Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 10:58:06 (5968)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:58]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru mér ákveðin vonbrigði að hv. þingmaður skuli ekki fylgjast betur með í þessu máli og þessu verkefni en raun ber vitni. Eins og ég sagði áðan hefur alla tíð legið fyrir að endanlegar tillögur um verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga ættu ekki að liggja fyrir fyrr en næsta haust. Hins vegar eru komnar fram fyrir sennilega einu og hálfu ári, eða a.m.k. ári, hugmyndir frá verkefnisstjórn þessa verkefnis um vænleg verkefni til að færa á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er um að ræða ákveðna þætti í heilbrigðisþjónustunni, öldrunarþjónustunni, málefnum fatlaðra o.fl. (Gripið fram í.) Það er unnið að útfærslu þessa, hversu miklar tekjur þurfi þá til og fleira í þeim dúr.

Ég bið hv. þingmann um að fylgjast betur með (JGunn: Þið gáfuð …) til að geta tekið þátt í þessari umræðu af einhverju viti.