Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 17:39:04 (4224)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa skilið það á máli hv. þm. Halldórs Blöndals áðan að hann teldi að afar nauðsynlegt væri að standa kröftuglega að því að veiða mink og ná þar verulegum árangri til stofnminnkunar. Ég hefði því viljað spyrja hv. þingmann hvort hann væri sammála þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram um að leggja í þá baráttu að reyna að útrýma mink úr náttúru Íslands, sem ég tel fyrir mína parta að væri mjög æskilegt en er hins vegar á þeirri skoðun að það sé afar erfitt úr því sem komið er, að ná þeim árangri þó það kunni að vera hægt með einhverjum aðferðum.

Þegar við ætlum að banna skotveiðar — ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þingmanns um að vernda ákveðin svæði þar sem eru staðbundnir stofnar fuglategunda sem ekki hafa mikla og almenna útbreiðslu eins og hann nefndi um ýmsar andategundir, ég held að það sé jákvæð og eðlileg leið til að fara, en í þeirri virku baráttu sem ég tel að við þurfum að viðhalda varðandi minkinn, þá er ekki sama að banna skotveiði á viðkvæmum svæðum og banna skotveiði á ákveðnum dýrategundum á viðkvæmum svæðum. Það verða menn auðvitað að hafa í huga og mega ekki loka sig af í því að geta ekki varist minknum því að minkurinn sækir örugglega í sum af þeim svæðum sem haldast opin yfir vetrartímann og ýmsar andartegundir halda sig á. Menn geta auðvitað þurft að bera þar skotvopn til þess að eyða mink þótt þeir megi ekki nota þau til annars.