Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 15:55:25 (5404)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:55]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Það er ekki nýtt af nálinni að deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar blossi upp í þjóðfélaginu og rati inn í sali Alþingis. Til dæmis er þetta í annað skipti í nokkur ár sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins spyr ráðherra Sjálfstæðisflokksins um framtíð flugvallarins og ber auðvitað að þakka fyrir það.

Ég sagði áðan að það eru deilur um þetta mál. Það eru deilur milli landsbyggðarfólks og höfuðborgarbúa. Það eru deilur milli íbúa Reykjavíkur um framtíð flugvallarins. Það eru deilur innan flokka, kannski sem betur fer, t.d. eru deilur innan hins fámenna borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar eru menn með flugvellinum, á móti og hlutlausir. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins er þríklofinn í þessu máli, eins og kemur fram í bókun varðandi aðalskipulag. Það eru skiptar skoðanir innan allra flokka um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég lenti í því um daginn í þoku sem gerð hefur verið að umræðuefni að það tók mig eina og hálfa klukkustund frá því ég fór um borð í rútu á Reykjavíkurflugvelli þangað til ég var kominn um borð í viðkomandi flugvél á Keflavíkurflugvelli. Hefði ég verið að fara til Akureyrar í þessu tilviki, hefðu bæst við 45 mínútur í flugi og kannski 10–15 mínútur við að bíða eftir tösku. Upp undir þrjár og hálf klukkustund. Ég hefði verið fjóra tíma til Akureyrar akandi á löglegum hraða án þess að stoppa. Þetta er skýrt dæmi um það að innanlandsflug mundi leggjast af færi flugið frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkur. Þar að auki ykist kostnaður einstaklinga mjög mikið. Það er augljóst mál, virðulegi forseti, að þetta mundi gerast.

Frú forseti. Ég segi aðeins að það er mjög mikilvægt að ná sátt um framtíð Reykjavíkurflugvallar milli þeirra deilenda sem ég hef gert að umtalsefni. Ég vona og treysti því að minnisblað eða samkomulag milli borgarstjóra og hæstv. samgönguráðherra sé leið í þá átt.