Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 10:52:36 (5965)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:52]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var erfitt hjá hæstv. ráðherra að standa hér og þurfa að viðurkenna fyrir þingheimi að staðan í sameiningarmálum sveitarfélaga sé sú sem hann hér lýsti.

Verkaskiptanefnd, engar tillögur. Samt var lögð á það veruleg áhersla þegar þetta fór af stað að það ætti að efla sveitarstjórnarstigið, það ætti að byrja á því að ákveða hvaða verkefni ætti að færa, svo mundu menn velta fyrir sér hvað sveitarfélögin þyrftu að vera stór til þess að geta sinnt þeim og hvaða tekjur þau þyrftu að hafa til að geta sinnt þeim verkefnum sem mundu flytjast frá ríki til sveitarfélaga.

Nú eru engar tillögur uppi um neinn flutning á verkum frá ríki til sveitarfélaga. Samt á að fara að sameina sveitarfélögin, bara til að sameina þau, og tillögur sem lesnar voru hér upp í belg og biðu frá tekjustofnanefnd eru afskaplega rýrar í roðinu þegar maður rýnir í þær betur en hér var gert.

Níu milljarðar, segir hæstv. ráðherra og hreykir sér af því. Af hverju notaði ekki hæstv. ráðherra 10 ár eða 20 til að margfalda þessa hungurlús sem hann er hér að tilkynna um til þess að þetta yrðu einhverjir tugir milljarða sem hann gæti tilkynnt til þingheims? Hér er verið að reyna að leggja saman margra ára hugsanleg framlög miðað við þær tillögur sem fyrir liggja.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er sátt um þær tillögur sem hann var að lýsa? Er tekjustofnanefndin sammála um að leggja þessar tillögur svona fram? Er full sátt milli ríkis og sveitarfélaga um að svona verði þetta og ekki öðruvísi?

Síðan las hæstv. ráðherra upp úr greinargerð að mikilvægt væri að sveitarstjórnir sem ekki hafa enn tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefnd í samræmi við tillögur sameiningarnefndar geri það hið fyrsta. Hvaða tillögur sameiningarnefndar? Ég veit ekki um neinar tillögur sameiningarnefndar eins og á Suðurnesjum þaðan sem ég kem. Hvernig í ósköpunum eiga sveitarstjórnir að geta tilnefnt fulltrúa í samstarfsnefndir þegar ekki koma fram neinar tillögur? Þetta er allt eins hjá hæstv. ráðherra eins og hann fór yfir þetta hér og alveg til skammar.