Verðbréfaviðskipti

Fimmtudaginn 10. febrúar 2005, kl. 15:46:23 (4504)


131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mjög langt mál um málið við 1. umr. Ég hef ekki haft tækifæri til að fara ítarlega ofan í frumvarpið, einungis lauslega, en mun vissulega fá tækifæri til þess þar sem ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem fjallar um málið. Ég mun því frekar við 2. umr. eftir því sem efni gefst til, eftir umfjöllun nefndarinnar um málið, fara ofan í frumvarpið og almennt um fjármála- og verðbréfamarkaðinn.

Það er auðvitað afar mikilvægt að löggjöfin um fjármálamarkaðinn sé skýr og gegnsæ og að við höfum öflugt eftirlit með til að mynda innherjasvikum og markaðsmisnotkun. Það er auðvitað það mikilvægasta til að fjármálamarkaðurinn hafi þann trúverðugleika sem nauðsynlegt er að hann hafi.

Hér er gerð tilraun í lögunum um verðbréfaviðskipti að styrkja enn löggjöfina um fjármálamarkaðinn. Ég tel að við eigum að hafa þann metnað til að bera að ákvæði í löggjöf okkar séu með þeim öflugustu sem fyrirfinnast þegar litið er til annarra landa. Hér er gerð tilraun eins og ég segi til þess að styrkja verðbréfamarkaðinn.

Fram kemur að ekki er verið að gera neinar meiri háttar breytingar með lagaákvæðunum. Þau ákvæði sem ég tel hvað mikilvægust í þeim breytingum sem hér eru settar fram eru þau ákvæði sem sett eru um skyldu til að gera yfirtökutilboð sem geti myndast vegna samstarfs milli aðila og rætt hefur verið um. Einnig ákvæðið um að auka gegnsæi í eftirliti Fjármálaeftirlitsins með verðbréfaviðskiptum og að Fjármálaeftirlitinu verði að öðru jöfnu heimilt að birta opinberar niðurstöður í málum eða athugunum sem varða ákvæði laga um verðbréfaviðskipti. Þetta tvennt tel ég afar mikilvægt að verið sé að styrkja og við munum fara mjög vandlega ofan í þau ákvæði. Svo er talað um að verið sé að gera ákvæði um markaðsmisnotkun ítarlegri en í núgildandi lögum og nokkrar breytingar eru gerðar á ákvæðum um innherjasvik.

Hv. 4. þm. Norðvest., Einar K. Guðfinnsson, fór nokkuð yfir minnihlutaverndina, að vernda og treysta hag smærri hluthafa. Átti ég þátt í að flytja með hv. þingmanni, ásamt fleiri þingmönnum, frumvarp þar að lútandi og fagna því að sjálfsögðu að verið sé að fara þá leið að auka minnihlutaverndina og treysta hag smærri hluthafa. Það er ákaflega mikilvægt vegna þess að ákvæðin nú eru þess eðlis að hægt er að koma sér hjá yfirtökutilboðum með eignarhaldi skyldra aðila. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að á málinu sé tekið og ég fagna því. Ég mun auðvitað skoða málið í nefndinni með hliðsjón m.a. af því máli sem ég flutti ásamt hv. 4. þm. Norðvest., sem var í forustu fyrir framlagningu á þessum málum og mun skoða ákvæði frumvarpsins eins og hæstv. ráðherra leggur það fram með hliðsjón af því.

Ég tel ákaflega mikilvægt þetta með gegnsæi Fjármálaeftirlitsins og velti fyrir mér ákvæðinu sem hér er lagt fram. Hér er einungis um heimildarákvæði að ræða en ekki skyldu. Vera má að ákveðin rök séu fyrir því, en ég held að þetta sé ákaflega mikilvægt ákvæði og veiti aðilum á markaði mikilvægt aðhald. Reyndar hafa eftirlitsskyldir aðilar kallað eftir því að ekki sé verið að pukrast með úrskurði Fjármálaeftirlitsins, t.d. varðandi innherjasvik, heldur sé eðlilegt og rétt að úrskurðirnir séu birtir opinberlega. Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá þetta ákvæði í frumvarpinu, en ég hefði talið að skoða ætti hvort ekki ætti að hafa þá heimild sem hér er lögð til að skyldu þannig að þetta sé ákveðnara og hægt að ganga að því vísu að slíkir úrskurðir séu birtir.

Ég vil aðeins fara yfir umsögn fjármálaráðuneytisins um frumvarpið sem ekki hefur verið gert. Því miður missti ég af framsöguræðu hæstv. ráðherra þannig að ég veit ekki hvort hún fór yfir það í framsöguræðu sinni að frumvarpinu fylgir ákveðinn kostnaður fyrir Fjármálaeftirlitið. Verði breytingarnar að lögum fylgir því kostnaður, um 15 millj. kr., sem mun leggjast á Fjármálaeftirlitið sem hefur með eftirlitið að gera. Hér segir að kostnaðurinn verði að öllu leyti fjármagnaður með aukinni gjaldheimtu.

Gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi, ef ég skil rétt, á miðju þessu ári. Þegar við fórum yfir frumvarpið fyrir jólin um greiðslukostnað við opinbert eftirlit við fjármálastarfsemi man ég ekki betur varðandi frumvarpið sem þá hafði verið boðað að ekki væri gert ráð fyrir umsvifunum sem Fjármálaeftirlitið mundi fá vegna þessa í útgjöldum Fjármálaeftirlitsins á næsta ári. En Fjármálaeftirlitið hefur vakið athygli á auknum umsvifum eftirlitsins, m.a. vegna mikilla umsvifa viðskiptabankanna. Þeir hafa líka bent á undirbúning undir alþjóðlegar eiginfjárreglur fyrir fjármálafyrirtæki sem eiga að taka gildi árið 2003 og bent á eftirfylgni við framkvæmd nýrra laga á verðbréfasviði sem þeir segja að sé mjög umsvifamikil og muni kalla á aukna vinnu eftirlitsins.

Ég man ekki betur en ekki hafi verið gert ráð fyrir þeim útgjöldum Fjármálaeftirlitsins í því frumvarpi sem við fjölluðum um fyrir jólin. Ef um er að ræða árlegan 15 millj. kr. kostnað hjá Fjármálaeftirlitinu vegna eftirfylgni með frumvarpinu hefur að mínu viti ekki verið gert ráð fyrir því í fjárhag eftirlitsins. Frumvarpið á að taka gildi 1. júlí 2005. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig Fjármálaeftirlitið á að mæta kostnaðinum á þessu ári, hvort eitthvað hafi verið hugað að því.

Það er athyglisvert þegar maður skoðar fjármagnið sem Fjármálaeftirlitið hefur haft til umráða frá 1999 og ber saman raunbreytingar á útgjöldum og fjármagni sem Fjármálaeftirlitið hefur haft frá 1999–2003 að fjármagn til stofnunarinnar hefur dregist saman um 0,4% á þessu tímabili á meðan t.d. útgjöld ríkislögreglustjórans hafa aukist um 84,9% og útgjöld Samkeppnisstofnunar um 30%. Þrátt fyrir að sífellt sé verið að leggja aukin verkefni á Fjármálaeftirlitið er athyglisvert að það hefur ekki orðið nein raunbreyting á framlögum til stofnunarinnar þegar þetta er skoðað í samhengi við árið 1999.

Ég held að þetta sé afar mikilvægt og reyndar kemur það fram hér þannig að hæstv. ráðherra er að fullu meðvitaður um það. Það er beinlínis sagt á bls. 27 hvað eftirlitið hafi í för með sér mikinn ávinning fyrir samfélagið í heild. Þess vegna hef ég viljað styðja mjög vel við bakið á Fjármálaeftirlitinu. Ég tel, miðað við þau gögn sem við höfum undir höndum og höfum farið yfir í efnahags- og viðskiptanefnd, að þeir hagi sér mjög skynsamlega að því er varðar útgjöld og hagræðingu í rekstrinum. Ég tel afar mikilvægt að búið sé vel Fjármálaeftirlitinu, sem og öðrum eftirlitsstofnunum, vegna þess að það skili sér margfalt aftur til samfélagsins að treysta stöðu þeirrar stofnunar.

Gott væri ef hæstv. ráðherra gæti við þessa umræðu upplýst þetta varðandi kostnaðinn og þær fjárhæðir sem fram koma í athugasemdum Fjármálaeftirlitsins um kostnað sem lögunum fylgir.