Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 16:21:31 (5412)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:21]

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Þau eru kannski ekki mikil að vöxtum þessi lög. Hins vegar er af mjög mörgu að taka og ég efast ekkert um að hægt væri að skoða margt þarna og sjálfsagt er að gera það og einmitt nákvæmlega þetta t.d. sem hv. þingmaður nefndi. Það var vilji okkar í umhverfisnefndinni að reyna að klára það mál afmarkað sem snýr að stjórn á veiðum á rjúpu. Þess vegna héldu menn því afmörkuðu í þetta skiptið, að því undanskildu að menn tóku þingmannafrumvarp sem var búið að liggja í nefndinni og var búið að fá þar áður efnislega umræðu og fara til umsagnar. Ég held ég fari rétt með, virðulegi forseti, að þetta sé annað frekar en þriðja þingið sem það lá inni hjá nefndinni.

Nefndin fór því ekki í fleiri efnisflokka en sem fram koma í frumvarpinu þó í sjálfu sér mætti ýmislegt endurskoða og skoða í því sambandi og sjálfsagt og eðlilegt er að gera það eins fljótt og mögulegt er.