Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. febrúar 2005, kl. 17:56:33 (4231)


131. löggjafarþing — 67. fundur,  7. feb. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:56]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Hér er til umræðu frumvarp frá hæstv. umhverfisráðherra um rjúpuna. Af því tilefni langar mig aðeins að líta yfir farinn veg í því sambandi þar sem ég átti á sínum tíma þátt í því að taka afdrifaríka ákvörðun varðandi rjúpnaveiðar.

Fyrir nokkuð stuttu var alveg ljóst að veiðar á rjúpu voru ekki sjálfbærar. Stofninn var að vaxa um 20%–25% milli ára, en átti að vera að vaxa um 50% á milli ára. Hinar svokölluðu eðlilegu sveiflur voru því að jafnast út í stofninum. Hann sveiflast með reglulegu millibili, vex og minnkar á víxl, en sveiflurnar voru að jafnast út.

Við Íslendingar höfum alltaf haldið því á lofti að stunda beri veiðar á sjálfbæran hátt. Þar hafa fiskstofnarnir oftast verið nefndir. Við höfum líka nefnt hvalinn, sérstaklega þegar við höfum verið að rökræða við erlenda aðila sem telja að það eigi ekki að veiða hval. Þá höfum við bent á það t.d. að við Íslandsstrendur eða í Norður-Atlantshafi eru 70 þús. hrefnur, þannig að það er hægt að veiða úr þeim stofni á mjög sjálfbæran hátt. Þetta hefur líka átt við um rjúpnastofninn. Það var alveg ljóst að okkar færustu fuglafræðingar á Náttúrufræðistofnun Íslands höfðu fylgst með rjúpnastofninum og sáu hvað átti sér stað í sveiflunum og þeir ráðlögðu árið 2003 að við skyldum ekki veiða í fimm ár, það ætti að friða rjúpuna í fimm ár gagnvart veiðum með endurskoðunarákvæði og skoða málið að þremur árum liðnum en helst að friða í fimm ár. Það var sem sagt ákveðið og ég tók þá ákvörðun að friða rjúpuna í þrjú ár. Þetta er árið 2003. Að sjálfsögðu hlustar maður á sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands. Það var á sínum tíma pólitísk ábyrgð mín að grípa til aðgerða til friðunar og annað hefði verið mjög óábyrgt og óréttlætanlegt að mínu mati.

Á þessum tíma var mjög ómaklega vegið að sérfræðingum Náttúrufræðistofnunar Íslands, fuglafræðingunum þar. Rannsóknir þeirra voru gerðar tortryggilegar og ýmis orð féllu sem betur hefðu mátt kyrr liggja. Þetta er orðin saga í dag, en mér finnst eðlilegt að rifja þetta upp af því að það var virkilega ómaklega vegið að fuglafræðingunum.

Áður en til kom að friða rjúpuna var alveg ljóst að það gæti komið til þess að við þyrftum að bregðast við, rannsóknir sýndu það.

Því var lagt til á sínum tíma að grípa til sölubanns á rjúpu. Sú er hér stendur flutti slíkt mál í þinginu sem átti að vera tímabundið sölubann til fimm ára til að reyna að hemja þessar miklu veiðar. Þetta sölubann átti að sjálfsögðu aðallega að beinast að svokölluðum magnveiðimönnum, en það eru þeir veiðimenn sem veiða mjög mikið magn rjúpna. Segja má að 10% veiðimanna séu magnveiðimenn, en þessi 10% veiðimanna veiða um helming allra veiddra rjúpna. Það þótti því og þykir mjög æskilegt að geta gripið til sölubanns til að geta vonandi hamið þessa magnveiðimenn. Það er ekki eins mikill hvati ef þeir geta ekki selt bráðina.

Ég vil, virðulegi forseti, rifja það upp að Skotvís, þau ágætu samtök skotveiðimanna, með Sigmar G. Hauksson formann í broddi fylkingar studdu þetta mjög eindregið, þ.e. sölubann á rjúpu.

En það fór nú ekki þannig að þingið samþykkti slíkt sölubann. Málið fór til umhverfisnefndar og því miður vil ég segja sameinuðust þar bæði stjórnarsinnar og stjórnarandstaðan um að hafna sölubanninu. 13. mars 2003 var því hafnað hér á Alþingi að grípa til sölubanns. Í staðinn átti ráðherra að grípa til þeirra aðgerða sem honum voru færar. Það var gert með því að friða rjúpuna.

Árið 2003 var ákveðið að friða rjúpuna til þriggja ára og skoða svo málið aftur, setja málið í nefnd til að vinna að hugmyndum um hvernig væri hægt að hafa nýtt veiðistjórnarkerfi þegar veiðar hæfust aftur og allt það starf fór í gang. Það var vissulega uppi mikil andstaða í samfélaginu hjá skotveiðimönnum við slíkar hugmyndir, mörgum þeirra, ekki öllum. Sumir studdu þetta og höfðu mikinn skilning á því að það þyrfti að friða rjúpuna um tíma til að geta veitt hana til langs tíma og þyrfti því að friða til skamms tíma. Það eru 12–13 þúsund manns á Íslandi sem stunda skotveiðar og það eru u.þ.b. 5 þúsund sem ganga til rjúpna, þannig að auðvitað er þetta hópur sem fylgdist með þessu og ekki voru allir sáttir við friðunina. Það er skiljanlegt að mörgu leyti því að alltaf er erfitt að þurfa að banna fólki að gera eitthvað sem því þykir mjög skemmtilegt og er sterkur hluti af menningu þess. Rjúpnaveiðar er mjög sterkur hluti af okkar menningu hjá mjög mörgum.

Mjög athyglisvert var að þegar búið var að ákveða af minni hálfu að banna rjúpnaveiðar kaus einn hv. þingmaður, hv. þm. Gunnar Birgisson, sem sat í umhverfisnefnd að skrifa í blaðagrein í Morgunblaðinu að hann væri mjög mikið á móti rjúpnaveiðibanninu, en þó væri hann enn þá meira á móti sölubanninu. Það verður því spennandi að sjá hvernig atkvæðagreiðslur fara hér seinna á þinginu fari þetta mál í gegnum umhverfisnefnd.

Í október 2003, eftir að búið var að ákveða þetta bann, kom þingsályktun á borð þingmanna frá 18 þingmönnum, sem á þeim tíma ég frétti af úti í bæ en það hefur nú yfirleitt tíðkast að hæstv. ráðherrar séu upplýstir um slíkar þingsályktanir, sérstaklega ef stjórnarþingmenn flytja þær, þá er það nú yfirleitt upplýst í aðdragandanum gagnvart ráðherrunum. Það var ekki gert að þessu sinni og í þeirri þingsályktunartillögu 18 þingmanna var m.a. tvennt lagt til grundvallar, þ.e. ráðherrann átti að grípa til sölubanns og ráðherrann átti að nota kvóta eða setja hámarksveiði á hvern veiðimann ef þyrfti. Þessir 18 hv. þingmenn vildu sem sagt að ráðherra gæti gripið til sölubanns og notað kvóta. Ráðherrann hafði enga lagaheimild til þess, hvorki til að setja sölubann á — nú er verið að biðja um slíka lagaheimild með þessu frumvarpi — né hafði ráðherrann lagaheimildir til að setja á kvóta. Þessi þingsályktunartillaga var því með ólíkindum, að biðja ráðherra um að gera eitthvað sem hann hafði engar heimildir til og eiginlega ótrúlegt að slík þingsályktunartillaga hafi verið samin af þingmönnum sem hafa þingreynslu.

Staðan núna er sú að stofninn hefur rétt verulega úr sér og ráðherra hefur kosið að koma hingað inn með þetta mál aftur, núverandi hæstv. umhverfisráðherra. Þar er einmitt verið að styðjast við margumtalað sölubann sem ég fagna mjög að skuli koma hér inn aftur. Ég tel að víðtæk sátt geti skapast um það þótt umhverfisnefndin hafi hafnað því á sínum tíma, en ég trúi ekki öðru en menn sjái að sér í því og samþykki þá aðferð að þessu sinni.

Ég vil leyfa mér að spyrja aðeins út í þrjú atriði. Það er í fyrsta lagi að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort sá skilningur sé ekki alveg réttur vegna þess sem kemur fram á bls. 3, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Í frumvarpi þessu eru ekki lagðar til breytingar á upphafi og endi veiðitíma, enda verður að líta svo á að tiltölulega góð sátt sé um veiðitímann.“

Af þessu tilefni vil ég spyrja hvort það sé ekki alveg réttur skilningur að þótt þetta frumvarp verði samþykkt hafi ráðherra áfram allar heimildir til að stytta veiðitímann í báða enda. Meðan þessi umræða stóð sem hæst voru fjölmargir veiðimenn á þeirri skoðun að stytta ætti veiðitímann í staðinn fyrir að banna veiðarnar, og stytta veiðitímann verulega. Ég vona að það sé réttur skilningur minn — ég sé að ráðherra nikkar hér — að hæstv. ráðherra geti stytt veiðitímann hvort sem er í fremri endann eða aftari endann, þó að þetta komi hérna fram á bls. 3 í frumvarpinu.

Síðan langar mig líka að spyrja um verndarsvæðin. Á sínum tíma þegar við vorum að skoða hvað væri hægt að gera voru mörg atriði tínd til. Það var sölubann á rjúpu. Það var að setja upp nokkur verndarsvæði eða uppeldisstöðvar þar sem ekki mætti skjóta rjúpu á. Þetta hefur verið gert í Noregi skilst mér með mjög góðum árangri. Rætt var um kvóta og um veiðihundana, hvort þeir væru til bóta eða ekki. Það var rætt um skotvopn, einhleypur eða tvíhleypur, um styttingu veiðitíma, dagalokanir, ref og mink. Alls konar hugmyndir voru ræddar. Það hefði því verið ágætt að vita meira um það hvort einhver vinna sé í gangi í umhverfisráðuneytinu varðandi þessi verndarsvæði, þessar uppeldisstöðvar, hvort við getum séð það í framtíðinni að einhver slík svæði verði til þar sem verði algerlega bannað að skjóta.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, hefði ég áhuga á að heyra um það sem kemur fram í 3. gr. í frumvarpinu, en þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talin hætta á að viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan leyfilegs veiðitímabils.“

Það er alveg ljóst að hér er verið að opna heimild til sölubanns á fleiri fuglum en bara rjúpu, sem ég tel að sé mjög snjallt að gera í staðinn fyrir að þurfa alltaf að koma hérna aftur og aftur og biðja um heimild til sölubanns á öðrum tegundum. Ég sé ástæðu til þess, virðulegi forseti, að spyrja ráðherra hvort til greina komi að setja líka sölubann á grágæs. Árið 2000 var grágæsin sett á válista af því að þá hafði henni fækkað um meira en 20% næstu tíu árin þar á undan. Fyrir nokkru var árleg veiði 35–40 þúsund grágæsir úr stofni sem var um 76 þúsund fuglar. Veiðin hefur líklega eitthvað aukist núna eftir að rjúpan var friðuð. Því er ástæða til að spyrja ráðherra hvort líklegt sé að sölubann verði líka sett á grágæsina í leiðinni þegar sölubannið verður sett á rjúpuna.

Mig langar einnig að vita hvort ekki sé öruggt eða mjög líklegt — það væri ágætt ef ráðherra gæti kveðið upp úr um það nú — að sett verði sölubann. Nú er heimildin að koma ef þetta verður samþykkt. Verður hún ekki örugglega nýtt?

Þetta eru því spurningar mínar, virðulegi forseti:

Er sá skilningur ekki réttur að hægt sé að stytta veiðitímann? Er verið að vinna eitthvað að þessum verndarsvæðum, eða er búið að slá það út af borðinu? Og hvort ekki sé öruggt eða mjög líklegt að gripið verði til sölubanns á rjúpu og jafnvel á grágæs líka í ljósi þess að stofninn þar hefur verið veikur. Heiðagæsastofninn er mjög sterkur, yfir 200 þúsund fuglar og það væri mjög gott ef veiðimenn færu frekar í heiðagæsastofninn en í grágæsastofninn eins og staðan er í dag.