Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 690. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1752  —  690. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um afnám laga nr. 62 30. apríl 1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pétur Örn Sverrisson frá iðnaðarráðuneyti, Þorstein Víglundsson frá BM Vallá ehf., Hannes Sigurðsson frá Steypustöðinni, Bjarna Óskar Halldórsson frá Aalborg Portland, Gylfa Þórðarson frá Sementsverksmiðjunni, Eyvind G. Gunnarsson, Gunnar G. Þorsteinsson og Drífu Hjartardóttur frá flutningsjöfnunarsjóði sements og Gunnlaug Kristinsson frá PWC. Umsagnir bárust frá Samtökum iðnaðarins, Bændasamtökum Íslands, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Sementsverksmiðjunni, flutningsjöfnunarsjóði og BM Vallá ehf.
    Með frumvarpinu er lagt til að jöfnun flutningskostnaðar á sementi verði afnumin frá og með 1. júní 2004, flutningsjöfnunarsjóður sements verði lagður niður og lögin felld úr gildi. Við athugun nefndarinnar kom skýrt fram að sjóðurinn hefur starfað samkvæmt markmiðum laganna og skilað hlutverki sínu með ágætum en flutningskostnaður hefur lækkað mikið síðustu ár og er samkeppni meira ríkjandi þáttur í atvinnulífinu en áður og því hafa forsendur breyst.
    Tilgangur laganna var að jafna byggingarkostnað og búsetuskilyrði í landinu og var sementskostnaður þar afgerandi þáttur. Sementskostnaður er nú einungis 2–3% af byggingarkostnaði steinsteyptra húsa og skiptir því flutningsjöfnunin mun minna máli en áður. Auk þess færist í vöxt að söluaðilar selji vörur á sama verði á útsölustöðum sínum um land allt. Þannig fer fram verðjöfnun innan fyrirtækja. Þá felur jöfnun flutningskostnaðar á eina tegund byggingarefnis en ekki aðrar í sér mismunun.
    Gjaldið er lagt á hvert tonn af seldu sementi og lagt í flutningsjöfnunarsjóð sem greiðir flutningskostnað frá framleiðslustað eða innflutningshöfn til þeirra verslunarstaða sem jöfnunin nær til. Upplýst var á fundum nefndarinnar að kerfið hefði virkað sérstaklega hvetjandi á flutning á markaðssvæði höfuðborgarsvæðisins og aukið flutningskostnað sem hafi leitt til hærra verðs á sementi. Breytingarnar munu hvetja til hagræðingar í flutningum og þar með verðlækkunar sem vegur á móti hugsanlegri verðhækkun sements.
    Nefndin telur eðlilegt að jafna flutningskostnað og þar með búsetuskilyrði í landinu með almennari aðgerðum og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kristján L. Möller, Einar Karl Haraldsson og Björgvin G. Sigurðsson skrifa undir álitið
með fyrirvara.


Prentað upp.

    Sigurjón Þórðarson sat fundinn en stendur ekki að álitinu.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er hann andvígur álitinu.

Alþingi, 12. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Kristján L. Möller,


með fyrirvara.


Einar Karl Haraldsson,


með fyrirvara.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Guðmundur Hallvarðsson.


Björgvin G. Sigurðsson,


með fyrirvara.