Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:12:01 (5417)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:12]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Áður en ég tek til máls um frumvarpið langar mig að fara nokkrum orðum um breytingartillöguna sem liggur fyrir frá hv. þm. Halldóri Blöndal. Ég tek eftir að hún er, með einni undantekningu, samhljóða frumvarpi til laga sem sami þingmaður hefur flutt og er 386. mál á þinginu. Það hefur ekki komið til 1. umr. enn þá og er því ekki í umhverfisnefnd. Frumvarpið hefur heldur ekki verið afturkallað en hv. þingmaður hefur breytt því í breytingartillögu við allt annað frumvarp sem fjallar þó um sama lagabálk. Það er örugglega leyfilegt og ekkert formlega að því að finna.

Hins vegar er eðlilegra að ræða sérstaklega breytingar af þessu tagi sem varða allt annað en efni frumvarpsins sem breytingartillagan er sett fram við. Frumvarpið fjallar ekki um endur og ekki um skúm og kjóa heldur um rjúpnaveiðar og allt það mál með þeirri viðbót sem fram kom um æðarvarp og grásleppu sem var tekið úr máli sem lá hjá nefndinni og var reyndar endurflutt frá í fyrra, að mig minnir, ef ekki lengra aftur. Það var því eðlilegt að nefndin íhugaði að taka það fyrir, en ekki eins eðlilegt að taka þetta fyrir.

Mál af þessu tagi þarf náttúrlega almenna umræðu en fékk það ekki, þó nokkuð yrði um upphrópanir og ýmis tölvuskeyti þegar hv. þingmaður lagði það fram. Það þarf ákveðnar athuganir og meiri að mínu mati en hægt er að koma við á þeim tíma sem líður frá 2. til 3. umr., nema 3. umr. dragist mjög á langinn og það tel ég óheppilegt um þetta rjúpnamál.

Mér finnst efni frumvarpsins og breytingartillagnanna áhugavert og er tilbúinn til að skoða það og ræða og skora á hv. þingmann að flytja þetta aftur næsta vetur, nægilega snemma til að umhverfisnefndin geti kallað eftir almennilegum umsögnum og eftir umræðu meðal veiðimanna og annarra haghafa og alls almennings, sem þetta verðskuldar.

Ég verð að segja það þó um sérstaklega þriðja liðinn og raunar um breytingartillögurnar allar að hv. þingmaður og aðrir þeir sem hér hafa talað verða auðvitað að skilja grundvallarsjónarmiðin í þeim lögum sem hér er um að ræða. Þau breyttust vissulega fyrir ekki löngu síðan, breyttust mjög mikið, breyttust í grunninn á þann hátt að veiðar á þeim fuglum sem hér um ræðir eru bannaðar með lögum. Undantekning frá því banni er síðan heimiluð ráðherra en það er ekki þannig að ráðherrann sé bundinn við tímasetningarnar í þessum heimildarreglum, heldur getur hann hagað þessu eftir sinni vild innan ákveðinna takmarkana. Þess vegna er ekki um það að ræða að hér sé verið að ákveða í sjálfu sér veiðitíma, heldur er það ráðherra sem gerir það með þeim kostum og göllum sem fylgja. Þó að mér finnist framsal valda til ráðherra ekki heppilegt tel ég að enginn annar en ráðherra geti haft þessi völd vegna þess að oft þarf að bregðast við með ákaflega skömmum fyrirvara með rjúpuna og marga aðra af þessum fuglum og veiðidýrum á þeim tíma sem þingið er venjulega ekki að störfum, þ.e. að sumri eða hausti.

Ég tel að þriðji liðurinn í breytingartillögu hv. þingmanns sé ágætisábending til umhverfisráðherra að skoða en að hinir eigi að bíða og það sé ekki heppilegt að blanda þeim við þetta mál. Það er mín afstaða í þessu en auðvitað verð ég með í athugun á því í umhverfisnefndinni ef af henni verður.

Um málið sjálft vil ég segja að ég tek undir þakkir til ráðherra fyrir framgöngu hennar og tel að hún hafi lagt sitt fram til að leysa þá deilu og stilla þau átök sem höfðu orðið um þetta mál, að ósekju að ég hygg. Ég ætla ekki að fara frekar í það, það er búið að ræða það í löngu máli.

Í nefndinni náðist full samstaða um þetta efni og því ber að fagna. Sú samstaða á sér auðvitað grunn í þessum deilum og átökum, menn vildu leggja sig fram um að leysa málið líka af hálfu nefndarinnar eins og það hafði verið gert annars staðar, og eina athugasemdin sem fylgdi með í nefndaráliti var frá hv. þm. Gunnari Birgissyni. Grunnur hennar er líka sá að ekki sé eðlilegt að ráðherra fái meiri völd en hann þegar hefur. Þá er hins vegar aftur á það að líta að ráðherra hefur núna það vald að lögin banna veiðar á þessum fuglum og vald ráðherrans felst í því að aflétta því banni um ákveðinn tíma. Það verður hann að ákveða á hverju ári, hvort hann gerir það eða ekki, þannig að þegar nánar er að gáð felst ekki í frekari heimildum til ráðherra raunverulegt valdaafsal, heldur felst það í þeim heimildum að gefa ráðherranum fleiri verkfæri en þá ákvörðun eina hvort fylgja á ákvæðinu um bann eða hvort ráðherrann á að nota heimildina.

Um það að hér séu allir fuglar settir undir einn hatt er það rétt, það er að sjálfsögðu efnisbreyting. Hún er að vísu ekki komin frá nefndinni, heldur beint úr áliti þeirrar nefndar hagsmunaaðila, sem svo verða að heita, og fræðimanna sem skipuð var og hefur starfað hér frá því í fyrrasumar. Þeir töldu eðlilegt að þessi deila um rjúpuna yrði fyrirmynd að lausn á þeim deilum sem upp gætu komið um aðrar veiðitegundir. Það er held ég rétt álit og síðan er auðvitað á það að líta að rjúpan er ekki frekar en aðrir fuglar alveg einangruð að veiðistjórn til vegna þess að eins og við vitum fýsir menn að veiða aðrar tegundir en þá hina einu sönnu þegar það er bannað eða takmarkað. Takmörkun á veiðum á einu dýri getur leitt til aukinnar sóknar í hið næsta og þess vegna erum við að setja í hendurnar á ráðherranum það vald að geta brugðist við strax þegar um einhverjar þær ákvarðanir er að ræða sem geta haft áhrif á fleiri tegundir en þá sem aðallega er rætt um. Ég skil fyrirvara hv. þm. Gunnars Birgissonar en ég held að í raun og veru saki ekki þó að við förum þá leið sem aðrir hafa sameinast um.

Það var töluvert rætt í nefndinni og ég spurði að því nokkuð hvers vegna ekki væru sett ákvæði um kvóta, einhver heimild um kvóta. Þá kemur auðvitað að því að menn töldu að það væri erfitt að setja slíkar heimildir. Menn þykjast ekki hafa góða reynslu af kvótasetningu á öðru sviði og óttast auðvitað mjög deilur um kvóta, að þær tækju sig upp sem hér hafa brunnið vegna kvótans í sjávarútvegi. Á það var reyndar bent að til væru ákaflega einfaldar fyrirmyndir að kvótasetningu á fuglaveiði sem væri hægt að taka hér upp en talið var, þannig að notað sé ráðuneytisorðalag, að þetta yrði of flókið og best væri að stíga færri skref í einu. Þingnefnd sem mætir slíkum svörum segir við sjálfa sig að ef ráðherrann og ráðuneyti hans vilja ekki slíkar heimildir sé kannski til lítils að láta þær í hendurnar á þeim.

Ég er hins vegar sammála því sjónarmiði sem kom fram í nefndinni frá að ég hygg Gunnari Birgissyni, sem ég vitnaði hér til áðan, hv. þingmanni, að í grunninn er kvótinn ákaflega æskileg leið til að koma í veg fyrir magnveiðina sem þetta frumvarp snýst fyrst og fremst um að koma í veg fyrir. Án kvótans er frumvarpið að ákveðnu leyti gallað.

Hins vegar held ég að það sé rétt að beina því til skotveiðimanna og félags þeirra, Skotvíss, að þeir athugi um óformlega kvótasetningu, hvort samstaða geti tekist meðal þeirra um það hvað er siðlegur kvóti í hverri veiðiferð á mann án þess að það sé regla sem sæti neinum refsingum, hvorki innan félags og auðvitað ekki í heildina. Ég held að með þeim hætti gætu menn kannski vanið sig á að takmarka veiðina eins og eðlilegt er með skotveiði sem stunduð er í sportskyni, í íþróttaskyni og náttúruupplifunarskyni.

Annað sem við ræddum var innflutningsbann, hvort ekki þyrfti, ef samþykkt yrði sölubann, innflutningsbann vegna þess að þó að sumir menn séu góðir í dýrafræði eru það ekki allir og það kann að vera snúið fyrir neytendur í stórmarkaði, hvað þá á veitingahúsi, að greina á milli rjúpu af íslenskri heiði eða skoskri eða frá Grænlandi eða jafnvel Rússíá eða hvaðan þær nú eru, þeir sem ekki eru þeim mun betur verseraðir í því máli. Þetta var líka talið flókið og erfitt að eiga við og því var þar að auki lofað að stofnanir landbúnaðarráðherra væru vanar að eiga við innflutning á kjöti og mundu ganga vel á eftir því að slíkur innflutningur væri merktur og hægt að rekja hann. Ég vona ósköp einfaldlega að svo verði því að við gáfumst upp við að setja það inn að sinni.

Það var líka ákveðið sjónarmið í nefndinni sem mig minnir að formaður hennar, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, hafi tekið fram um að hugsanlega væri heppilegast að beita ekki öllum aðferðum í einu þannig að betra færi gæfist á að kanna hvaða áhrif hver þeirra hefði. Þá höfum við auðvitað í huga hinar miklu deilur sem hér hafa geisað undanfarin missiri.

Ég vil segja það að gefnu tilefni — það er mikil tíska hjá ýmsum þingmönnum að þegar upp hefjast umræður um fugla hér á þinginu, af hvaða tagi sem er, sé farið í tófu og mink — að það er alveg rétt hjá hv. þingmönnum sem hér hafa talað og þeim sem fyrr hafa talað að tófa og minkur éta fugl. Tófa og minkur éta reyndar ýmislegt annað en fugl og fer það eftir framboði fæðu og þeim svæðum þar sem tófan og minkurinn þrífast. Það er sorglegt að með alla okkar tófna- og minkasögu liggi ákaflega fátæklegar rannsóknir fyrir um tófu og mink, hvað þessi dýr éta, hvar þau þrífast og hvernig hægt er að koma í veg fyrir að þau fjölgi sér eða sæki á önnur svæði. Satt að segja er niðurstaðan úr baráttu okkar við tófuna sem hefur staðið frá því að Ingólfur og Hjörleifur komu hér að landi seint á 9. öld, og við minkinn sem staðið hefur frá því á fyrri hluta síðustu aldar, eiginlega ósigur mannkynsins gegn þessum dýrum. Þau hafa lifað áfram góðu lífi og okkur hefur ekki tekist með þeim aðferðum sem við höfum beitt að koma í veg fyrir tjón af þeirra völdum að nokkru ráði. Það er auðvitað spurning hvort það er ekki ábyrgðarhluti að verja áfram miklu fé til að eiga við þessi dýr meðan ekkert er víst um það hverju féð skilar, öðru en auðvitað því að til eru þeir menn í landinu sem hafa gaman af því að stunda náttúruupplifun með þeim hætti að skjóta tófu og mink. Ég vil vara menn við því, nema þeir geti vísað í þeim mun traustari rannsóknir, að gera mikið úr áhrifum tófu og minks á einstaka fuglastofna. Ég held að ansi margir þættir komi við sögu, um hvaða fuglastofn eða dýrastofn sem rætt er, og það er nokkuð einföld og frekar billeg aðferð að skjóta ábyrgð á tófuna og minkinn þegar mönnum fer að líða illa með stofna dýra án þess að hafa neitt fyrir sér í því nema sögusagnir og getgátur. Hins vegar er alveg ljóst, þannig að ég ljúki þessu máli, að tófa étur fugl og minkur étur líka fugl þannig að sjálfsagt er að rannsaka þetta áfram, enda í gangi að ég hygg sérstök tófna- og minkanefnd hjá hæstv. umhverfisráðherra.

Það er tvennt merkilegt við þetta frumvarp, og það er í raun og veru stórmerkilegt. Í fyrsta lagi er það grunnur að sátt um veiðistjórn á rjúpu og öðrum tegundum fugla eftir harðar deilur. Þær settu menn í andstæðar fylkingar og skeyti voru látin fljúga á milli, fræðimanna annars vegar og reyndar tveggja deilda af fræðimönnum og hins vegar skotveiðimannanna. Síðan voru bændur á einum staðnum og fulltrúar héraða á landinu. Þetta voru sum sé mjög harðar deilur og átök, að ógleymdu auðvitað náttúruverndarfólki af ýmsu tagi. Nú hefur tekist að sættast á ákveðna leið sem farin verði út úr þessu stríði. Það er merkilegt og við skulum vona að sú sátt haldi.

Í öðru lagi, og það er eiginlega enn þá merkilegra, er það staðreynd að með frumvarpinu, ef samþykkt verður, verða rjúpnaveiðar hér eftir viðfangsefni sportveiðimanna. Það sem við erum að segja í þinginu með því að samþykkja frumvarpið er að veiðar á rjúpu eru fyrir þá íþróttamenn og náttúruunnendur sem við köllum gjarnan sportveiðimenn. Rjúpnaveiðar eru ekki lengur atvinnugrein í landinu, hvorki þeirra manna sem sérhæfa sig í rjúpnaveiðum á þessu ákveðna veiðiskeiði hvar sem þeir eru búsettir og við þekkjum sem atvinnuveiðimenn né bænda sem hafa haft af þeim mikil hlunnindi. Hlunnindi þeirra minnka verulega og þeir verða að mæta því að þetta er ekki lengur þáttur í búskap þeirra. Þessa staðreynd held ég að rétt sé að menn viðurkenni og hafi í huga þegar þeir greiða atkvæði um frumvarpið því það er nokkuð skýrt að það er þetta sem verður og er niðurstaðan úr þessari vinnu allri saman. Þess vegna hefði hugsanlega verið rökrétt að ganga alla leið eins og ég sagði áðan en þetta er sem sagt andi laganna. Rjúpnaveiðar eru íþrótt fyrir sportveiðimenn.

Hvernig á þetta að takast — því hér er auðvitað við ýmsa hagsmuni að eiga, ýmsar tilfinningar og erfiðleika? Þetta tekst ekki nema í bandalagi milli yfirvalda, umhverfisráðherra og hans manna og lögreglunnar að sjálfsögðu, bandalagi þeirra við sportveiðimenn, vísinda- og fræðimenn af ýmsu tagi og náttúruunnendur. Sérstakt er auðvitað hlutverk sportveiðimannanna í þessu. Þegar við samþykkjum frumvarpið ætlumst við til og vonumst til að skotveiðimenn taki fulla ábyrgð á þeirri sátt sem nú hefur verið gerð og tengist böndum við yfirvöld og náttúruverndarmenn í þessum efnum um að þetta fari á hinn besta veg.

Það er rétt sem sagt var hér í stólnum að oft hefur það verið svo á Íslandi að matur þykir aldrei betri en þegar hann er bannaður. Við könnumst við klauflaxinn frá fornum tímum og jafnvel æðurin, sem ég held að engum detti núna í hug að ráðast á þar sem hún fer um heimkynni sín, æðarveiðar voru á fyrri hluta síðari aldar hafðar í flimtingum og þótti kannski bara mannsbragur að því að taka eina og eina í veiðiferð. Enn þekkjum við þetta með hvalinn sem bannaðar eru veiðar á en fæst enn þá á ýmsum veitingastöðum og hafður er til matar á þorrablótum með þeim orðum að hann sé frá því fyrir tíma hvalveiðibannsins, og svo er hlegið svolítið á eftir. Þetta verðum við endilega að forðast með rjúpuna og aðra þá fugla sem veiðar eru takmarkaðar á og sett er á sölubann, sem líklegt er að verði strax næsta haust um rjúpuna. Þess vegna skiptir öllu að menn séu samtaka í þessum efnum.

Það er framlag mitt og samfylkingarmanna í umhverfisnefnd til þess að menn séu samtaka að standa heilir að baki þessu frumvarpi þótt auðvitað mætti gera við það ýmsar athugasemdir í smáatriðum og hafa ýmislegt öðruvísi. Ég legg að lokum áherslu á að þótt frumvarpið sé gott verður að halda áfram ýmiss konar rannsóknarvinnu við það, bæði hvað dýrafræðina sjálfa varðar og hvað varðar félagsfræði veiðimanna og neytenda svo að almennum hlutum séu gefin stór nöfn. Í því trausti legg ég til að við ljúkum þessu máli fljótt og tökum til við hina nýju tíma í rjúpna- og fuglaveiðum sem nú eru að renna upp.