Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 17:47:05 (4229)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:47]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það liggur fyrir að ég gerði tilraun til þess að frumvarpið fengi að ganga til nefndar án þess að það yrði rætt, en einstakir þingmenn kvöddu sér hljóðs þannig að það gat ekki orðið. Jafnframt hef ég rætt það á fundum með þingflokksformönnum hvort möguleiki væri á að frumvarpið færi órætt til þingnefndar, en á það var ekki fallist. Af þeim sökum getur frumvarpið ekki fengið þinglega meðferð á þessu þingi samhliða því stjórnarfrumvarpi sem við ræðum nú.

Ég get á hinn bóginn vel fallist á það að fyrsta skrefið verði að einstök svæði verði friðuð, en ég vil líka benda hv. þingmanni á að umhverfisráðherra hefur það í hendi sér að stytta friðunartímann frá sjö mánuðum í fjóra með sama hætti og umhverfisráðherra hefur heimild samkvæmt ákveðnum skilyrðum til þess t.d. að banna sölu á svartfugli samkvæmt lögunum eins og þau eru núna.