Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 881. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1805  —  881. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, nr. 61 26. maí 1997, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Svein Þorgrímsson frá iðnaðarráðuneyti og Gunnar Örn Gunnarsson frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Umsagnir bárust frá Samtökum iðnaðarins, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Verslunarráði Íslands, Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, Samtökum fiskvinnslustöðva og Byggðastofnun.
    Með frumvarpinu er í fyrsta lagi stefnt að því að bæta eiginfjárstöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum renni í Stofnsjóð þegar þeir verða leystir upp. Í öðru lagi er sjóðnum heimilað að leggja fé í framtakssjóði með öðrum fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum eða öðrum framtaksfjárfestum. Sú hlutdeild má ekki vera meiri en 30% af samanlögðu framlagi til framtakssjóðsins. Markmiðið með frumvarpinu er að gera Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins kleift að sinna hlutverki sínu til hagsbóta fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki.
    Með álitinu er prentuð sem fylgiskjal umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis þar sem röng umsögn fylgdi frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir og Sigurjón Þórðarson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Sigurður Kári Kristjánsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Steingrímur J. Sigfússon sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og samþykkur álitinu.

Alþingi, 26. maí 2004.



Kristinn H. Gunnarsson,


form., frsm.


Einar Oddur Kristjánsson.


Kjartan Ólafsson.



Kristján L. Möller.


Sigurður Kári Kristjánsson,


með fyrirvara.


Guðmundur Hallvarðsson.



Björgvin G. Sigurðsson.





Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 61 26. maí 1997,
um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins.

    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að eiginfjárstaða Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði bætt með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum renni í Stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs þegar þær verða leystar upp í stað þess að renna í ríkissjóð eins og kveðið er á um í gildandi lögum. Hins vegar er lagt til að Nýsköpunarsjóði verði heimilt að leggja fé í framtakssjóði með öðrum fjárfestum. Hlutdeild Nýsköpunarsjóðs í hverjum framtakssjóði má ekki vera meiri en 30% af samanlögðu framlagi til framtakssjóðsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs, en lánsfjárafgangur ríkisins verður u.þ.b. 580 m.kr. lægri á tilteknu árabili en verið hefði miðað við gildandi lög.