Tollalög

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 16:23:31 (4201)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Tollalög.

493. mál
[16:23]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er mikið mál á ferðinni og má ljóst vera að tímabært er að endurskoða tollalögin, svo mikill lagabálkur sem þau eru. Ég vil hins vegar aðeins koma með fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem nú er lagt upp í endurskoðun, væntanlega með víðsýni og að teknu tillit til breytts umhverfis, hvort það sé rétt sem má ætla í 39. gr. þegar talað er um tollumdæmi, þ.e. að „landið skiptist í tollumdæmi með sama hætti og stjórnsýsluumdæmi sýslumanna eru mörkuð hverju sinni. Ráðherra getur þó með reglugerð breytt mörkum tollumdæma ef sérstaklega stendur á.“

Þannig háttar til að í Grundartangahöfn þar sem koma nú orðið á þriðja hundrað skip á ári er tollumdæmið Stykkishólmur (Gripið fram í: Borgarnes ...) Borgarnes, ætlaði ég að segja. Nú er það svo að ekki er langt síðan að samruni hafna varð hér á Faxaflóasvæðinu, þ.e. Reykjavík, Grundartangi, Akranes og Borgarnes. Má því ljóst vera að mikið óhagræði skapast af því ef tollþjónusta og tolleftirlit verður ekki samræmt líka og eðlilegt væri að sama tollumdæmi sæi um Hafnarfjörð, Kópavog og að sjálfsögðu Straumsvík, þ.e. Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavík, Grundartangi, Akranes og Borgarnes.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé eitthvað á döfinni að aðlaga þessi lög eða vinnubrögð tollgæslunnar að þeim staðreyndum sem blasa við varðandi innflutning í þessar hafnir á Faxaflóasvæðinu.