Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 11:18:41 (5072)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:18]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hlýtur að þurfa að svara því hvað hefur breyst frá því hann lagði til hér fyrir nokkrum dögum, sem við samþykktum tillögu um og vorum öll samstiga um það í hv. allsherjarnefnd, að bæði hvað varðar A-deild og B-deild Stjórnartíðinda að aðeins megi nota tilvísunaraðferðina ef um er að ræða reglur sem hafa verið birtar og þýddar á íslensku. Við gerðum þessa breytingu og með þeirri breytingu gat ég með glöðu geði treyst mér til að styðja frumvarpið í þeirri mynd sem það er í dag, þ.e. eftir að við samþykktum þá tillögu við 2. umr.

Núna hefur hv. þingmaður lagt til að snúa örlítið til baka, vinda örlítið ofan af því sem við samþykktum í hv. allsherjarnefnd og hv. þingmaður samþykkti líka, að það eigi ekki við um birtingu samkvæmt 2. mgr. 4. gr. nema annað verði ákveðið með lögum. Annars vegar vill hann heimila þessa undanþágu með lögum hvað varðar A-deildina og hins vegar með leyfi dómsmálaráðherra hvað varðar B-deildina.

Mér finnst það ekki hafa komið skýrt fram hjá hv. þingmanni hvað veldur þessari breytingu hans. Allsherjarnefnd var um það innilega sammála að hafa ætti allan vara á þessari heimild. Hv. þingmaður hefur ekki heldur svarað því hvernig hann sér það standast að heimila þetta frávik í almennum lögum á meðan skýr texti laganna um EES hljóðar á um að gerðirnar skuli þýddar.

Þessu hefur hv. þingmaður ekki svarað. Þar af leiðandi er málflutningur hans í tengslum við þessa breytingartillögu afar ósannfærandi. Ég vil endilega að hv. þingmaður geri tilraun til þess að útskýra hvað valdið hefur þessari stefnubreytingu því að um þetta var fullkomin eining í allsherjarnefnd á sínum tíma.