Lokafjárlög 2002

Þriðjudaginn 15. mars 2005, kl. 15:25:54 (5832)


131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Lokafjárlög 2002.

440. mál
[15:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði að meira hefði verið um þetta í eina tíð og það má vel vera. Stundum heyrir maður fréttir af því að sveitarfélög, verktakar og aðrir bjóðist til að lána ríkissjóði, Vegagerðinni og öðrum, til að fara út í framkvæmdir sem þá langar til að fara í og skuldbinda þar með ríkissjóð. Ég vil að menn taki mjög fast á slíkum hugmyndum vegna þess að þeim fylgir ekkert annað en aukið agaleysi. Það kemur í veg fyrir að menn fylgi þeim aga sem fjárlögin eiga að veita.