Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 17:11:21 (4219)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:11]

Halldór Blöndal (S):

Hæstv. forseti. Hér er merkilegt frumvarp á ferðinni sem rétt er að fara nákvæmlega yfir um leið og nauðsynlegt er að velta því fyrir sér hvort ástæða sé til þess að taka fleiri greinar laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum til athugunar.

Eins og fram kemur í þessu frumvarpi er tilgangur þess fyrst og fremst sá að reyna að standa þannig að veiðum á rjúpum að menn sætti sig við að slíkar veiðar skuli heimilaðar. Auðvitað eru um það skiptar skoðanir og við erum ýmsir sem teljum að ekki sé kominn tími til þess að hefja rjúpnaveiði á nýjan leik um leið og við vörum sérstaklega við því að þannig verði staðið að veiðum með því að efna til þeirra í atvinnuskyni að við því er að búast hvenær sem er að stofnarnir geti hrunið nema mjög vandlega sé fylgst með veiðunum.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp að auglýstar voru á netinu fuglaveiðar á Íslandi, rjúpnaveiði og andaveiði, fyrir nokkrum árum og þá tókst svo til að með birtist mynd af veiðimanni glaðhlakkalegum uppi við Efri-Laxá með tvo straumandarsteggi í fanginu. Þetta lýsir í stuttu máli hvernig staðið hefur verið að þessum veiðum og því mikla kæruleysi sem sumir sýna náttúru landsins. Í þessu sambandi vil ég rifja upp að áætlaður varpstofn straumandar á Íslandi er um sex þúsund pör. Fjöldi að vetrarlagi er um 14 þúsund fuglar, næstum allir á sjó. En talið er að aðeins 20–30 fuglar haldi sig að vetrarlagi á Laxá í Þingeyjarsýslu og Elliðaánum. Þegar menn gera það nú sér að leik að skjóta þessa fáu straumandarsteggi og auglýsa fyrir veiðimönnum opinberlega á vefnum þá sjáum við að sumir ganga að þessum veiðum af mikilli óskammfeilni og taka með engum hætti tillit til hinnar veiku íslensku náttúru. Mun ég víkja nánar að því síðar.

Ég tel rétt í þessum fáu orðum mínum að fara yfir lögin eins og þau liggja fyrir. Ég vil vekja athygli á 1. mgr. 4. gr. laganna.

Með leyfi hæstv. forseta stendur þar:

„Náttúrufræðistofnun Íslands stundar rannsóknir á stofnum villtra fugla og spendýra, metur ástand þeirra og gerir í framhaldi tillögur til umhverfisráðherra um vernd og hvort viðkomandi stofn þoli veiðar, sbr. lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.“

Mér finnst athyglisvert að rifja þessa grein upp í ljósi þess hvernig staðið hefur verið að andaveiðum á ýmsum mjög viðkvæmum stöðum landsins. Náttúrufræðistofnun hefur með öðrum orðum ekki við það að athuga að þær séu stundaðar í svartasta skammdeginu, þorranum, þar sem við getum talið upp nokkur mjög viðkvæm svæði þar sem endurnar halda sig innan um vakir. Þá erum við ekki aðeins að tala um þær endur sem leyfilegt er að skjóta heldur erum við líka að ræða um endur eins og stóru-toppönd, gulönd, við erum að tala um straumönd, við erum að tala um húsönd og skúfönd.

Nú er það svo um stóru-toppönd að varppör eru einungis 300 og innan við þúsund fuglar hér að vetrarlagi. (Gripið fram í.) Hún er veidd. Hún er skotin. Við vitum um það. Við vitum það ýmsir aðrir þótt hv. þingmaður viti ekki um það. Hið sama er að segja um húsöndina, af henni eru einungis 600 pör og fjöldi að vetrarlagi um 2 þús. fuglar.

Ég hef flutt frumvarp um að stytta þann skotveiðitíma sem heimilt er að veiða endur. Mér finnst eftir á að hyggja og eftir að hafa rætt við ýmsa menn um þessi mál skynsamlegra að friða fremur einstök lindarsvæði þar sem eru þröng vetrarbúsvæði og viðkvæm. Hæstv. ráðherra hefur samkvæmt núgildandi lögum og eins þó að þessi breyting verði á lögunum heimild til að koma fram slíkri staðbundinni friðun. Ég vil nefna þessi dæmi, þessi svæði, með leyfi forseta: Laxá í Þingeyjarsýslu, Litluá í Kelduhverfi, Sogið og Úlfljótsvatn, Ölfusið, Veiðivötn, Apavatn, Rangárnar og lindir undan Skaftárelda- og Landbrotshraunum. Þessi svæði get ég ekki sagt að séu sett þarna af handahófi, það væri rangt af mér, því að ég er einmitt að leggja fram tillögu um svæði þar sem ég tel sérstaka ástæðu til staðbundinnar friðunar vegna þess að þær endur sem hér eru að vetrarlagi og eru alfriðaðar halda sig á þessum stöðum.

Það hefur komið upp að skynsamlegt kunni að vera að hafa staðbundna friðun á rjúpunni. Það kom fram í ræðu eins hv. þingmanns hér áður. Það hefur verið gert og ég tel að sú leið komi vel til greina. Ég vil að vísu friða endur allt árið um kring en ég geri mér grein fyrir því að það er mikil andstaða við það og ég ætla ekki að fara í reiptog um það sem ekki þýðir að vera í reiptogi um. Ég legg hins vegar mikla áherslu á, hæstv. ráðherra og formaður, og enn fremur vil ég beina þeim orðum til formanns umhverfisnefndar sem hér er staddur í þingsalnum, að þetta sé sérstaklega athugað. Er ekki nægt að skrifa t.d. sveitarstjórnum á þeim svæðum sem ég nefndi til eða öðrum sveitarstjórnum sem Náttúruverndarstofnun mundi þá benda á og grennslast fyrir um hvort þær telji að ástæða sé til að taka fastar á þessum málum en gert hefur verið.

Ég er t.d. ekki í neinum vafa um að því yrði fagnað af þeim sveitarstjórnum sem koma að Laxá í Þingeyjarsýslu og flestum jarðeigendum þar ef andaveiði við ána yrði með öllu bönnuð. Það má auðvitað rifja upp margar ömurlegar sögur af skotveiðum á því svæði og er nærtækast að vísa til Guðmundar skálds Friðjónssonar á Sandi sem hefur lýst því ágæta vel hvernig gengið var um eitt stóru-toppandarhreiður þar.

Um leið og ég legg áherslu á friðun þessara svæða vek ég athygli á 17. gr. laganna, síðasta málsl. 3. tölul., þar sem stendur:

„Ætíð er heimilt að skjóta kjóa nærri æðarvarpi.“

Ég er þessu sammála. Ég tel engu að síður að við eigum líka að bæta þar við öðrum fugli, skúmi, sem er sýnu verri í æðarvarpinu en kjóinn. Hér áður fyrr var skúmur á takmarkaðri svæðum en nú er en á síðustu áratugum hefur svæði hans verið að færast út, varplönd hans eru farin að teygja sig að ég hygg um Álftaver, jafnvel til Víkur í Mýrdal. Ég veit ekki hvort hann er þar vestar. Skúmurinn verpir við Héraðsflóa, hann er í Öxarfirði, við Skjálfandaflóa og kannski víðar. Ég tel ástæðu til að heimila að skjóta skúm ekki síður en kjóa nærri æðarvarpi. Þessir fuglar eru af sama kyni, a.m.k. samkvæmt sumum fuglafriðunarbókum. Ég kann það ekki í þaula en þetta er sama kynið, stærðarmunur á þeim, og ég hygg að það markmið sem á sínum tíma var sett fram um algjöra friðun skúmsins eigi ekki lengur við — algjöra friðun, segi ég, en það má veiða hann, stendur hér, frá 1. september til 31. mars. Ég tel þýðingarmikið að heimilt sé að stugga við skúm og skjóta hann nálægt æðarvörpum.

Ég vil jafnframt þegar farið er yfir 7. gr. laganna vekja athygli á því að samkvæmt henni er heimilt að skjóta allt árið svartbak, sílamáf, silfurmáf og hrafn. Ég átta mig ekki á því af hverju hvítmáfur er ekki þar á meðal, hettumáfur sömuleiðis. Ef horft er til hettumáfs má segja að hann sé friðaður allt árið um kring því að þann tíma sem má skjóta hann er hann yfirleitt ekki á Íslandi. Þessir fuglar er náttúrlega miklir vargar í hreiðrum, sérstaklega hvítmáfurinn. Ég vil biðja umhverfisnefnd að athuga sérstaklega hvort ekki sé rétt að hafa þetta í huga.

Jafnframt vil ég segja í sambandi við grágæs og heiðagæs að ég hef athugasemd að gera við að heimilt skuli vera að skjóta þær frá 20. ágúst. Ég tel 1. september nægilegt. Með sama hætti tel ég að það ákvæði sem varðar andaregg og heiðagæsaregg sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar — ég er kominn í 20. gr., líklega 6. mgr., og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Andaregg og heiðagæsaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.“

Ég tel að þetta eigi að samræma, rétt sé að niður falli orðin „gefa né þiggja að gjöf“ til samræmis við það sem hugsað er um rjúpuna. Um hana er látið duga að segja „að hana megi hvorki bjóða til sölu, selja né kaupa“. Ég tel rétt að hið sama verði um þessi egg, enda sjáum við í þessari málsgrein að heimilt er að taka frá takmörkuðum svæðum egg af æðarfugli, stokkönd, rauðhöfðaönd, urtönd, duggönd, skúfönd, hávellu, húsönd og toppönd. Ef heimilt á að vera að gefa slík egg þeirra fugla eða selja, ég tala nú ekki um þar sem heimilt er að selja þau, finnst mér hálfnöturlegt að bannað sé að gefa eða þiggja egg heiðagæsar eða grágæsar, enda vitum við að þeir fuglar eru ekki í sérstakri útrýmingarhættu eins og nú standa sakir. Því hefur að vísu verið haldið fram að í nálægð Reykjavíkur séu allir fuglar sem heimilt er að skjóta í hættu. Skal ég ekki um það segja en ef við förum fjær höfuðborginni er svo ekki. Ég held að það sé mjög erfitt að færa rök fyrir öðru en að samræma ákvæðin um heiðagæsaregg.

Ég biðst afsökunar, ég hef nú lesið vitlaust, það eru andaregg og heiðagæsaregg sem hvorki má gefa né þiggja að gjöf. Við vitum að við þetta er ekki staðið. Er betra og skynsamlegra að sleppa þessu „gefa né þiggja að gjöf“.

Í 18. gr. er sérstaklega vikið að því að ráðherra geti „með reglugerð, að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög eftir því sem við á og að fenginni tillögu Náttúrufræðistofnunar Íslands, [kveðið] á um aukna vernd ákveðinna friðaðra stofna villtra fugla og spendýra ef brýn ástæða er til“. Ég vil líka leggja áherslu á þessi ákvæði með rökstuðningi fyrir því að ástæða sé til að huga sérstaklega að þeim svæðum sem ég nefndi hér áðan.

Auðvitað er erfitt að færa fram sönnur fyrir því að friðaðir fuglar séu drepnir. Ég hef slíkt ekki í hendi mér, þ.e. að benda á sökudólga í því sambandi, en ég hef þó hin síðustu missiri fengið æ fleiri dæmi um að slíkt hafi verið gert. Endur eru gjarnan skotnar eftir að fer að rökkva og menn geta svo sem spreytt sig á því að reyna að þekkja kollur anda í sundur af mismunandi tegundum í björtu, hvað þá eftir að skyggja tekur. Því er ljóst að slíkar veiðar á mjög viðkvæmum svæðum þar sem fágætustu endur sem hér eru halda til yfir veturinn mega ekki ganga svo áfram. Sumir hafa lagt mikið upp úr því að landeigendur geti bannað veiðar í sínu landi en fuglar eru nú eins og fiskarnir að því leyti að þeir eru ekki bundnir við ákveðin landsvæði. Það eru engin vébönd, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, sem heldur þeim innan ákveðinna svæða svo að segja má að réttur þeirra sem vilja friða öndina sé skertur með því að ótakmarkaðar veiðar eru heimilaðar á öðrum stöðum við ána.

Ég vil líka í þessu sambandi, hæstv. ráðherra, leggja áherslu á að fastar verði tekið á veiðum á mink, auðvitað á viðkvæmum stöðum en raunar á landinu öllu. Ágætur bóndi sagði við mig í hálfkæringi að hann vekti yfir andavarpinu, þeir skiptust á að gera það yfir varptímann, og sagði svo við mig: Til hvers er það eiginlega ef menn geta gengið um og skotið endur í sjö mánuði og enginn hreyfir við minknum? Missa menn þá ekki áhugann á því að reyna að standa vörð um þessa viðkvæmu stofna, örfáu fugla sem eru hér af sumum andategundum?

Ég vil að lokum leggja áherslu á að fuglaskoðun verður æ vinsælli hér á landi. Eins og fjölfróður maður og mikill fuglaskoðari og raunar sérfræðingur í því að fara með ferðamenn um landið og sýna þeim fugla, Stefán Þorláksson frá Svalbarði, hefur bent mér á eru skilyrði hér á landi betri en víðast hvar annars staðar. Hér er lítið skóglendi en af þeim sökum er tærleiki loftsins meiri en ella mundi vera og því skilyrði til fuglaskoðunar og myndatöku af fuglum einstök.

„Enn skal hér ljóma rækt og runnablámi,“ segir Einar Benediktsson í Stórasandi og víkur einmitt að því að þessi runnablámi sem við sjáum víða erlendis er óvíða hér á landi meiri nú en var þegar hann orti Stórasand, en víðast hvar er tærleiki loftsins mjög mikill, gróður lítill, þannig að menn sjá vítt yfir og geta þess vegna einbeitt sér að fuglaskoðun með meiri árangri en víðast annars staðar. Fuglaskoðun er vinsæl á öllum árstímum, því að fuglar breyta um hegðun og lit margir hverjir eftir árstíð og þess vegna er ævinlega jafnskemmtilegt og jafngott að fara um landið, leita uppi fugla og reyna að þekkja þá í sundur, ef maður hefur góðan leiðsögumann eins og ég hef raunar stundum haft.

Ýmsir hafa haft orð á því við mig nú að rjúpan sé gæfari og hagi sér öðruvísi en hún gerði á meðan veiðarnar voru leyfðar á hverju ári. Er enginn vafi á því að margir munu sakna þess nú þegar rjúpnaveiðar verða teknar upp að nýju að hafa rjúpurnar ekki hjá sér eins gæfar og þær hafa verið nú á þessum vetri.

Hið sama getum við auðvitað sagt um endurnar. Ef leyft er að skjóta þær sjö mánuði á ári er ekki við því að búast að auðvelt sé að koma að þeim. Auðvitað sækir að þeim styggð eins og við vitum og það er á kostnað þeirra sem einkum hafa gaman að því að fara um landið og skoða fugla og athuga dýralífið, hið frjálsa dýralíf, áður en því er ógnað og þegar fuglarnir fá að vera í friði. Þar stangast á þessi tvö sjónarmið, friðunarsjónarmiðið og skotveiðisjónarmiðið.

Ég hef lagt áherslu á, vegna þess að ég tel að það sé gott fyrsta skref, að hæstv. umhverfisráðherra nýti sér þær heimildir sem eru í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, að viðkvæmustu og fegurstu blettir landsins verði fríaðir af skotveiði, menn geti treyst því að fuglalífið sé þar í eðlilegum skorðum. Ég nefndi nokkur svæði áðan. Það má vera að ég hafi farið þar offari eða ekki nefnt nógu mörg. Það má deila um hversu hratt eigi að fara af stað með slíka svæðisfriðun, en það er alveg óhjákvæmilegt að leggja upp í þá ferð, því ef það verður ekki gert er óhjákvæmilegt að þeir menn sem hugsa á mínum nótum og eiga sæti á Alþingi, leggi fram lagafrumvarp sem gangi mun lengra en það frumvarp sem hér liggur fyrir.

Ég vil þess vegna þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir að reyna að stíga skref sem eftir atvikum er hægt að búa við um leið og ég beini því til hæstv. umhverfisráðherra að nýta aðrar þær reglur sem megi verða til þess að hér sé frjáls náttúra.