Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 16:44:41 (4210)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:44]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svarið. Vel má vera að skynsamlegt sé að bíða með að grípa til aðgerða eins og að kvótabinda veiðarnar, en það er líka gott að hafa það í farteskinu að það er möguleiki sem hægt er að taka upp þegar búið verður að skoða hin ólíku svæði sem rjúpan er á og horfast í augu við að það þarf kannski að meðhöndla þau á ólíkan hátt. En með því að byrja með þetta til reynslu er náttúrlega alveg ljóst að ef illa gengur og ef það næst ekki sátt um að virða þau ákvæði sem er að finna í frumvarpinu vofir að sjálfsögðu yfir að taka upp kvótabindingu með öllu því sem fylgir kvóta á veiðar. Því er e.t.v. snjallt að byrja á þennan hátt.