Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 879. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1722  —  879. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar (DrH, MS, KÓ, GHall, ÞES).



     1.      Við 1. gr. Greinin orðist svo:
                 1. gr. laganna orðast svo:
                 Lög þessi taka til menntastofnana landbúnaðarins sem eru Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                 2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
             Landbúnaðarráðherra skipar búfræðsluráð til fjögurra ára í senn. Búfræðsluráð skal skipað átta fulltrúum: rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, skólameistara Hólaskóla, tveimur fulltrúum tilnefndum af menntamálaráðherra, einum fulltrúa kjörnum af búnaðarþingi og tveimur fulltrúum kennara tilnefndum af félagi þeirra, auk formanns sem landbúnaðarráðherra skipar án tilnefningar.
     3.      Við 5. gr. Greinin orðist svo:
                 21. gr. laganna orðast svo:
             Landbúnaðarháskóli Íslands er vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun á háskólastigi á sviði landbúnaðar og garðyrkju sem veitir nemendum sínum fræðslu og vísindalega þjálfun er miðast við að þeir geti tekið að sér sérfræði- og rannsóknastörf í þágu íslensks landbúnaðar og garðyrkju.
     4.      Við 7. gr.
                  a.      Í stað orðsins „Háskólarektor“ í 1. tölul. 1. efnismgr. komi: Rektor.
                  b.      Við 1. efnismgr. bætist tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                      7.      Einn fulltrúi tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar.
                      8.      Einn fulltrúi tilnefndur af nemendum.
     5.      Við 9. gr. A-liður orðist svo: Í stað orðanna „samkvæmt tilnefningu háskólaráðs“ komi: að fenginni umsögn háskólaráðs.
     6.      Við 11. gr. Greinin orðist svo:
                 28. gr. laganna orðast svo:
             Við Landbúnaðarháskóla Íslands skal starfrækja sérstakar búnaðarnámsbrautir og sérstakar starfsmenntanámsbrautir á sviði garðyrkju. Heimilt er að ráða að búnaðar- og starfsmenntanámsbrautum skólans kennara sem ekki uppfylla skilyrði til háskólakennslu skv. 27. gr.
             Um yfirstjórn búnaðar- og starfsmenntanáms í Landbúnaðarháskóla Íslands fer eftir ákvæðum 22. og 23. gr. og er rektor skólans jafnframt yfirmaður þess.


Prentað upp.

     7.      Í stað 13. og 14. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 VI. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal. Stjórn og starfslið, orðast svo:
                  a.      (29. gr.)
                      Hólaskóli, Hólum í Hjaltadal, telst ásamt Landbúnaðarháskóla Íslands til menntastofnana landbúnaðarins. Hólaskóli veitir nemendum sínum menntun og þjálfun á sértækum sviðum íslensks landbúnaðar.
                  b.      (30. gr.)
                      Stjórn Hólaskóla er falin skólanefnd og skólameistara.
                       Skólanefnd er ráðgefandi um skipulag, stefnu og áherslur í kennslu, rannsóknum og öðrum verkefnum skólans.
                     Skólameistari er yfirmaður stjórnsýslu Hólaskóla og er æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan og ber ábyrgð á starfsemi skólans. Skólameistari hefur frumkvæði að því að skólanefnd marki heildarstefnu í málefnum skólans. Skólameistari ræður kennara og annað starfsfólk. Önnur verkefni skólameistara skulu skilgreind í erindisbréfi hans.
                  c.      (31. gr.)
                      Landbúnaðarráðherra skipar fimm manna skólanefnd við skólann til fjögurra ára í senn.
                     Í skólanefnd Hólaskóla eiga sæti einn fulltrúi landbúnaðarráðuneytis, einn fulltrúi búnaðarþings, tveir fulltrúar bænda í Hólastifti og einn fulltrúi samkvæmt tilnefningu samtaka sveitarfélaganna í Hólastifti. Nefndin kýs sér sjálf formann. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Áheyrnarfulltrúar í skólanefnd eru tveir með málfrelsi og tillögurétt, annar tilnefndur af kennurum skólans en hinn af nemendafélagi skólans. Áheyrnarfulltrúar skulu tilnefndir til eins árs í senn. Skólameistari situr fundi skólanefndar með málfrelsi og tillögurétt. Hann er framkvæmdastjóri nefndarinnar.
                  d.      (32. gr.)
                      Landbúnaðarráðherra skipar skólameistara til fimm ára í senn.
                     Staða skólameistara skal auglýst laus til umsóknar. Landbúnaðarráðherra er heimilt að endurskipa sama mann skólameistara að fengnum tillögum skólanefndar. Hæfni umsækjenda um embætti skólameistara skal metin eftir menntun, stjórnunarreynslu og vísinda- og kennslustörfum.
                  e.      (33. gr.)
                      Kennarar og aðrir sérfræðingar við Hólaskóla skulu hafa lokið háskólaprófi í landbúnaðarfræðum eða hafa hliðstæða menntun. Þeir skulu auk kennslu vinna að rannsóknum og öðrum hliðstæðum störfum í þágu stofnunarinnar.
                     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að ráða kennara í verklegum greinum sem hafa aflað sér fullnægjandi þekkingar og starfsþjálfunar á viðkomandi sviði að mati skólameistara.
                  f.      (34. gr.)
                      Heimilt er að stofna til kennslu á háskólastigi við Hólaskóla á afmörkuðum sviðum með samþykki landbúnaðarráðherra að fenginni umsögn búfræðsluráðs, enda sé slíkt nám í fullu samræmi við annað nám á háskólastigi samkvæmt lögum þessum og viðurkennt skv. 2. mgr. 2. gr. og 5. gr. laga þessara að mati búfræðsluráðs.
     8.      Ákvæði til bráðabirgða orðist svo:
                 Störf hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi og Rannsóknastofnun landbúnaðarins eru lögð niður við gildistöku laga þessara. Starfsfólki framangreindra stofnana skulu boðin störf hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.
             Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara skal skipa nýtt háskólaráð frá 1. júlí 2004, eftir ákvæðum 7. gr. laga þessara, þó þannig að í stað rektors skipar landbúnaðarráðherra tímabundið formann háskólaráðs uns rektor Landbúnaðarháskóla Íslands hefur verið skipaður.
             Þrátt fyrir ákvæði 17. gr. laga þessara skal skipa rektor Landbúnaðarháskóla Íslands frá 1. ágúst 2004 og skal hann ásamt háskólaráði undirbúa framkvæmd laga þessara.
             Við gildistöku laga þessara tekur Landbúnaðarháskóli Íslands við öllum eignum og skuldbindingum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, Garðyrkjuskóla ríkisins og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.
             Nemendur sem við gildistöku laga þessara stunda nám í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins eiga rétt á að ljúka námi samkvæmt gildandi námsskipulagi skólanna við gildistöku laganna. Nemendur geta þó lokið prófum samkvæmt nýju skipulagi ef þeir kjósa svo.