Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1773  —  154. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um afléttingu veiðibanns á rjúpu.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa Umhverfisstofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Skotveiðifélags Íslands auk Arnórs Þóris Sigfússonar fuglafræðings og Arnþórs Garðarssonar prófessors. Þá bárust nefndinni skriflegar umsagnir sem nýttust við umfjöllun um málið.
    Í tillögunni er lagt til að umhverfisráðherra aflétti veiðibanni á rjúpu og grípi til annarra aðgerða til að hlúa að rjúpnastofninum og er í því tilliti nefnd stytting hefðbundins veiðitíma, svæðisbundin friðun, einkum þar sem rjúpu- og fálkastofninn eiga undir högg að sækja, tímabundið sölubann, hámarksveiði á hvern veiðimann, bann við veiðum tiltekna daga vikunnar og aukið eftirlit með banni við notkun vélhjóla og vélsleða við veiðarnar.
    Þegar umhverfisráðherra gaf út reglugerð nr. 716/2003 nýtti hann ekki rétt samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, til að heimila veiðar á rjúpu. Ráðherra tilkynnti að um þriggja ára veiðibann á rjúpu væri að ræða og studdist þá við tillögur Náttúrufræðistofnunar sem hafði lagt til fimm ára veiðibann. Umhverfisstofnun, sem fer með stjórnsýslu varðandi fuglaveiðar og heldur meðal annars utan um veiðikortakerfið, hafði aftur á móti lagt til að aðrar leiðir yrðu farnar, sambærilegar þeim sem nefndar eru í þingályktunartillögunni. Umhverfisstofnun benti á að alfriðun rjúpu til fimm ára samkvæmt tillögu Náttúrufræðistofnunar ætti sér ekki fordæmi hvað varðar tímalengd og að slíkt bann þyrfti að rökstyðja vel. Af skotveiðimönnum væru það helst svokallaðir magnveiðimenn sem þyrfti að ná til og best væri að gera það með hagrænum lausnum eins og sölubanni.
    Rjúpnaveiðibann var gagnrýnt í umsögnum sem bárust nefndinni. Þá kom fram í máli fræðimanna sem komu á fund nefndarinnar að áhrif skotveiða á rjúpnastofninn væru takmörkuð og að sveiflur í stærð rjúpnastofnsins væru fyrst og fremst náttúrulegar og umdeilanlegt sé í hversu djúpri niðursveiflu stofninn er núna.
    Umhverfisráðherra hefur skipað nefnd til að gera tillögur um tilhögun rjúpnaveiða til framtíðar en sú nefnd hefur ekki lokið störfum. Þá stendur yfir talning á rjúpu sem áformað er að ljúki um miðjan júní. Meiri hlutinn telur rétt að beðið verði eftir niðurstöðum talninga og málið tekið til skoðunar að nýju í ljósi þess sem þar kemur fram.
    Meiri hlutinn leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Sigurjón Þórðarson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. maí 2004.



    Sigríður A. Þórðardóttir,


form.


Gunnar Birgisson,
frsm.

Guðlaugur Þór Þórðarson.



Dagný Jónsdóttir.


Kjartan Ólafsson.