Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 849. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1708  —  849. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hörð Gunnarsson, Gest Guðjónsson og Grétar Mar Steinarsson frá Olíudreifingu, Samúel Guðmundsson frá Olís, Magnús Ásgeirsson og Heimi Sigurðsson frá Olíufélaginu, Jón Rögnvaldsson, Hrein Haraldsson og Kristínu H. Sigurbjörnsdóttur frá Vegagerðinni, Atla Frey Guðmundsson frá viðskiptaráðuneyti, Guðmund Thorlacius, Ingva Má Pálsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson skattrannsóknarstjóra, Ingólf Þorbjörnsson frá Iðntæknistofnun, Sigurbjörgu Gísladóttur og Kristján Geirsson frá Umhverfisstofnun, Markús Möller og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Karl Ragnars frá Umferðarstofu, Ólaf Jónsson frá Skeljungi hf., Ásgeir Eiríksson og Hörð Gíslason frá Strætó bs., Símon Kjærnested frá Atlantsolíu, Guðjón Þ. Andrésson frá Bifreiðastjórafélaginu Andvara, Þórð Adolfsson frá Vörubílastöðinni Þrótti, Friðrik Jón Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Guðmund Arnaldsson frá Landvara, Benedikt Guðmundsson og Bjarna Björnsson frá Félagi hópferðaleyfishafa, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Jónas Þór Steinarsson frá Bílgreinasambandinu, Knút Halldórsson frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, Ingunni S. Þorsteinsdóttur frá Alþýðusambandi Íslands, Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands, Svein Hannesson og Árna Jóhannsson frá Samtökum iðnaðarins, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði Íslands, Þorleif Þór Jónsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Landssambandi vörubifreiðastjóra, P. Samúelssyni, Landssambandi sendibifreiðastjóra, Seðlabanka Íslands, umferðarráði, Alþýðusambandi Íslands, Strætó bs., ríkisskattstjóra, Bílgreinasambandinu, Olíudreifingu ehf., Félagi hópferðaleyfishafa, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum atvinnulífsins, Vegagerðinni, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Landvara, Bændasamtökum Íslands, Skeljungi hf., Verslunarráði Íslands, Umhverfisstofnun, Landvernd, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi og Frama.
    Með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp olíugjald með litun gjaldfrjálsrar olíu og núverandi þungaskattskerfi lagt niður. Jafnframt er lagt til að auk olíugjalds verði tekið upp kílómetragjald á ökutæki sem eru 10.000 kg eða meira að heildarþyngd, önnur en bifreiðar til fólksflutninga. Frumvarpið byggist á frumvarpi sem lagt var fram til kynningar á 127. löggjafarþingi í maí 2002.
    Meginmarkmið frumvarpsins er að gera dísilknúnar fólksbifreiðar að álitlegri kosti fyrir einstaklinga og samræma skattlagningu dísil- og bensínbifreiða.
    Við meðferð málsins fyrir nefndinni upplýstu fulltrúar Vegagerðarinnar að í nágrannalöndum okkar hafi að undanförnu farið fram umræður um hvernig fyrirkomulagi á uppbyggingu, viðhaldi og rekstri vegakerfis skuli háttað í framtíðinni og nauðsynlega gjaldtöku af umferð til að fjármagna þessa þætti. Sú stefna sé almennt ríkjandi að heppilegast sé að taka upp þjónustugjöld sem háð séu akstursvegalengd og geta verið mismunandi eftir gerð ökutækis, ástandi vegar og tíma aksturs. Þau séu hins vegar óháð orkugjafa og orkunotkun viðkomandi bifreiðar. Fyrirhugað er að nota nýja gerð ökumæla sem nota GPS-tækni og senda upplýsingar um staðsetningu bifreiðar og ekna kílómetra um GSM-dreifikerfi. Þá kom fram að Evrópusambandið hafi sett sér ákveðinn tíma til stefnumótunar með það að markmiði að taka upp gjaldtöku af þessu tagi og hverfa frá sérmerktum eldsneytisgjöfum. Stefnt sé að innleiðingu þjónustugjalda í Evrópu eigi síðar en 1. janúar 2009 fyrir bifreiðar yfir 3,5 tonnum og 1. janúar 2011 fyrir allar bifreiðar.
    Í kjölfarið ræddi nefndin ítarlega hvort innleiða ætti litun olíu þegar fyrir lægi að nýtt kerfi tæki við innan nokkurra ára. Enn fremur var rætt nokkuð um persónuvernd með hliðsjón af nýju mælunum. Niðurstaða 1. minni hluta var sú að hin nýja tækni væri ekki fullmótuð og óljóst hvernig hún muni reynast í Evrópu og því var haldið við þá stefnu frumvarpsins að taka upp litun olíu. 1. minni hluti telur rétt að taka fram að litunin tekur ekki til skipagasolíu sem notuð er á kaupskipaflotann og öll stærri fiskiskip þar sem hún fellur ekki undir gjaldskyldusvið frumvarpsins sem afmarkað er í 1. gr.
    Fyrsti minni hluti leggur ríka áherslu á þau jákvæðu þjóðhagslegu áhrif sem upptaka olíugjalds mun hafa í för með sér verði frumvarpið samþykkt. Líklegt þykir að samsetning bifreiðaflotans muni breytast og hlutur dísilbifreiða aukast í hlutfalli við bensínbifreiðar. Sú breyting muni leiða til minni eldsneytisnotkunar þar sem dísilbifreiðar séu sparneytnari og taldar valda minni koltvísýringsmengun en bensínknúnar bifreiðar. Einkum þykir æskilegt að gera dísilknúnar fólksbifreiðar að vænlegri kosti fyrir einstaklinga vegna ofangreindra sjónarmiða. Núverandi skattkerfi verki hins vegar sem dragbítur á innflutning slíkra bifreiða þar sem fast árgjald þungaskatts af þeim sé svo hátt að til þess að reksturinn svari kostnaði verði árlegur akstur að vera svo mikill að einungis atvinnubílstjórar eða aðrir sem af einhverjum ástæðum keyra mjög mikið sjái sér hag í að reka slíka bíla.
    Í 4. mgr. A-liðar 7. gr. laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, er að finna heimild fyrir endurgreiðslu þungaskatts til bænda. Verði frumvarpið samþykkt mun umrædd heimild falla brott. Leggur 1. minni hluti áherslu á að endurgreiðslurnar sem bændur hafa fengið á grundvelli laganna renni til þeirra í einhverju formi en samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra námu þessar endurgreiðslur 61 millj. kr. árið 2002 og meðalendurgreiðslur á hvern aðila 71 þús. kr. á ári.
    Loks er það mat 1. minni hluta að ákvæði frumvarpsins leiði ekki til skerðingar á þjónustu við landsbyggðina.
    Fyrsti minni hluti leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á frumvarpinu.
     1.      Lagt er til að nýr töluliður bætist við 1. mgr. 4. gr. og orðist svo: til nota á vörubifreiðar með krana yfir 25 tonnmetrum. Með breytingunni er komið í veg fyrir að mismunur verði á rekstrarforsendum kranabifreiða og vörubifreiða með krana. Bílkranar 25–120 tonnmetrar eru frá 6 til 12 tonnum. Vörubifreiðar sem útbúnar eru slíkum krönum eru í kranavinnu að meginstarfsemi og eru raunverulega í samkeppni við kranabifreiðar. Því er talið rétt að sala eða afhending á olíu til þessara vörubifreiða með krana yfir 25 tonnmetrum verði undanþegin gjaldskyldu á sama hátt og sala á olíu til kranabifreiða. Kranabifreiðar eru tilgreindar í vörulið 8705 í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987, og eru því undanþegnar gjaldskyldu skv. 6. tölul. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
     2.      Lagt er til að endurgreiðsluhlutfall til almenningsvagna verði hækkað úr 70% í 80%. Í umsögn Strætó bs. kemur fram að ef frumvarpið verði að lögum muni það leiða til kostnaðarhækkunar sem nemur um 31 millj. kr. á ári eða um 83%. Telur 1. minni hluti rétt að taka tillit til þess enda mikilvægt að samþykkt frumvarpsins leiði hvorki til þess að verði dregið úr þjónustu almenningsvagna né að fargjöld hækki. Endurgreiðslur samkvæmt núgildandi löggjöf ná eingöngu til strætisvagna og miðar frumvarpið við að það verði óbreytt. Til að taka af allan vafa um það, sem og til að skerpa á hugtakanotkun, er lagt til, með vísan til umsagnar ríkisskattstjóra, að breyta orðalagi 1. málsl. 1. mgr. 6. gr.
     3.      Lagt er til að í stað orðanna „fyrir síðustu sex ár“ í 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. komi: vegna síðustu tveggja ára. Breytingartillagan er fram komin vegna ábendingar frá ríkisskattstjóra og er í samræmi við 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt. Um einfalda leiðréttingu er að ræða til að gæta lagasamræmis. Einnig er lagt til að í stað orðsins „dómsmeðferðar“ í 1. málsl. 4. mgr. 18. gr. komi: hugsanlegrar dómsmeðferðar. Hér er einnig um smávægilega lagfæringu að ræða þar sem rannsókn skv. 5. mgr. þarf ekki endilega að leiða til dómsmeðferðar.
     4.      Loks er lagt til að gildistöku frumvarpsins verði frestað til 1. júlí 2005 þannig að meiri tími vinnist til að ganga frá setningu reglugerða og almenns undirbúnings í samráði við hagsmunaaðila.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 12. maí 2004.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Dagný Jónsdóttir.



Guðrún Inga Ingólfsdóttir.