Fjarsala á fjármálaþjónustu

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 16:00:55 (4199)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Fjarsala á fjármálaþjónustu.

482. mál
[16:00]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu. Málið er á þskj. 736 og er 482. mál þingsins.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópusambandsins um fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar í maí 2003. Tilskipunin veitir ekki mikið svigrúm til innleiðingar, heldur stefnir að mestu leyti að algjörri samræmingu á reglum um fjarsölu á fjármálaþjónustu.

Í frumvarpinu koma fram reglur um neytendavernd við fjarsölu á fjármálaþjónustu, þ.e. þegar neytandi og söluaðili hittast ekki þegar fjármálaþjónusta er markaðssett og gengið er frá samningum um hana. Fjarsala getur t.d. farið fram í síma, með bréfaskiptum, símbréfum, tölvupósti, á netinu og með aðstoð útvarps og sjónvarps. Með fjármálaþjónustu er í frumvarpinu átt við allar tegundir fjármálaþjónustu sem unnt er að veita með fjarsölu, þar með talið bankaþjónustu, lánveitingar, vátryggingar, lífeyri, fjárfestingar og greiðslur. Um fjarsölu á öðru en fjármálaþjónustu gilda lög um húsgöngu- og fjarsölusamninga, nr. 46/2000.

Í frumvarpinu er lagt til að þjónustuveitanda verði gert skylt við fjarsölu á fjármálaþjónustu að upplýsa neytandann um ýmis nánar tilgreind atriði áður en neytandi verður bundinn af samningi. Þá er einnig lagt til að neytandi sem kaupir fjármálaþjónustu í fjarsölu skuli hafa a.m.k. 14 daga til að falla frá samningi án viðurlaga og án þess að tilgreina nokkra ástæðu. Fresturinn er þó 30 dagar þegar um er að ræða fjarsölusamninga um lífeyristryggingar.

Þjónustuveitandi getur krafið neytanda um greiðslu fyrir þann hluta þjónustunnar sem hann hefur þegar veitt er neytandi fellur frá samningnum. Nokkrar undantekningar eru lagðar til frá rétti neytanda til að falla frá samningi í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun.

Loks eru í frumvarpinu ákvæði um það þegar neytandi greiðir fyrir fjármálaþjónustu með greiðslukorti og um rétt neytanda þegar honum er veitt óumbeðin þjónusta.

Lagt er til að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna og að ákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gildi um eftirlitið.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið umfjöllun minni um frumvarp til laga um fjarsölu á fjármálaþjónustu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.