Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:11:14 (5479)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:11]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að nefna það að það getur komið verri ráðherra sem ekki er eins góður og núverandi ráðherra við þessar stofnanir og (Gripið fram í.) beitir sér ekki gagnvart stofnununum. Það getur nefnilega gerst.

Ég vil líka koma inn á það sem hv. þingmaður sagði um að löggjöfin væri veikari vegna þess að nú mætti ekki skipta upp fyrirtækjum nema sekt væri sönnuð. Ég spurði að því í frammíkalli hvort það hefði nokkurn tímann gerst? Nei, það hefur ekki gerst. Af hverju hefur það ekki gerst? Vegna þess að að margra mati brýtur það eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem við höfum öll svarið eið að. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“

Ef skipta á upp fyrirtæki án sektar sem veldur eigandanum tjóni, þá þarf því að bæta honum tjónið. Ég er hræddur um að þá brygði nú ýmsum.