Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 16:04:43 (5408)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[16:04]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða hefur verið fróðleg. Það kom auðvitað ekki á óvart að hv. 9. þm. Reykv. n., Helgi Hjörvar, skyldi afdráttarlaust krefjast þess að flugvöllurinn yrði lagður niður. Auðvitað gleymir hann því í þeim útreikningum að 1.100–1.200 ársverk voru óbeint við flugvöllinn, að vísu fyrir átta árum, þ.e. meðan ég var samgönguráðherra. Þeim hefur sennilega fjölgað síðan. Veltan var þá á tólfta milljarð kr. svo það er töluvert í húfi fyrir Reykvíkinga að þessi atvinnustarfsemi geti haldið áfram ef menn horfa þannig á.

Mér þótti hins vegar gaman að sjá þennan gamla sósíalista og kommúnista, hv. þingmann, veifa peningapungnum og segja að ef við leggjum niður Reykjavíkurflugvöll muni allir íbúar á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði fá 1 millj. kr. Mér þótti merkilegt að hann skyldi leggja mál sitt upp með þeim hætti sem sýnir að hann er mjög efnahagslega sinnaður, hv. þingmaður, og hefur mikið vit á þeim málum þó að hann sé nú ekki jafningi frænda míns, Péturs H. Blöndals, í raunsæi í þeim.

Það vakti athygli mína hvernig hv. þingmenn tóku á þessu máli. Hv. þm. Ögmundur Jónasson, 9. þm. Reykv. s., kom hvergi að málinu sjálfu. Ég heyrði á hv. 5. þm. Norðaust., Steingrími J. Sigfússyni, að hann vill anda rólega og treysta því að flugvöllurinn verði í það minnsta til 2016 svo að mér datt í hug að það yrði þá síðasta árið sem hann byði sig fram kannski og hann vildi við það miða. Ég hygg á hinn bóginn að ekkert sé öruggt í þessum efnum og tel að við eigum að vera undir það búin að mæta því að menn eins og hv. þm. Helgi Hjörvar nái sínu fram, a.m.k. tel ég óhjákvæmilegt að við stefnum að því að stytta leiðir innan lands.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson vill fara Arnkötludal en ekki með ströndinni í Strandasýslu. Ég vil líka fara stystu leiðina norður, eins og hann vill stytta sér leið til Ísafjarðar.