Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 17:12:59 (5523)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[17:12]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir fór hér yfir og lagði fram sjónarmið sín og væntanlega ástæður þess að hún styður það frumvarp sem hér er til meðferðar. Hv. þingmaður vísaði einnig til nefndar um íslenskt viðskiptalíf sem skilaði vandaðri skýrslu, eins og hv. þingmaður orðaði það, og lagði fram tillögur.

Það má segja sem svo að í þessari nefnd séu lagðar fram þrjár, fjórar beinar tillögur um það hvaða breytingar skuli ráðast í. Af þessum þremur beinu tillögum sem lagðar eru til um breytingar er aðeins ein sem á að lögfesta. Það á ekki að lögfesta að heimila vettvangsrannsóknir og húsleit eins og lagt er til. Það á heldur ekki að lögfesta eða viðhalda því ákvæði sem hér hefur verið talsvert til umræðu og hefur verið kallað 17. gr. c-liður í núgildandi lögum þar sem segir m.a.: „Samkeppnisráð getur gripið til aðgerða gegn aðstæðum sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni .“ Það er bara breyting á skipulagi stofnunarinnar sem manni virðist vera farið eftir þannig að aðeins í sáralitlu er fylgt tillögum þeirrar nefndar sem vísað er til og talið er upphaf þessa máls.

Þá er, virðulegi forseti, spurning mín til hv. þingmanns þessi: Hvers vegna er ekki farið að fleiri tillögum sem birtast í niðurstöðum þeirrar ágætu nefndar sem hv. þingmaður vitnaði til?