Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 16:00:04 (5406)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[16:00]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er staðreynd, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að við Íslendingar, ekki fjölmennari þjóð en við erum, sitjum uppi með tvo alþjóðaflugvelli á sama landshorninu, hér á suðvesturhorninu, og tókum ákvörðun um að byggja hvorugan sjálf. Bretar byggðu Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni og Bandaríkjamenn Keflavíkurflugvöll á Miðnesheiði. Þetta er ekki mjög praktískt fyrirkomulag en svona er þetta.

Það er alveg augljóst mál að það er hagkvæmt fyrir innanlandsflug landsmanna sjálfra, til og frá höfuðborgarsvæðinu, að það sé sem næst höfuðborgarsvæðinu. Það sparar tíma og styrkir væntanlega rekstrargrundvöll þess hluta innanlandsflugsins sem á ekkert erindi annað. Það er hins vegar löngu tímabært, og merkilegt að það skuli ekki hafa komist til framkvæmda, að færa allt annað flug burtu héðan en það sem er þá beint tengt erindum manna til og frá höfuðborgarsvæðinu. Ég vissi ekki betur en það væri löngu ákveðið að æfinga-, kennslu- og ferjuflug og annað slíkt flug færðist í burtu frá Reykjavíkurflugvelli. Hvað dvelur þá aðgerð?

Það er líka ljóst í mínum huga sem aldrei er talað um að það væri mikilvægt fyrir landsbyggðina að hafa einnig innanlandsflug til Keflavíkur. Það er t.d. augljóslega mikið hagsmunamál vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á landsbyggðinni að það sé mögulegt að ferðamenn komist til og frá landsbyggðinni og beint í veg fyrir millilandaflugið, a.m.k. meðan ekkert gengur í að byggja upp beint millilandaflug frá stöðum eins og Akureyri og Egilsstöðum og fyrir þá landsmenn, íbúa landsbyggðarinnar, sem eiga ekki annað erindi um Reykjavík en að fara beint áfram til Keflavíkur og upp í vél sem er að fara til útlanda. Þetta finnst mér að eigi allt að taka inn í myndina þegar menn ræða þetta og vonandi með rökum og af viti en ekki tómri tilfinningasemi. Síðan standa málin þannig að það eru öll tilskilin leyfi til rekstrar Reykjavíkurflugvallar til 2016. (Forseti hringir.) Hver sér nákvæmlega fyrir í dag hvernig aðstæðurnar verða þá? Eigum við nú ekki bara að draga andann rólega? (Forseti hringir.) Himinn og jörð eru ekki að farast akkúrat þessa dagana í þessum efnum.