Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 326. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1688  —  326. mál.




Nefndarálit



um frv. til lokafjárlaga fyrir árið 2000.

Frá 2. minni hluta fjárlaganefndar.



    Lög um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, tóku gildi árið 1997. Samkvæmt gildistökuákvæði laganna skyldu þau koma til framkvæmda við gerð frumvarps til fjárlaga fyrir árið 1998 og uppgjör ríkisreiknings það ár. Frumvarp til lokafjárlaga sem hér liggur fyrir er því það þriðja í röðinni frá gildistöku laganna.
    Í 45. gr. laganna segir: ,,Með ríkisreikningi sem lagður er fram á Alþingi, sbr. 7. gr., skal fylgja frumvarp til lokafjárlaga honum til staðfestingar. Þar skal leitað heimilda til uppgjörs á skuldum eða ónotuðum fjárveitingum sem ekki eru fluttar milli ára. Jafnframt skal leggja fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum ársins. Heimilt er að greiða slíka umframgreiðslu af fjárveitingum næsta árs. Einnig skal gerð grein fyrir ónýttum lántökuheimildum liðins árs.“
    Það frumvarp sem hér liggur fyrir uppfyllir ekki að öllu leyti framangreind ákvæði. Þannig er kveðið á um að með ríkisreikningi skuli fylgja frumvarp til lokafjárlaga. Hér er því hins vegar þannig háttað að lokafjárlögin eru lögð fram nokkrum árum á eftir. Enn fremur er kveðið á um að leggja skuli fram sérstaka skrá ásamt skýringum yfir geymdar fjárheimildir og um þá aðila sem hafa farið fram úr fjárheimildum. Slíkar skýringar er ekki að finna í frumvarpinu.
    Fyrsta grein frumvarpsins fjallar um breytingar á fjárheimildum árið 2000 vegna frávika ríkistekna frá áætlun fjárlaga og önnur grein fjallar um afgangsheimildir og umframgjöld í árslok 2000 sem falla niður.
    Þegar frumvarp til lokafjárlaga er loks lagt fram hafa nokkur fjárlög og fjáraukalög verið samþykkt frá Alþingi. Það skiptir því litlu máli að staðfesta orðinn hlut. Mikilvægt er að koma þessum málum í lag þannig að frumvarp til lokafjárlaga verði lagt fram með ríkisreikningi. Lög kveða á um að svo skuli gert og er það ámælisvert að slíkt skuli ekki enn vera gert um sex árum eftir að fjárreiðulögin voru samþykkt.

Alþingi, 18. maí 2004.



Jón Bjarnason.