Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 16:46:20 (4212)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:46]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það hefur komið fram í andsvörum við hæstv. umhverfisráðherra að frumvarp það sem við hér ræðum sé að ákveðnu marki málamiðlun þeirra sjónarmiða sem tekist hafa á í þessu máli. Ég geri ráð fyrir að tekist hafi verið á um þessi sjónarmið í rjúpnanefndinni. Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með það sem hæstv. umhverfisráðherra segir núna, að rjúpnanefndin sem eins og hún getur um er enn að störfum skuli eiga eftir að gera tillögur um griðlönd og frekari atriði í þessum efnum. Það finnst mér mjög gott. Ég held að mjög mikilvægt sé að við höfum rjúpnanefndina starfandi og virka, sérstaklega á þeim tímum sem verið er að takast á um veiðar annars vegar og friðun hins vegar.

Ég er ein þeirra þingmanna sem sveið það ekki mjög sárt þótt veiðibann yrði sett á rjúpuna í þrjú ár. (Gripið fram í.) Ég hafði fulla þolinmæði hvað þetta varðaði og lýsti yfir stuðningi við ákvörðun hæstv. umhverfisráðherra Sivjar Friðleifsdóttur á sínum tíma, þegar veiðibannið var ákveðið til þriggja ára. Ég hef hins vegar ekki verið mjög herská í þessum sjónarmiðum og get þess vegna alveg viðurkennt að sú leið sem lögð er til hér sé ásættanleg. Ég kem þó til með að krefjast þess að þetta verði skoðað í umhverfisnefndinni þegar málið verður þar tekið fyrir.

Ég hef heyrt erindi fuglafræðinga varðandi það hversu mikið rjúpunni virðist hafa fjölgað á milli ára eftir að veiðibannið var sett á. Það sýnir okkur auðvitað svart á hvítu að veiðibannið hefur haft veruleg áhrif. Það sýnir okkur líka að sú veiði sem hefur viðgengist undanfarin ár hefur að öllum líkindum verið allt of mikil. Það verður að tempra veiðina á rjúpnastofninum umfram það sem gert hefur verið hingað til.

Ég er sátt við meginmarkmið þessara breytinga, að þær séu til að styrkja stjórn rjúpnaveiðanna og tryggja það að veiðarnar verði sjálfbærar. Ég held að það sé grundvallaratriði í þessum efnum og þá þurfum við náttúrlega að ganga í gegnum það hvað hugtakið sjálfbær þýðir í þessum efnum. Hvað treystum við rjúpnastofninum til þess að fara í gegnum mikil afföll vegna veiða? Við þurfum að skilgreina þetta verulega vel þannig að hægt sé að fylgjast með því og tryggja að veiðarnar séu sjálfbærar.

Eitt af því sem fjallað hefur verið um í þessu máli öllu er erfiðleikarnir við að framfylgja þeim takmörkunum sem lögin kveða á um. Ég held að full ástæða sé til að brýna hæstv. umhverfisráðherra og umhverfisráðuneytið í því að finna leiðir til að efla eftirlitið, eftirlit með því að farartæki séu rétt notuð og sömuleiðis að hundar séu rétt notaðir. Þó að við vitum að vel þjálfaðir veiðihundar séu til fyrirmyndar og veiðimenn sem veiða með veiðihundum séu margir hverjir til fyrirmyndar eru líka dæmi um það að hundar séu misnotaðir við veiðar. Auðvitað verður umhverfisráðuneytið að vera í stakk búið til að hafa eftirlit sem gagnast okkur, virkt eftirlit.

Ég ætla að minna á það varðandi sölubannið sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir að heimila umhverfisráðherra að Náttúrufræðistofnun hafði á sínum tíma í upphaflegum tillögum sínum til hæstv. umhverfisráðherra varðandi friðun rjúpunnar, tímabundna friðun, lagt til að sölubann yrði sett á. Jafnframt töldu vísindamenn Náttúrufræðistofnunar nauðsynlegt að til þess að sölubann hefði þau áhrif sem menn gerðu ráð fyrir yrði jafnframt að setja innflutningsbann á rjúpuna. Annað byði upp á svartamarkaðsverslun. Þau rök sem fylgdu í kjölfarið voru að mínu mati afar frambærileg. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að ákveðin hætta er fólgin í því að bara sé til staðar sölubann en ekki innflutningsbann. Hvernig ætlum við t.d. að tryggja að veitingahús selji eingöngu innflutta rjúpu, séu ekki með íslenska rjúpu á boðstólum? Samkvæmt þessu sölubanni, ef sölubanni verður komið á, mega veitingahús ekki kaupa íslenska rjúpu til að selja áfram til neytenda. Hér er ákveðin glíma og ég held að við þurfum að skoða gaumgæfilega hvort okkur nægi sölubannið eða hvort meira þurfi að koma til.

Það kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra að í frumvarpinu væru ekki lagðar til breytingar á upphafi og lokum veiðitíma, enda verði að líta svo á að tiltölulega góð sátt sé um veiðitímann. Í því sambandi langar mig til að rifja upp að bæði veiðimenn og landeigendur hafa einmitt rætt um þennan veiðitíma sem ég dreg í efa að sé góð sátt um. Landeigendur og bændur hafa viljað taka framan af veiðitímanum. Ein ástæðan hefur verið sú að ástand vega sé hreinlega ekki nægilega gott í upphafi veiðitímans til þess að vegirnir, fjallaslóðar, þoli áganginn, þoli ágang ökutækja. Það er of blautt, kannski ekki komið hjarn yfir sem tryggi að vegirnir varðveitist þannig að það er veruleg hætta á því að vegirnir spillist ef veiði hefst of snemma.

Sömuleiðis hefur í þessu tilliti verið fjallað um það að sú rjúpa sem veidd er fyrst á veiðitímabilinu, þ.e. í október, sé komin í vetrarbúning en oft og tíðum sé ekki kominn snjór yfir jörð þannig að sú rjúpa eigi sér engrar undankomu auðið. Landeigendur og bændur hafa mælt með því að veiðitíminn verði styttur í fremri endann með þessum rökum.

Veiðimenn hafa í allri þessari umræðu lýst sig reiðubúna til að stytta veiðitímann. Þeir hafa líka lýst sig reiðubúna til þess að fara kvótaleiðina og hvorugt er lagt til í þessu frumvarpi. Mér finnst það umhugsunarefni og það mun auðvitað koma til skoðunar umhverfisnefndarinnar þegar málið verður tekið þar fyrir.

Ég ítreka að hér virðist vera skynsamleg málamiðlun á ferðinni sem eflaust er til þess fallin að lægja öldur þær sem risu á sínum tíma út af veiðibanninu. Ég kem til með að áskilja mér allan rétt í þessum efnum hafandi haft uppi þau sjónarmið sem ég hef haft. Ég hlakka til að fá vísindamenn Náttúrufræðistofnunar á fund okkar í nefndinni til að skoða þetta nánar og skoða það svart á hvítu hver staða rjúpnastofnsins er núna eftir tveggja ára alfriðun.