Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 17. mars 2005, kl. 11:03:53 (5972)


131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:03]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka fram að ég klæddi mig í morgun rétt eins og alla aðra daga áður en ég fór í vinnuna þannig að þetta líkingamál hv. þingmanns finnst mér harla hallærislegt, satt best að segja.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sá sem hér stendur var áður sveitarstjórnarmaður og m.a. varaformaður Sambands ísl. sveitarfélaga. Það er kannski ekki síst í því ljósi, í ljósi þeirrar forsögu sem ég hef lagt mikla áherslu á að þetta verkefni fengi framgang. Ég hef skilning á því að efla þarf sveitarfélögin og þau þurfa að stækka, þurfa að sameinast, til að geta tekist á við þau verkefni sem þeim eru ætluð, ég tala nú ekki um frekari verkefni. (Gripið fram í: …tekjustofna fyrst og fremst.)

Tekjustofnar sveitarfélaganna aukast stórkostlega með því samkomulagi sem ég hef hér kynnt. Það er niðurstaða málsins og það sem skiptir mestu máli.