Verðbréfaviðskipti

Fimmtudaginn 10. febrúar 2005, kl. 16:01:44 (4506)


131. löggjafarþing — 72. fundur,  10. feb. 2005.

Verðbréfaviðskipti.

503. mál
[16:01]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa jákvæðu umræðu sem farið hefur fram um þetta mikilvæga og umfangsmikla mál sem nú er til umræðu og mun fá umfjöllun í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég held því fram að málið sé vel unnið. Það er unnið í þremur nefndum og vel ígrundað það sem þar kemur fram og þar er lagt til, en engu að síður skiptir umfjöllun nefndarinnar að sjálfsögðu miklu máli eins og alltaf.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson flutti hér gott mál og minntist m.a. á það frumvarp sem hann hefur lagt fram og er til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Um það frumvarp var fjallað í þeirri nefnd sem fór með þann málaflokk á undirbúningsstigi og margt gott um frumvarpið að segja. Almennt er því haldið fram að veltuhraði sé ekki sérstaklega góður mælikvarði. Ef ég má nefna dæmi því til staðfestingar hefðu viðskipti KB-banka þurft að vera upp á 170 milljarða á ársgrundvelli til að ná 50% veltuhraða. Ef við tökum félag, sem væri Vaki DNG, sem er nú eitt minnsta félagið, við getum líka tekið eitt það stærsta, Pharmaco, sem nú er Actavis, en þau voru með svipaðan veltuhraða á árinu 2003, eða rúm 50%. Á bak við þessar tölur eru rúm 5.000 viðskipti með hlutabréf í Pharmaco, stóra félaginu, en aðeins 11 viðskipti með hlutabréf í Vaka DNG, litla félaginu. Þetta setur mig a.m.k. í vafa um að veltuhraði væri góður mælikvarði. Auðvitað verður það rætt í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég vil nefna annað atriði sem var nefnt strax við upphaf umræðunnar og varðar það að ekki sé einungis heimild til handa Fjármálaeftirlitinu að birta niðurstöður og úrskurði heldur bókstaflega skylda, þá hef ég efasemdir um að rétt sé að ganga svo langt. Ég held að það sé mjög skynsamlegt og mikilvægt skref sem við stígum með frumvarpinu. Ég endurtek það sem ég sagði í andsvari að við þurfum að horfa á hagsmuni markaðarins og m.a. á persónuvernd í þessu sambandi. Miðað við orð hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem sagði hér og hefur oft sagt áður að hún telji Fjármálaeftirlitið haga sér skynsamlega og hefur sýnt áhuga og sýnt það í verki liggur mér við að segja að hún treysti því ákaflega vel, þá held ég að við getum sætt okkur við það að stíga þetta skref og ég held því fram að það sé í raun mjög mikilvægt skref sem við stígum með þessari heimild sem hefur vissulega mikil varnaðaráhrif á markaðnum.

Að síðustu um það hvernig fjármagna skuli þessar breytingar á yfirstandandi ári miðað við það að frumvarpið tekur gildi um mitt ár að mestu leyti, þá er það þannig að ekki er gert ráð fyrir viðbótarfjármunum eða fjármagni til handa Fjármálaeftirlitinu í ár til að bregðast við þessum kostnaði, enda hefur það í raun ekki verið hægt að vinna með þeim hætti þegar við vorum ekki einu sinni búin að leggja frumvarpið fram þegar gengið var frá lögum um fjármögnun Fjármálaeftirlitsins. En við verðum að trúa því að Fjármálaeftirlitið geti bætt sér þetta upp á næsta ári ef þarna fellur til einhver kostnaður sem ég reikna með að geti orðið.

Að öðru leyti ætla ég ekki að lengja þessa umræðu. Ég vil bara þakka fyrir hana. Mér fannst hún jákvæð. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um gagnkvæmt eignarhald og ég þekki skoðanir hans á því máli og virði þær að sjálfsögðu, en fer ekki frekar út í þær nú en legg mikla áherslu á málið í umfjöllun í efnahags- og viðskiptanefnd.