Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum

Mánudaginn 07. mars 2005, kl. 17:39:24 (5420)


131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[17:39]

Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þingsköp kveða á um það um hvað nefndir fjalla og undir hvaða skilyrðum og ef máli er vísað til nefndar þá fjallar nefndin um það. Ég held að óhjákvæmilegt sé að lesa þetta upp og ef breytingartillaga nefndarinnar verður samþykkt hljóðar þetta svo, bann við sölu á veiðifangi, með leyfi

„Umhverfisráðherra er heimilt með reglugerð, þegar friðun einstakra fuglategunda er aflétt í samræmi við ákvæði 17. gr., að banna sölu á þeim fuglum og afurðum þeirra, enda sé talið nauðsynlegt vegna ástands stofnsins að takmarka veiðar innan leyfilegs veiðitímabils.“

Þetta er alveg afdráttarlaust. Nefndin leggur til að ekki sé hægt að grípa til þessa sölubanns, viðskiptabanns nema hæstv. ráðherra sjái ástæður til að beita heimildum sínum til að takmarka veiðarnar meira en kveðið er á um almennt í lögunum. Þetta er alveg augljóst.

Það er líka alveg augljóst ef við horfum á þá hugsun sem er í stjórnarfrumvarpinu að áætlaður varpstofn urtandar er 3.000–5.000 pör, sömuleiðis duggandar. Ef við tökum litlu-toppönd 2.000–4.000 pör. Í upphaflega frumvarpinu stendur að ef viðkomandi stofn þoli ekki ótakmarkaða veiði innan tímabilsins. Auðvitað á þetta við um þessar andir. Hafa hv. þingmenn í nefndinni ekki rætt sérstaklega hvernig þetta kemur við andaveiðarnar og t.d. hvort mögulegt sé að leyfa stokkandaveiðar en ekki urtandaveiðar og þar fram eftir götunum? Hv. þingmenn hljóta að hafa athugað þetta sérstaklega í nefndinni því að frumvarpið fjallar beinlínis um viðskipti með endur og um þær heimildir sem eru til andaveiða.