Lokafjárlög 2002

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 15:24:16 (5831)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:24]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki í aðstöðu til að fullyrða um eitt eða neitt í þeim efnum en ég nefndi þetta vegna þess að það vakti athygli mína. Ég trúi ekki öðru en að þetta sé einsdæmi og að þar hljóti að vera einhver skýring á. Eins og hv. þingmaður bendir á er það brot á öllum reglum, getur maður sagt, að hlutirnir séu framkvæmdir með þessum hætti.

Ég tel sjálfgefið að við munum í fjárlaganefnd óska skýringa á þessu. Ég trúi ekki öðru, eins og ég sagði áðan, en að þetta sé einsdæmi og á þessu sé einhver skýring sem réttlæti þetta á einhvern hátt. En eins og ég nefndi í ræðu minni þá hélt ég, og býst við að hv. þingmaður hafi líka staðið í þeirri trú, að þetta væri ekki lengur til staðar. En fyrir nokkrum árum var þetta því miður algengara en það hefði átt að vera. Þetta er auðvitað brot á öllu og þannig á ekki að reka ríkisstofnanir. Fyrir slíku þarf auðvitað heimildir.

Þetta er kannski hluti af því sem við höfum oft bent á, að það þarf að auka virðingu allra fyrir fjárlögum. En til þess að við náum því þarf áætlunargerðin að vera þannig að menn treysti henni og að áætlunin sé í samræmi við það sem stofnunum er ætlað að gera.

En ég tek undir það með hv. þingmanni að þetta er alvarlegt mál. Það var þess vegna sem ég vakti athygli á þessu. Þetta vakti sérstaka athygli mína af því að ég hafði staðið í þeirri trú að þetta væri löngu liðin tíð.