Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 15:21:35 (5487)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[15:21]

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það dýpki ekki umræðuna að standa í einkunnagjöf og sleggjudómum eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert í umræðunni, en ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að við viljum nálgast málið út frá ákveðnum sjónarmiðum um jafnvægi eins og hann nefndi í ræðu sinni. Við vitum að samkeppnislögin hafa þann tilgang að finna ákveðið jafnvægi milli fullkomins viðskiptafrelsis þar sem engar reglur ríkja og þess hlutverks síns að vera með ákveðnar umferðarreglur til að tryggja að þeir aðilar sem starfa á markaði rekist ekki á, heldur að samkeppnin og starfsemin geti gengið nokkuð vel fyrir sig.

Ég vil lýsa mig algerlega ósammála þeim sjónarmiðum hv. þingmanns að heimild til að skipta upp fyrirtækjum hafi verið fyrir hendi í núgildandi lögum. Við vitum að þetta atriði hefur verið umdeilt meðal lögfræðinga. Það er ótvírætt að ákvæðinu hefur aldrei verið beitt með þessum hætti og einmitt í ljósi þess sem nefnd viðskiptaráðherra tók þetta upp og gerði að tillögu sinni að skipulagsbreytingarákvæðið yrði tekið upp í lögin. (Forseti hringir.) Ef um gildandi rétt væri að ræða hefði málið ekki verið nálgast með þessum hætti.