Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 16:58:54 (5415)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[16:58]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Skýringin á því að ég legg til að stytta rjúpnaveiðitímann er sú að fjöldi manns fyrir norðan á rjúpnasvæðunum þar, þeir sem eru vanir að skjóta rjúpu í matinn fyrir sjálfa sig hafa komið að máli við mig. Margir hafa viljað stytta veiðitímann og miða við 15. nóvember. Ég tel að rétt sé að gera þetta vegna þess að með því að stytta veiðitímann aukum við heldur friðun rjúpunnar. Menn þurfa að hafa meira fyrir því að ná í hana. Það eru höfuðrök mín að vegna þess að menn vilja horfa á rjúpnaveiðar sem sport, að menn hafi þá eitthvað fyrir því.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað heldur rjúpan sig í móunum á meðan autt er en á síðustu árum hvarf hún upp til fjalla strax og veiðitímabilið hófst og menn fóru að skjóta hana. Það var auðvitað þannig. Allt er þetta álitamál. En ég vil koma til móts við þau sjónarmið að menn eigi ekki að ganga jafnnærri rjúpnastofninum og verið hefur og vil gera það með því að stytta veiðitímann.