Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 875. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1711  —  875. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón B. Jónasson frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Sjómannasambandi Íslands, Byggðastofnun, Vélstjórafélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannsambandi Íslands, Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hafrannsóknastofnuninni.
    Í frumvarpinu er annars vegar lagt til að rýmkuð verði heimild til handa ráðherra til að heimila landanir erlendis á fiski sem veiðist bæði innan og utan lögsögu Íslands og hins vegar að breytt verði lagaákvæði sem lýtur að frágangi á undirmálsfiski um borð í veiðiskipum.
    Í 5. gr. laganna er lögfest sú meginregla að öllum afla, sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti halda sig í efnahagslögsögu Íslands, skuli landa innan lands og hann veginn í innlendri höfn. Meiri hlutinn undirstrikar að heimild 1. gr. frumvarpsins er undantekning frá áðurnefndri meginreglu og lítur svo á að hún afmarkist við veiðar og vinnslu á loðnu, kolmuna, síld og úthafskarfa. Mælist meiri hlutinn jafnframt til þess að reglur um heimild þá sem um getur í 1. gr. verði kynntar fyrir nefndinni áður en þær taka gildi.
    Þá telur meiri hlutin að leita þurfi nánari skýringa á tilgangi 2. gr. frumvarpsins sem leggur annars vegar til að heimila að undirmálsfiskur miðist einnig við þyngd en ekki eingöngu stærð og hins vegar að fella niður skilyrðislausa kröfu um að fiskinum verði haldið aðskildum frá öðrum fiski um borð. Hvað fyrra atriðið varðar upplýsti fulltrúi ráðuneytisins fyrir nefndinni að í ákveðnum tilvikum væri undirmálsfiskur miðaður við þyngd og væri breytingin því aðeins til áréttingar. Þá hefði síðarnefnda atriðið það að markmiði að koma á vinnuhagræðingu þar sem í sumum tilvikum væri tæknilega erfitt og jafnvel óhagkvæmt að flokka fiskinn um borð í skipi. Einnig gæti það komið í veg fyrir brottkast.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Jón Bjarnason sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Alþingi, 6. maí 2004.



Guðjón Hjörleifsson,


form., frsm.


Jóhann Ársælsson,


með fyrirvara.


Kristinn H. Gunnarsson,


með fyrirvara.



Einar K. Guðfinnsson.


Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Páll Magnússon.


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.