Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 974. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1723  —  974. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á útvarpslögum, nr. 53/2000, og samkeppnislögum, nr. 8/1993.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar (BjarnB, ArnbS, JBjart, BÁ, SKK).



     1.      Við 1. gr. Í stað hlutfallstölunnar „25%“ í a-lið b-liðar komi tvívegis: 35%.
     2.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
              Lög þessi öðlast þegar gildi.
     3.      Við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóði svo:
             Útvarpsréttarnefnd skal vera heimilt að framlengja útvarpsleyfi sem falla úr gildi innan tveggja ára frá gildistöku laga þessara, jafnvel þótt leyfishafi uppfylli ekki skilyrði 1. gr. laganna, þó aldrei lengur en til 1. júní 2006.

Greinargerð.


    Fyrsta breytingartillagan felur í sér að hámarkseign sama aðila (fyrirtækis eða fyrirtækjasamstæðu) í hverju útvarpsfyrirtæki verði hækkuð úr 25% í 35%. Með því er leitast við að koma betur til móts við það sjónarmið að rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja verði ekki raskað meira en eðlilegt getur talist í þágu markmiðsins um fjölbreytni í fjölmiðlun.
    Önnur breytingartillagan er á hinn bóginn fólgin í því að lögin öðlast gildi við birtingu. Til að gæta ýtrasta öryggis með tilliti til verndar þeirra eigna- og atvinnuréttinda sem varin eru af 72. gr. stjórnarskrárinnar er ekki lengur gert ráð fyrir því að allir leyfishafar þurfi að tveimur árum liðnum að hafa lagað sig að hinum breyttu lögum, heldur renna núgildandi útvarpsleyfi út samkvæmt efni sínu og við veitingu nýrra leyfa gilda hin breyttu lög.
    Loks er þessu til viðbótar gert ráð fyrir að þeir aðilar sem eru með útvarpsleyfi sem renna út á næstu tveimur árum geti fengið framlengingu þeirra leyfa til 1. júní 2006 þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 1. gr. frumvarpsins. Er þessi breyting í samræmi við þann tveggja ára aðlögunartíma sem gert var ráð fyrir í breytingartillögum sem samþykktar voru við 2. umræðu málsins. Að mati meiri hluta nefndarinnar er með þessu komið til móts við ýtrustu sjónarmið um meðalhóf í þessu efni þótt almennt verði ekki talið að stjórnskipuleg sjónarmið komi í veg fyrir að löggjafinn geti breytt skilyrðum tímabundinna leyfa þannig að leyfishafar verði að uppfylla ný lagaskilyrði þegar þeir leita eftir framlengingu.