðuneyti vinni í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga að undirbúningi framkvæmdaáætlunar til að ná fram fullu launajafnrétti. Við gerð áætlunarinnar verði tekið tillit til 14. og 22. gr. laga nr. 96/2000 og niðurstaðna rannsókna, m.a. skv. 19. og 20. tölul. II. hluta áætlunarinnar, um launamun kynjanna. Þá hefji félagsmálaráðuneyti viðræður við aðila vinnumarkaðarins um að sambærilegar áætlanir verði gerðar sem taki til almenna vinnumarkaðarins. Í þessari tillögu hefur nefndin tekið mið af þingmáli 15 á yfirstandandi þingi, tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlanir til að ná fram launajafnrétti kynjanna, sem finna má á þingskjali 15.
     5.      Að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti leiti í samvinnu við Lýðheilsustofnun leiða til að sporna gegn áhrifum klámvæðingar á ungt fólk, m.a. með endurskipulagningu á kynfræðslu í skólum. Ábyrgð verksins hvíli á menntamálaráðuneyti og skal það unnið á árunum 2004–2006.
     6.      Að iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti vinni úttekt á því hvaða árangur hefur orðið af verkefnum undanfarinna ára sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri, þ.m.t. stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins hvað varðar styrki, lánsfé og hlutabréf. Úttektin hafi það markmið að afla upplýsinga sem geti orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri. Úttektin beri heitið „stuðningur við konur í atvinnurekstri“ og verði á ábyrgð ráðuneytisins en unnin í samstarfi við aðila á markaði og samtök kvenna í atvinnurekstri. Niðurstöður úttektarinnar liggi fyrir á árinu 2006.
     7.      Að á vegum landbúnaðarráðuneytis verði unnið að tveimur verkefnum. Það fyrra er nefnt „Lifandi landbúnaður – Gullið heima“. Markmið þess er að byggja upp grasrótarhreyfingu sem hafi það að markmiði að fræða og styðja konur í bændastétt og hvetja þær til að koma á framfæri hugmyndum sínum til eflingar atvinnu í sveitum. Landbúnaðarráðuneyti ber ábyrgð á verkefninu með stuðningi félagsmálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis. Undirbúningi að verkefninu ljúki á árinu 2005 og það komi til framkvæmda á árinu 2006. Síðara verkefnið felst í athugun á eignarréttarlegri stöðu kvenna í landbúnaði og mati á því hvort þörf sé einhverra aðgerða til að jafna hlut karla og kvenna í þessu tilliti. Verkefnið verði á ábyrgð landbúnaðarráðuneytis og skulu niðurstöður liggja fyrir eigi síðar en í byrjun árs 2006.
     8.      Að á vegum menntamálaráðuneytis verði unnið að úttekt á stöðu jafnréttis á lista- og menningarsviði. Úttektin verði gerð á árunum 2004–2006 í samstarfi við Listaháskóla Íslands en á ábyrgð menntamálaráðuneytis og beri vinnuheitið „Jafnrétti og listir“.
     9.      Að samgönguráðuneyti geri úttekt á störfum kvenna á skipum íslenskra útgerða. Þar verði meðal annars kannað hlutfall kvenna á skipum íslenskra útgerða og lagt mat á vinnuaðstæður þeirra um borð. Í framhaldinu leggi ráðuneytið fram tillögur um úrbætur ef þurfa þykir en markmiðið verði að auka hlut kvenna á skipum íslenskra útgerða. Ábyrgð á verkinu verði hjá samgönguráðuneyti og vinna við það hefjist árið 2004 og ljúki árið 2006.
     10.      Að verkefnið „Konur og Staðardagskrá 21“ verði unnið á vegum umhverfisráðuneytis. Stefnt verði að því að auka hlut kvenna í Staðardagskrá 21 á Íslandi. Meginmarkmiðið verði að auka hlut og áhrif kvenna í ákvarðanatöku við eflingu sjálfbærrar þróunar í héraði á Íslandi á grundvelli Staðardagskrár 21 þar sem ríki og sveitarfélög vinna saman. Ábyrgð á verkinu hvíli hjá Staðardagskrá 21 á Íslandi. Verkefnið verði unnið á árunum 2004–2006. Áætlaður kostnaður við verkefnið er 500.000 kr.
    Nefindin leggur til að tillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ögmundur Jónasson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 10. maí 2004.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.


Pétur H. Blöndal.



Birkir J. Jónsson.


Guðjón Hjörleifsson.


Jóhanna Sigurðardóttir.



Katrín Júlíusdóttir.


Helgi Hjörvar.


Gunnar Örlygsson.





Fylgiskjal I.


Umsögn allsherjarnefndar.


    Allsherjarnefnd hefur á fundi sínum fjallað um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, en félagsmálanefnd óskaði eftir umsögn allsherjarnefndar um málið með bréfi dags. 4. maí 2004.
    Nefndin bendir á að þótt einstök ráðuneyti verði ábyrg fyrir framkvæmd tiltekinna verkefna samkvæmt áætluninni eru jafnréttismál á forræði félagsmálaráðherra. Á fundi nefndarinnar í dag var því ákveðið að vísa málinu aftur til félagsmálanefndar og efnislegrar meðferðar þar.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er ekki samþykk umsögn þessari.

Alþingi, 6. maí 2004.

Bjarni Benediktsson, form.
Arnbjörg Sveinsdóttir.
Ágúst Ólafur Ágústsson.
Birgir Ármannsson.
Bryndís Hlöðversdóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Jónína Bjartmarz.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurjón Þórðarson.




Fylgiskjal II.


Umsögn minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Félagsmálanefnd óskaði eftir umsögn efnahags- og viðskiptanefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára og hefur minni hlutinn skoðað þá kafla áætlunarinnar sem snúa að fjármála- og viðskiptaráðuneyti.

Fjármála- og viðskiptaráðuneyti.
    Minni hlutinn telur afar brýnt að bæði ráðuneytin setji sér það markmið að í lok ársins 2005 verði hlutfall hvors kyns um sig í nefndum, stjórnum og ráðum ekki minna en 40%. Ástæða er í því sambandi til að benda á að frá árinu 2001 hefur hlutur kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis minnkað úr 25% í 20%, en jókst á sama tímabili úr 23% í 30% hjá fjármálaráðuneyti. Minni hlutinn telur einnig brýnt að jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna fylgist markvisst með því að allar undirstofnanir ráðuneytanna setji fram jafnréttisáætlanir með skýrt skilgreindum markmiðum til að stuðla að jafnrétti kynjanna.

Fjármálaráðuneytið.
    Minni hlutinn telur að leggja verði mikla áherslu á ábyrgð fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra að sjá til þess að ákvæði jafnréttislaga séu virt í kjarasamningum og ráðningarsamningum starfsfólks þannig að jafnræði ríki í launamálum kynjanna, m.a. með því að bifreiðastyrkir, duldar greiðslur og fríðindi renni jafnt til kvenna og karla. Í því sambandi er lögð áhersla á að fjármálaráðherra láti fara fram úttekt á launakjörum kynjanna, þ.m.t. bílastyrkjum og hvers konar duldum greiðslum og fríðindum í samræmi við 2. mgr. 14. gr. jafnréttislaga. Jafnframt er lögð áhersla á að úttekt, sem fram á að fara á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna til að unnt sé að meta kynbundinn launamun, verði unnin í samráði við samtök opinberra starfsmanna. Brýnt er einnig að fjármálaráðherra hafi hliðsjón af áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum við fjárlagagerðina.
    Ástæða er til að leggja áherslu á að í þeirri úttekt á almannatryggingakerfinu sem fram á að fara samkvæmt áætlun í jafnréttismálum næstu fjögur árin verði það metið hvort lífeyrir og bætur karla og kvenna sem að uppistöðu hafa framfærslu sína frá almannatryggingakerfinu hafa dregist aftur úr kjörum karla og kvenna í tekjulægstu hópunum á vinnumarkaðnum. Jafnframt skal í úttektinni leita skýringa á því ef fjölgað hefur marktækt meira í öðrum hvorum kynjahópnum sem hefur fengið lífeyri eða bætur hjá almannatryggingum á undanförnum árum.

Viðskiptaráðuneytið.
    Minni hlutinn fagnar því að móta eigi tillögur um það hvernig fjölga megi konum í forustu íslenskra fyrirtækja og hvort ástæða sé til að beita stjórnvaldsaðgerðum í því skyni. Hvetur minni hlutinn til þess að Alþingi verði kynnt niðurstaða fyrri áfanga starfsins, sem ljúka á fyrir árslok 2004, áður en ráðist verður í seinni áfanga sem á að ljúka á árunum 2005–2006.
    Minni hlutinn fagnar einnig þeim verkefnum sem unnin hafa verið til að hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og stuðningi við konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Brýnt er í því skyni að auka fjárstuðning við frumkvöðlastarf, auk þess að styrkja Lánatryggingasjóð kvenna.
    Minni hlutinn leggur til að Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum verði í samráði við Félag kvenna í atvinnurekstri falið að gera rannsókn á því hvaða árangri þau verkefni hafa skilað sem hafa verið unnin á undanförnum árum til að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Er þar m.a. vísað til verkefna sem unnið hefur verið að í því skyni í síðustu jafnréttisáætlunum. Þannig fæst heildaryfirsýn yfir hvort markmið og leiðir hafa skilað tilætluðum árangri og hvort ástæða sé til að endurmeta vinnubrögð eða leiðir til að ná sem bestum árangri til að fjölga konum í atvinnurekstri. Sérstaklega verði gerð úttekt á stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins (styrkjum, lánsfé og hlutabréfum) og mótaðar tillögur á grundvelli hennar til styrktar atvinnu kvenna. Með þessu er aukið vægi sett á eftirfylgni og samþættingu rannsókna á sviði jafnréttismála.
    Loks leggur minni hlutinn til að ekki verði einungis hugað að stöðu kvenna í atvinnurekstri heldur verði markvisst stefnt að því að auka starfs- og endurmenntun kvenna á vinnumarkaði, ekki síst ófaglærðra, til að þær geti tekist á við verkefni og störf í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaðnum.
    Brýnt er einnig að huga sérstaklega að kennslu í jafnréttisfræðum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
    Gunnar Örlygsson er áheyrnarfulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd og er hann samþykkur umsögn þessari.

Alþingi, 8. maí 2004.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Össur Skarphéðinsson.
Ögmundur Jónasson.
Einar Már Sigurðarson.




Fylgiskjal III.


Umsögn meiri hluta menntamálanefndar.


    Menntamálanefnd hefur á fundi sínum fjallað um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, en félagsmálanefnd óskaði eftir umsögn menntamálanefndar um málið með bréfi dags. 4. maí 2004.
    Meiri hluti nefndarinnar bendir á að þótt einstök ráðuneyti verði ábyrg fyrir framkvæmd tiltekinna verkefna samkvæmt áætluninni eru jafnréttismál á forræði félagsmálaráðherra. Á fundi nefndarinnar í dag ákvað meiri hlutinn því að vísa málinu aftur til félagsmálanefndar og efnislegrar meðferðar þar.

Alþingi, 5. maí 2004.

Gunnar Birgisson, form.
Dagný Jónsdóttir.
Kjartan Ólafsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.
Hjálmar Árnason.




Fylgiskjal IV.


Umsögn minni hluta menntamálanefndar.


    Menntamálanefnd hefur á fundi sínum fjallað um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, en félagsmálanefnd óskaði eftir umsögn menntamálanefndar um málið með bréfi dags. 4. maí 2004.
    Minni hluti nefndarinnar telur full efni til að nefndin fjalli um þingsályktunartillögu um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára á þskj. 1331, 873. mál, eins og félagsmálanefnd hefur óskað eftir. Þar sem það er lögbundið hlutverk allra ráðuneyta að gera tillögur til félagsmálaráðherra um framkvæmdaáform í jafnréttismálum er ekki nema eðlilegt að nefndir þingsins komi að því að skoða þau framkvæmdaáform sem heyra undir viðkomandi nefnd eins og gerð er grein fyrir þeim í tillögunni.
    Það er mat minni hlutans að almennt vanti forgangsröðun í einstaka kafla tillögunnar, en slíkt er forsenda fyrir því að háleit markmið hennar náist. Kaflinn um menntamálaráðuneytið hefur, að mati minni hlutans, að geyma afar spennandi áform sem öll eiga það skilið að fá framgang. Sérstaklega er ástæða til að fagna þeirri áherslu á jafnréttisfræðslu sem kemur þar fram. Hins vegar saknar minni hlutinn þess að kynjarannsóknir skuli þar hvergi nefndar. Slíkt er sýnu alvarlegra í ljósi þess að 1. gr. laganna um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 96/2000, gerir sérstaklega ráð fyrir að efla þurfi rannsóknir í þeim fræðum.
    Varðandi einstök verkefni, þá telur minni hlutinn að í skilgreiningu verkefnisins „Konur í vísindum“ (32) skorti mikið á að litið sé nægilega vítt yfir sviðið. Þar virðist eiga að leggja höfuðáherslu á konur sem starfa að rannsóknum hjá fyrirtækjum en ekki er getið um konur sem sinna vísindastarfi innan háskólasamfélagsins. Það er afar brýnt að menntamálaráðuneytið standi fyrir öflugum rannsóknum á sviði menntamála út frá kynjafræðilegu sjónarhorni og þyrftu slík verkefni að vera tilgreind í áætluninni. Slíkt á einnig við um jafnrétti kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar (36), þar þyrfti að gera ráð fyrir rannsóknaþættinum og einnig ætti að kanna möguleikann á að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga við það að jafnréttissjónarmiða sé gætt innan félaganna við útdeilingu fjárins.
    Varðandi verkefnið „Styrkir til jafnréttisfræðslu úr Þróunarsjóðum leik-, grunn-, og framhaldsskóla“ (35) er rétt að vekja athygli á því að ekki er gert ráð fyrir öllum skólastigum þar sem háskólastigið vantar. Minni hlutinn telur að ráða þurfi bót á þessu. Þá gagnrýnir minni hlutinn verkefnið „Konur og fjölmiðlar“ (37) þar sem ráðast á í könnun um þátttöku kvenna í fjölmiðlum. Það verður að telja óþarft að framkvæma enn eina könnunina, réttara væri að hefja strax markvissar aðgerðir til að auka hlut kvenna í fjölmiðlum á grundvelli þeirra kannana og rannsókna sem þegar liggja fyrir um þessi mál.
    Að lokum gagnrýnir minni hlutinn að í áætluninni skuli ekki getið fjölda skýrslna, rannsókna og kannana um jafnréttismál sem liggja fyrir og ættu að vera mikilvæg undirstaða fyrir það starf sem áætlað er að fari fram á næstu fjórum árum. Oft vill það gleymast hversu mikill efniviður er til um jafnréttismál en það verður til þess að stöðugt er frestað markvissum aðgerðum til úrbóta. Okkur er fullkunnugt um það hvert ástandið er, nú er tími aðgerða – markvissra aðgerða sem framkvæma þarf á grundvelli þeirra rannsókna, kannana og skýrslna sem liggja fyrir.

Alþingi, 5. maí 2004.

Kolbrún Halldórsdóttir.
Björgvin G. Sigurðsson.
Katrín Júlíusdóttir.
Mörður Árnason.




Fylgiskjal V.

Umsögn samgöngunefndar.


    Samgöngunefnd hefur á fundi sínum fjallað um bréf félagsmálanefndar, dagsett 4. maí 2004, þar sem tillaga til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 873. mál, er send samgöngunefnd til umsagnar.
    Samgöngunefnd gafst ekki færi á að taka málið til sérstakrar skoðunar. Nefndin bendir á að þótt einstökum ráðuneytum sé gert að vinna að tilteknum verkefnum samkvæmt áætluninni auk þess að uppfylla almenn skilyrði í jafnréttismálum, þá eru jafnréttismál á forræði félagsmálaráðherra. Á fundi nefndarinnar í dag var því ákveðið að vísa málinu aftur til félagsmálanefndar og efnislegrar meðferðar þar.
    Þuríður Backman er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og samþykk umsögn þessari.

Alþingi 10. maí 2004.

Guðmundur Hallvarðsson, form.
Arnbjörg Sveinsdóttir.
Birkir J. Jónsson.
Einar Karl Haraldsson.
Einar Már Sigurðarson.
Guðjón Hjörleifsson.
Guðjón A. Kristjánsson.
Jóhann Ársælsson.




Fylgiskjal VI.


Umsögn meiri hluta utanríkismálanefndar.


    Með bréfi dags. 4. maí 2004 óskaði félagsmálanefnd eftir umsögn utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 873. mál. Þess var óskað að svar bærist til nefndarinnar eigi síðar en 7. maí.
    Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar í dag og ákváðu nefndarmenn, að fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frátöldum, að koma því á framfæri við félagsmálanefnd að utanríkismálanefnd teldi málið fyrst og fremst vera á málefnasviði félagsmálanefndar og að meiri hlutinn treysti því að hún fjallaði faglega og ítarlega um málið. Að mati meiri hlutans getur utanríkismálanefnd ekki gefið efnislega umsögn, nema rannsaka málið á sama hátt og félagsmálanefnd mun væntanlega gera.
    Nefndarmenn í utanríkismálanefnd munu að sjálfsögðu taka þátt í umræðum um málið í þingsal og lýsa afstöðu sinni þar, ef svo ber undir.

Alþingi, 7. maí 2004.

Jónína Bjartmarz, varaform.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Einar K. Guðfinnsson.
Þórunn Sveinbjarnardóttir.