Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 16:43:17 (4209)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:43]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að frumvarpið sem hér er komið fram er m.a. lagt fram til sátta til að koma til móts við þá aðila sem deildu um þessi mál. Það hefur verið vandað mjög til þess. Þeir aðilar sem hafa farið ofan í þessi mál eru gjörkunnugir þeim og að nefndarstarfinu kom fólk sem á hagsmuna að gæta í þessum efnum.

Eins og ég nefndi í framsögu minni var nefndinni m.a. falið að skoða að kvótabinda veiðar, sem tengist því sem hv. þingmaður spurði um, en að svo stöddu var ekki talið skynsamlegt að festa það í lög heldur fá reynslu af þeim heimildum sem verið er að leggja til að umhverfisráðherra fái áður en menn færu að stíga það skref að kvótabinda veiðarnar, sem væri vissulega mjög mikil takmörkun.