Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað

Fimmtudaginn 24. febrúar 2005, kl. 11:47:21 (5077)


131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:47]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst málflutningur hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar dálítið sérstakur. Hann gerði mikið úr nauðsyn þess að allar EES-gerðir yrðu þýddar og engar undantekningar gerðar frá þeirri þýðingarskyldu. Hann var kaþólskari en páfinn í þeim efnum. Menn hafa nánast snúið þessu máli upp í andhverfu, finnst mér, og láta eins og íslenskri tungu stafi hætta af þeim breytingum sem hér er lagt til að gerðar verði á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað, eins og að lagasafnið væri gefið út á frönsku og þá jafnvel útgefið í Brussel. Auðvitað er þetta ekkert þannig. Það er bara verið að leggja til heimild fyrir löggjafann sjálfan til þess að birta tilteknar gerðir, ef honum sýnist svo, á takmörkuðu sviði, reglur um flug og reglur um kannski járnbrautir og sporvagna, einhver atriði sem skipta okkur Íslendinga kannski ekki mjög miklu máli.

Hv. þingmaður lýsti því yfir að hann sæi sér ekki fært að styðja þetta mál í ljósi þeirra breytinga sem hér koma fram og þeirrar miklu hreintrúarstefnu sem hann talaði hér fyrir. Það er nú sérstaklega furðulegt í ljósi þess að þingmaðurinn sjálfur stendur að nefndaráliti um og samþykkti að í lögin yrði leidd regla sem fram kemur í 2. mgr. 4. gr. þar sem beinlínis er heimilað að birta eingöngu erlendan frumtexta milliríkjasamnings ef samningurinn varðar afmarkaðan hóp manna sem með sanngirni má ætla að skilji hið erlenda mál vegna menntunar sinnar og annarrar sérhæfingar. Þingmaðurinn var með öðrum orðum eftir 2. umr. tilbúinn til að gera ákveðnar tilslakanir á þessum grundvallarprinsippum sínum en hefur nú horfið frá þeim tilslökunum. Ég vil fá að vita (Forseti hringir.) hvað hefur gerst í huga hv. þingmanns sem veldur þessari stefnubreytingu.