Verðbréfaviðskipti

Fimmtudaginn 10. febrúar 2005, kl. 13:02:42 (4467)


131. löggjafarþing — 71. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[13:02]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina yfir þetta frumvarp. Mig langar til að varpa fram hér spurningum til hæstv. viðskiptaráðherra um eina efnisgreinina í frumvarpinu.

Í e-lið 20. gr. frumvarpsins er fjallað um gagnsæi í störfum Fjármálaeftirlitsins. Þar kemur fram að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að birta opinberlega niðurstöður í málum og athugunum sem varða ákvæði laganna.

Úr því að Fjármálaeftirlitinu er falið það hlutverk að hafa eftirlit með því sem fram fer á þessum markaði og Fjármálaeftirlitið hefur náttúrlega það hlutverk að bregðast við ýmsu sem miður fer á markaðnum, t.d. innherjasvikum og öðru slíku þá velti ég því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra telji ekki eðlilegra að kveða á í ákvæðinu um skyldu Fjármálaeftirlitsins til þess að birta niðurstöður sínar með sambærilegum hætti og Samkeppnisstofnun gerir til að mynda varðandi sínar ákvarðanir og áfrýjunarnefnd samkeppnismála varðandi sína úrskurði. Ég mundi telja svona fyrir fram að með því að skylda eftirlitið eða gera eftirlitinu að birta niðurstöður sínar opinberlega án þess þó að farið væri gegn viðskiptahagsmunum einstakra fyrirtækja sem til athugunar eru þá mundu lögin með þeim hætti hafa meiri varnaðaráhrif gagnvart þeim sem eftir þeim þurfa að starfa heldur en ákvæðið gerir eins og það er orðað nú. (Forseti hringir.)

Það væri gott að fá sjónarmið hæstv. ráðherra varðandi þetta atriði.