Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 782. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1755  —  782. mál.




Nefndarálit



um frv. til ábúðarlaga.

Frá meiri hluta landbúnaðarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Norðmann og Guðmund B. Helgason frá landbúnaðarráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson og Þórólf Sveinsson frá Bændasamtökum Íslands, Hrafnkel Karlsson úttektarmann, Val Þorvaldsson frá Búnaðarsambandi Kjalarnesþings, Þórð Skúlason og Sigurð Óla Kolbeinsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðmund Þór Guðmundsson og Halldór Gunnarsson frá kirkjuráði, Höskuld Sveinsson frá prestssetrasjóði, Þorvald Karl Helgason frá Biskupsstofu og Sigurð Jónsson og Þórólf Sveinsson.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Þórshafnarhreppi, Hagstofu Íslands, Skipulagsstofnun, sýslumanninum í Reykjavík, Skógrækt ríkisins, Hrafnkeli Karlssyni fyrir hönd úttektarmanna, Landsvirkjun, sýslumanninum á Ísafirði, Sýslumannafélagi Íslands, Lánasjóði landbúnaðarins, Búnaðarsambandi Austurlands, Kópavogsbæ, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bændasamtökum Íslands, Mosfellsbæ, Rangárþingi ytra, Suðurlandsskógum, borgarráði Reykjavíkur, Norðurorku, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Biskupsstofu, Landvernd, Eyjafjarðarsveit, Landgræðslu ríkisins, Landssambandi kúabænda, Þingeyjarsveit og Umhverfisstofnun.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að færa löggjöf um jarðir í nútímahorf og að samræma eignarrétt og umsýslu jarða eins og unnt er þeim meginreglum sem gilda um aðrar fasteignir í íslenskri löggjöf.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem hann telur samræmast vel markmiðum frumvarpsins en ganga lengra í frjálsræðisátt. Of miklar hömlur á samningsfrelsi einstaklinga, sem er meginregla í íslenskum rétti, geta komið í veg fyrir að jarðir séu nýttar eins og hægt er. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á 10. gr. frumvarpsins þess efnis að jarðeigendum og ábúendum verði í sjálfsvald sett hvernig þeir semja sín á milli um nýtingu á jörð eða réttindum sem henni fylgja. Þannig geti eigandi undanskilið leigunni ákveðin réttindi, svo sem réttindi til beitar, veiði eða nýtingar æðardúns. Telur meiri hlutinn að sú tilhögun auki líkur á því að sem flestar jarðir haldist í ábúð og séu þá nýttar eins og kostur er. Jarðeigandi getur haft sérþekkingu þá sem þarf til þess að nýta einhver hlunnindi en ábúandi ekki og þess vegna þykir rétt að þeir geti samið sín á milli um nýtingu einstakra réttinda. Meiri hlutinn leggur þó áherslu á að með þessu er ekki verið að undanskilja réttindi frá jörð heldur er einungis samið um nýtingu á þeim.
    Með hliðsjón af þeim breytingum sem eru að verða á raforkumálum leggur meiri hlutinn til að ábúendum verði heimilt að nýta rafmagn allt að tveimur megavöttum umfram búsþarfir og selja inn á raforkukerfið.
    Lögð er til sú breyting á 12. gr. að ábúandi þurfi ekki að eiga lögheimili á ábúðarjörð en að honum sé skylt að hafa þar fasta búsetu. Það er talið nauðsynlegt þar sem með ábúð undirgengst ábúandi bæði réttindi og skyldur sem ábúðinni fylgja og fær ákveðin réttindi til hagnýtingar frá eiganda jarðarinnar.
    Lögð er til sú breyting á 41. gr. að út falli ákvæði um gildandi skipulagsforsendur þegar úttektarmenn skulu meta eignir og endurbætur ábúanda. Þá er lagt til að ábúendum verði heimilt að kaupa réttindi, svo sem til efnistöku, nýtingar o.fl., sem hafa verið undanskilin samkvæmt gildandi lögum en að um þau gildi þá almennar reglur um verðmat á eignum ríkisins.
    Þá er lagt til að frestur úttektarmanna til að skila niðurstöðum verði lengdur í sex vikur en bent hefur verið á að fjórar vikur séu of stuttur tími. Verði fresturinn lengri, t.d. vegna óviðráðanlegra ástæðna, ber úttektarmönnum að tilkynna málsaðilum slíka töf og ástæður fyrir henni.
    Þá eru gerðar tillögur um nokkrar lagfæringar á orðalagi.
    Meiri hlutinn telur að athuga þurfi hvort rétt sé að leggja til breytingar á gildandi lögum um skipun og fjölda úttektarmanna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Brynja Magnúsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Guðjón A. Kristjánsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er með fyrirvara við álitið.

Alþingi, 18. maí 2004.



Drífa Hjartardóttir,


form., frsm.


Magnús Stefánsson.


Einar K. Guðfinnsson.



Ásgeir Friðgeirsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Þórarinn E. Sveinsson.



Anna Kristín Gunnarsdóttir.