Samkeppnislög

Þriðjudaginn 08. mars 2005, kl. 18:41:43 (5552)


131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[18:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nú einhver alskrýtnasta ræða sem hefur verið flutt í dag og hafa þær margar verið sérstakar.

Hv. þingmaður byrjaði á að tala um að menn væru að snúa út úr, teygja og toga, færði svo ekki ein einustu rök fyrir máli sínu. Hv. þingmaður gerði athugasemdir við það að við höfum verið að tala um það í dag að með því að koma upp pólitísku herráði væri verið að setja pólitík inn í Samkeppnisstofnun. Hv. þingmaður segir að svo sé ekki.

Þá spyr maður: Af hverju er verið að breyta, hver er nauðsyn á breytingunni? Eru í dag hin pólitísku afskipti, er það það sem hv. þingmaður er að segja? Hvað er hv. þingmaður að reyna að segja með þessu? Hann þarf nú að gera betur grein fyrir máli sínu.

Hv. þingmaður talaði um samkeppnisráð og stjórn. Hver er munurinn á þessu? Hver er einföldunin að undanskildu því að sú stjórn sem nú á að fara að skipa á að hafa dagleg afskipti af störfum stofnunarinnar? Hún á að samþykkja aðgerðir. Hefði slík stjórn sem á að tryggja meðalhófið samþykkt það að fara inn í olíufélögin? Það er spurning sem er mjög vert að hugleiða.

Síðan talaði hv. þingmaður um ábyrgð forstjóra í dag, ef ég skildi hv. þingmann rétt og hann verður þá að leiðrétta mig, ég vil meina að þetta sé einhver alskrýtnasta ræða sem flutt hefur verið í dag og endurspeglar kannski áhuga- og þekkingarleysi sem er greinilega grasserandi í stjórnarliðinu á þessum málaflokki, en hann sagði að samkeppnisráð bæri í dag sérstaka ábyrgð á forstjóranum og þeim ákvörðunum sem hann tæki. Mér heyrðist hv. þingmaður segja þetta og skildi hann þannig, hv. þingmaður leiðréttir mig þá hafi ég misskilið hann á einhvern hátt.

En ég hvet hv. þingmann til þess að kynna sér vandlega þennan málaflokk.